Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 515  —  385. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld (samsköttun félaga, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, leigutekjur, virðisaukaskattur, vörugjald af grindarbílum o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Í stað „3. mgr.“ í 5. tölul. kemur: 3.–5. mgr.
     b.      Orðið „sjómannaafsláttur“ í 7. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað „3. mgr.“ í 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. kemur: 3.–5. mgr.
     b.      3. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     c.      3. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Á undan „séu skattlögð saman“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og hlutafélög sem heimilisföst eru í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 3. gr. a.
     b.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé um hlutafélög að ræða sem eru heimilisföst í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema þau geti sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a. Skilyrði þess að samsköttun sé leyfð með hlutafélagi heimilisföstu í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum er að öll hlutafélög innan samstæðunnar séu samsköttuð.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef sótt er um samsköttun með hlutafélögum sem heimilisföst eru í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 1. mgr., skal umsókn um samsköttun koma frá endanlegu móðurfélagi samstæðunnar.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                 Tap sem verður á rekstri eins eða fleiri samskattaðra hlutafélaga á rekstrarárinu má draga frá tekjum hinna áður en tekjuskattur er reiknaður við samsköttun. Ákvörðun og nýting taps skal vera í samræmi við 31. gr. Viðkomandi tekjuár skal ávallt gert upp við samsköttun áður en félag tekur tillit til yfirfæranlegs eigin taps. Tap í hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eða fastri starfsstöð skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr., sbr. 3. gr. a, er aðeins frádráttarbært hjá íslensku félagi að tapið hafi ekki verið nýtt í heimilisfestarríki hins erlenda félags eða erlends eiganda föstu starfsstöðvarinnar.

4. gr.

    B-liður 3. mgr. 57. gr. b laganna fellur brott.

5. gr.

    Á eftir 58. gr. laganna kemur ný grein, 58. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Útleiga manna á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og öðru húsnæði.

    Tekjur manna af útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis eða annars húsnæðis, m.a. þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi, skulu teljast stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi nema:
     a.      Tekjurnar stafi af útleigu til varanlegrar búsetu leigjanda í íbúðarhúsnæði, enda séu hinar útleigðu sérgreindu fasteignir ekki fleiri en tvær. Hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði til varanlegrar búsetu leigjanda er honum heimilt að draga frá þeim tekjum húsaleigugjöld af íbúðarhúsnæði til eigin nota. Frádráttur þessi leyfist eingöngu á móti leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er í útleigu.
     b.      Útleigan teljist heimagisting samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, hún hafi verið tilkynnt sýslumanni og fengið skráningarnúmer. Þá skal heildarfjárhæð leigutekna viðkomandi af heimagistingu á tekjuárinu aldrei nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. Sé húsnæðið í útleigu tveggja eða fleiri manna skal við afmörkun heildarfjárhæðarinnar telja tekjur þeirra allra hjá hverjum og einum.
    Tekjur af starfsemi sem fellur undir b-lið 1. mgr. skulu skattlagðar samkvæmt ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. án frádráttar. Nemi heildarfjárhæð leigutekna skv. b-lið 1. mgr. hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. eða ef sýslumaður fellir niður skráningu heimagistingar falla allar leigutekjurnar á tekjuárinu undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.

6. gr.

    7. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á a-lið 5. tölul. 70. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „íbúðarhúsnæði“ í 2. málsl. kemur: til búsetu leigjanda.
     b.      Í stað orðanna „skv. 3. mgr. 30. gr.“ í 2. málsl. kemur: skv. a-lið 1. mgr. 58. gr. a.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað „1.–4.“ í 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 1.–5.

9. gr.

    Í stað „vaxtalög, nr. 25/1987“ í 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: lög um vexti og verðtryggingu.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

10. gr.

    2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Vörur á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar. Sama á við um innflutning á vörum erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila sem undanþegnir eru skyldu til greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt alþjóða- eða tvíhliða samningum eða sérstökum lögum þar um.

11. gr.

    Á eftir 9. mgr. 42. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Endurgreiða skal virðisaukaskatt vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar. Með sama hætti skal endurgreiða virðisaukaskatt til erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila sem undanþegnir eru virðisaukaskatti vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi samkvæmt alþjóða- eða tvíhliða samningum eða sérstökum lögum þar um.

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

12. gr.

    3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Aðilar sem undanþegnir eru tollskyldu með sérstökum lögum eða á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar, þ.m.t. Atlantshafsbandalagið, Samstarf í þágu friðar, og herlið Bandaríkjanna.

13. gr.

    Í stað orðanna „stórfelldu gáleysi“ í 1., 2. og 3. mgr. 172. gr. laganna kemur: gáleysi.

14. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Q-liður 1. tölul. fellur brott.
     b.      H-liður 2. tölul. orðast svo: Grindur með hreyfli og ökumannshúsi og eftir atvikum með viðbættu vöruflutningarými. Með viðbættu vöruflutningarými er átt við vörukassa eða vörupall sem ekki er sambyggður ökumannshúsinu og á hvað varðar lögun, lit eða efni ekki sjónræna samstöðu með því.

16. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eru undanþegnir gjaldskyldu í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóða- eða tvíhliða samninga.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XIX við lögin:
     a.      Í stað „13 kr./kg“ í 9207.1001–9207.9000 kemur: 16 kr./kg.
     b.      Eftirfarandi tollskrárnúmer bætast við viðaukann:
             8456.3000     11 kr./kg
             8472.9010     16 kr./kg
             8539.1000–8539.9000     25 kr./kg

VII. KAFLI
Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

18. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eru undanþegnir gjaldskyldu í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóða- eða tvíhliða samninga.

19. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr., og breytast númer greina samkvæmt því, svohljóðandi:
    Endurgreiða skal tóbaksgjald á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar. Með sama hætti skal endurgreiða tóbaksgjald til erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila sem undanþegnir eru tóbaksgjaldi samkvæmt alþjóða- eða tvíhliða samningum eða sérstökum lögum þar um.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.

20. gr.

    Á eftir 3. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/ 1988, um virðisaukaskatt, eru undanþegnir gjaldskyldu í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóða- eða tvíhliða samninga.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/ 1988, um virðisaukaskatt, eru undanþegnir gjaldskyldu, í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóða- eða tvíhliða samninga.
     b.      Í stað „2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 3. mgr.
     c.      Í stað „4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 5. mgr.

22. gr.

    Í stað „4. mgr.“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: 5. mgr.

X. KAFLI
Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum.

23. gr.

    Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eru undanþegnir gjaldskyldu í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóða- eða tvíhliða samninga.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, með síðari breytingum.

24. gr.

    Á eftir 2. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 10. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eru undanþegnir gjaldskyldu í samræmi við sérlög eða ákvæði alþjóða- eða tvíhliða samninga.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011, með síðari breytingum.

25. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr., svohljóðandi, og breytast númer greina samkvæmt því:
    Endurgreiða skal gistináttaskatt á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar. Með sama hætti skal endurgreiða gistináttaskatt til erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila sem undanþegnir eru gistináttaskatti samkvæmt alþjóða- eða tvíhliða samningum eða sérstökum lögum þar um.

26. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
    Ákvæði 1. gr. og a-liðar 2., 6., a-liðar 7., 8. og 9., 13.–15. og 17. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 3. og 4. gr. öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2018.
    Ákvæði b- og c-liðar 2. gr. og b-liðar 7. gr. taka gildi 1. janúar 2018 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2019.
    Ákvæði 5. gr. tekur gildi 1. janúar 2017 og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2018 nema a-liður 1. mgr. greinarinnar sem tekur gildi 1. janúar 2018 og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2019.
    Ákvæði 10.–12., 16. og 18.–25. gr. öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2017.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum af ólíkum toga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar er nokkuð mismunandi eftir því hvaða breytingartillögur er um að ræða. Tilefni breytinga á 55. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eru ábendingar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að núgildandi ákvæði brjóti gegn 31. gr. og 40. gr. EES-samningsins um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns. Tilefni breytinga á 57. gr. b laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er að líkur eru taldar á að ákvæðið gangi gegn EES-rétti, sbr. sérstaklega ákvæði 1. mgr. 31. gr. og 34. gr. EES-samningsins. Þá þykir nauðsynlegt að lögfesta nýtt ákvæði um skattlagningu leigutekna vegna útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis í eigu einstaklinga. Í frumvarpinu er lagt til að saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga, þ.e. verknaðar við veitingu rangra eða villandi upplýsinga við innflutning eða vanrækslu upplýsingagjafar, verði bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða einföldu gáleysi en ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Þá þykir nauðsynlegt að fella brott ákvæði í tollalögum vegna takmörkunar á útflæði gjaldeyris, sbr. nýjar reglur Seðlabanka Íslands frá 12. mars sl. Einnig er lögð til sú nauðsynlega breyting að vörugjald af grindarbílum verði 13%. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði um undanþágu virðisaukaskatts á grundvelli alþjóða- og tvíhliða samninga og lögfesting nýs ákvæðis um endurgreiðslu virðisaukaskatts í því sambandi ásamt breytingum á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Aðrar breytingar í frumvarpinu eru nauðsynlegar til að samræma, einfalda, skýra og styrkja framkvæmdina og auka réttaröryggi. Þar má m.a. nefna leiðréttingar á ákvæðum laga um tekjuskatt, laga um tryggingagjald og laga um úrvinnslugjald.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:
          Í fyrsta lagi eru lagðar til nokkrar leiðréttingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tryggingagjald. Ekki er um efnisbreytingar að ræða.
          Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á samsköttun félaga. Í þeim breytingum felst að samsköttun félaga verði einnig leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins.
          Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott sú undantekning að ákvæði um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda eigi ekki við, í því tilviki að lánveitandi beri ótakmarkaða skattskyldu hérlendis.
          Í fjórða lagi er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um skattlagningu leigutekna vegna útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis í eigu einstaklinga.
          Í fimmta lagi er lögð til undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts og annarra skatta og gjalda á grundvelli alþjóðasamninga, tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um.
          Í sjötta lagi er lagt til að saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga, þ.e. verknaðar við veitingu rangra eða villandi upplýsinga við innflutning eða vanrækslu upplýsingagjafar, verði bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða einföldu gáleysi en ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
          Í sjöunda lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði í tollalögum vegna takmörkunar á útflæði gjaldeyris.
          Í áttunda lagi er lögð til sú breyting að vörugjald af grindarbílum verði 13%.
          Í níunda lagi eru lagðar til leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald.

4. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
    Eftirfarandi er nánari umfjöllun um breytingartillögur frumvarpsins.

4.1. Leiðréttingar á ákvæðum laga um tekjuskatt og laga um tryggingagjald.
    Lagt er til að vísun til sjómannaafsláttar verði felld brott á tveimur stöðum í lögum um tekjuskatt í ljósi þess að sjómannaafsláttur var felldur niður frá og með 1. janúar 2014.
    Í 4. og 5. tölul.1. mgr. 30. gr. A laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er að finna vísun til 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Ákvæðin fjalla um frádrátt vegna iðgjalda launþega og manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem greidd eru til lífeyrissjóða til aukningar lífeyrisréttinda, til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eða til starfstengdra eftirlaunasjóða samkvæmt lögum um starfstengda eftirlaunasjóði. Í 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um þá aðila sem hafa heimild til að stunda starfsemi með lífeyrissparnað og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögunum. Um er að ræða viðskiptabanka, sparisjóði og verðbréfafyrirtæki, líftryggingafélög og lífeyrissjóði. Lagt er til að tilvísanirnar taki einnig til 4. og 5. mgr. 8. gr. laganna, eins og verið hefur, þ.e. útibúa erlendra viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og líftryggingafélaga hér á landi, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.
    Í 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, er kveðið á um að tekjur af almennu tryggingagjaldi, umfram það sem talið er fram í 1.–4. tölul. málsgreinarinnar, renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Í 1.–4. tölul. er fjallað um það hlutfall sem renna skal til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Lögð er til sú leiðrétting að við upptalninguna verði bætt 5. tölul. sem mælir fyrir um það hlutfall sem Fæðingarorlofssjóður skal fá í sinn hlut af gjaldstofninum. Það sem umfram er rennur þá til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eins og hingað til.
    Í 2. mgr. 13. gr. laga um tryggingagjald er að finna tilvísun til vaxtalaga, nr. 25/1987. Þar sem þau lög hafa verið felld brott er lögð til sú leiðrétting að vísa til gildandi laga um vexti og verðtryggingu.

4.2. Samsköttun félaga.
    Í kjölfar álits Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, dags. 7. apríl 2016, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenskar reglur um samsköttun félaga brytu í bága við EES-samninginn, nánar tiltekið 31. og 40. gr. samningsins um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns, með því að leyfa aðeins hérlendum félögum með ótakmarkaða skattskyldu skv. 1. og 2. gr. laganna að sækja um og fá heimild til samsköttunar, eru lagðar til breytingar á 55. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í samræmi við núgildandi ákvæði geta félög með heimilisfesti hér á landi ekki fengið heimild til samsköttunar með föstum starfsstöðvum erlendra félaga sem hafa heimilisfesti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá kemur fram í áliti ESA að skilyrðið um 90% eignarhald félaga sem óska samsköttunar komi í veg fyrir að tvö félög með heimilisfesti hér á landi geti fengið heimild til samsköttunar, ef annað þeirra eða bæði eru í beinni eigu erlends félags sem ekki tekur þátt í samsköttuninni, jafnvel þótt þau séu í óbeinni eigu íslensks móðurfélags. ESA vísaði í þessu skyni til dóma Evrópudómstólsins í málunum Philips, nr. C-18/11, og Papillon, nr. C-418/07, sem báðir lutu að því að með því að leyfa ekki samsköttun innlends félags með útibúi erlends félags innan sömu samstæðu væri brotið gegn staðfesturéttinum, sem fælist m.a. í valfrelsi á viðeigandi félagaformi til að stunda atvinnurekstur í öðru aðildarríki með sömu skilyrðum og gilda um dótturfélög.
    Breytingarnar, sem lagðar eru til í frumvarpi þessu, eru fólgnar í því að samsköttun verði einnig leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samsköttunin er háð þeim skilyrðum að séu hlutafélög heimilisföst í lágskattaríki eigi ákvæðið ekki við nema þau geti sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi að ræða, sbr. 57. gr. a. Þá er jafnframt sett það skilyrði að danskri fyrirmynd að öll hlutafélög innan samstæðunnar séu samsköttuð. Með því er komið í veg fyrir að unnt sé að handvelja þau félög sem hentug eru til samsköttunar og önnur ekki.
    Með samsköttun félaga yfir landamæri eykst til muna þörf fyrir einfaldara regluverk. Lagt er til að ákvæði 4. mgr. verði breytt til einföldunar þar sem mikil brögð hafa verið að því að nýting eldra taps sé með röngum hætti. Stafar það af því að skortur er á leiðbeinandi reglum um framkvæmdina og því hafa mismunandi uppgjörsreglur mótast sem eru flóknar í framkvæmd fyrir bæði skattyfirvöld og gjaldendur vegna margra samsköttunaraðila og mismunandi samsköttunartíma. Þá er einnig lagt til að tap í hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins, skv. 4. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga, verði aðeins frádráttarbært hjá öðru íslensku félagi að ekki sé unnt að jafna tapið í heimilisfestarríki hins erlenda félags eða hjá hinu erlenda móðurfélagi starfsstöðvarinnar. Skilyrðið, sem jafnframt er að danskri fyrirmynd, er sett til að koma í veg fyrir tvöfalda nýtingu taps og er slíkt talið vera í samræmi við Evrópurétt, m.a. með vísan til dóma Evrópudómstólsins í málinu Papillon, nr. C-418/07, Felixstowe Docks, nr. C-80/12, og SCA Group Holdings BV (nr. C-39/13 til C-41/13).
    Áfram er gert ráð fyrir 90% eignarhaldsskilyrði fyrir veitingu heimildar til samsköttunar, enda er slíkt í samræmi við norskar og sænskar lagareglur um samstæðumillifærslur. Talið er að með því að leyfa samsköttun við erlend félög innan Evrópska efnahagssvæðisins sé sú óbeina mismunun sem talin var felast í núgildandi 55. gr. laganna vegna skilyrða um 90% eignarhald úr sögunni.

4.3. Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda.
    Með lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., nr. 112/2016, var lögfest regla um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda í 57. gr. b laga um tekjuskatt. Reglunni var ætlað að koma í veg fyrir að fjölþjóðlegar fyrirtækjasamstæður gætu dregið úr skattgreiðslum sínum með því að fjármagna félag í einu ríki með láni frá félagi innan samstæðu sem er í öðru ríki ef skatthlutfall þar væri lægra. Fyrrnefnda félagið gæti dregið kostnað af láninu frá tekjum við útreikning skattskylds hagnaðar og síðarnefnda félagið kynni að greiða lítinn eða engan skatt af vöxtunum sem það fengi greidda. Þetta mundi bæði rýra skattstofna og skekkja samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart fjölþjóðlegum fyrirtækjasamstæðum.
    Í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 112/2016 var gerð sú breyting að ákvæðið ætti ekki við í því tilviki að lánveitandi bæri ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í áliti nefndarinnar kom fram að vandamál sem tengjast þunnri eiginfjármögnun væru eðli máls samkvæmt hverfandi þegar bæði lántaki og lánveitandi væru skattskyldir hérlendis því að fjárhæð til frádráttar hjá lántaka kæmi þá til skattlagningar hjá lánveitanda.
    Lagt er til að undantekning þessi verði felld brott þar sem líkur eru á að hún gangi gegn EES-rétti, sbr. sérstaklega ákvæði 1. mgr. 31. gr. og 34. gr. EES-samningsins. Á grundvelli EES-samningsins verður ekki séð að unnt sé að skattleggja aðila með mismunandi hætti eftir því hvort lánveitandi (móðurfélag) skattaðilans sé innlent eða erlent fyrirtæki. Slíkt væri mismunun og hamlandi fyrir erlent fyrirtæki sem hefði í hyggju að stofna dótturfélag hérlendis.

4.4. Útleiga íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis.
    Þann 1. janúar 2017 voru gerðar breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sbr. lög nr. 67/2016. Með breytingunum var einstaklingum heimilað að starfrækja heimagistingu og leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign gegn skráningu hjá sýslumanni. Markmiðið með breytingunum var m.a. að stuðla að skýru regluverki og skráningarskyldu vegna útleigu einstaklinga á húseignum sínum til ferðamanna í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna hér á landi og útleigu húseigna til þeirra. Í lögunum er heimagisting skilgreind sem gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Þá koma m.a. fram þau skilyrði að fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þ.e. 2.000.000 kr.
    Við lögfestingu ákvæða laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 67/2016, voru samhliða lögfestingunni ekki gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, vegna tekna af heimagistingu. Í skattframkvæmd hafa komið upp álitamál um hvenær tekjur af sölu einstaklinga á gistingu í formi heimagistingar teljist til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi sem skattlögð er eins og aðrar tekjur einstaklinga af atvinnurekstri, eða hvenær tekjur af slíkri sölu eru skilgreindar sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar.
    Í ljósi þessa er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um útleigu íbúðarhúsnæðis í eigu einstaklinga. Lagt er til að skýr greinarmunur verði gerður á skattalegri meðferð leigutekna eftir því hvort um er að ræða: a) útleigu til varanlegrar búsetu leigutaka, b) heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og c) aðra útleigu á íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi. Markmiðið með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er þannig að einfalda skattskil og skýra skattskyldu, skattalega meðferð leigutekna og afmörkun skattstofna vegna útleigu einstaklinga á íbúðarhúsnæði eftir því hvort um er að ræða leigu til varanlegrar búsetu leigutaka, heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eða annars konar útleigu íbúðarhúsnæðis í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi. Þetta er sérstaklega brýnt, m.a. í ljósi þess að ný tegund gistingar svokölluð „heimagisting“ hefur rutt sér til rúms í mun meira mæli en áður vegna mikillar fjölgunar ferðamanna.
    Með lögum um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, nr. 125/2015, var gert ráð fyrir að skattskyldur hluti tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis lækkaði í 50%. Virk skattbyrði leigutekna einstaklinga af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu leigutaka er því nú 10%, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Í lögunum var jafnframt sérstaklega tekið fram að skammtímaleiga til ferðamanna eða önnur gistiþjónusta í atvinnuskyni félli ekki undir ákvæðið. Í frumvarpi þessu er lagt til að ef um varanlega búsetu leigutaka í íbúðarhúsnæði er að ræða og sérgreindar húseignir eiganda íbúðarhúsnæðis eru ekki fleiri en tvær skuli ávallt gengið út frá því að ekki sé um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að ræða samkvæmt lögum um tekjuskatt. Skal þá skattleggja umræddar tekjur sem fjármagnstekjur utan rekstrar. Frá og með 1. janúar 2016 er ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af 50% af tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda. Frítekjumarkið er ákvarðað í álagningu á grundvelli skattframtals og færast því einungis til skattskyldra tekna 50% af fenginni leigu þótt gera eigi grein fyrir heildartekjunum. Virk skattbyrði nú er því 10%. Til sönnunar á því að um varanlega búsetu leigutaka sé að ræða skal leigusali leggja fram skriflegan húsaleigusamning, sbr. 1. mgr. 4. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, og eftir atvikum önnur gögn sem sýnt geta fram á að um varanlega búsetu leigutaka er að ræða í viðkomandi íbúðarhúsnæði.
    Tekjur vegna heimagistingar eins og hún er skilgreind í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald bera í dag eftir atvikum 20% fjármagnstekjuskatt, þ.e. heimagisting sem ekki er stunduð í atvinnurekstri, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, eða eru skattlagðar með 36,94%–46,24% skatthlutfalli sem tekjur einstaklings af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. B-lið 7. gr. laganna, og eru þá tekjurnar skattlagðar eftir skattþrepum 1. mgr. 66. gr. laganna. Í ljósi þess að atviksbundið er hverju sinni hvort starfsemi einstaklinga vegna útleigu húseigna í formi heimagistingar teljist sjálfkrafa til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi er lagt til að kveðið verði skýrt á um það að tekjur einstaklinga af útleigu í formi heimagistingar, sbr. lög nr. 85/2007, teljist ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi ef einstaklingur hefur fengið leyfi fyrir heimagistingu samkvæmt lögunum hjá sýslumanni og uppfylli að öðru leyti þau skilyrði sem gilda um heimagistingu samkvæmt þeim lögum sem og reglugerð nr. 1277/2016 þar um. Af því leiðir að með breytingunni verður kveðið skýrt á um að tekjur vegna heimagistingar teljist til fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar og beri 20% fjármagnstekjuskatt, án nokkurs frádráttar frá leigutekjum, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna. Skattleggja ber því brúttótekjur án nokkurs frádráttar þegar um heimagistingu er að ræða. Þá er lagt upp með það sjálfstæða skilyrði varðandi heimagistingu að heildarleigufjárhæð leigutekna á tekjuárinu megi ekki nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr.
    Af þessari skiptingu leiðir að ef leiga einstaklings á íbúðarhúsnæði telst hvorki vera leiga til varanlegrar búsetu leigutaka né fellur í flokk heimagistingar samkvæmt lögum nr. 85/2007 og hefur ekki verið skráð sem slík hjá sýslumanni eða ef heildarleigutekjur nema hærri fjárhæð á tekjuárinu en 2.000.000 kr. skal útleigan teljast til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi einstaklings og vera skattlögð sem slík.

4.5. Undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts á grundvelli alþjóðasamninga o.fl.
    Ísland hefur skuldbundið sig á grundvelli ýmissa alþjóðasamninga og tvíhliða samninga til að veita skattundanþágur og undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda og óbeinna skatta. Þá hefur Ísland jafnframt skuldbundið sig til þess að veita erlendum liðsafla og borgaralegum deildum slíkra liðsafla samsvarandi undanþágur. Með lögum um réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl., nr. 72/2007, er til að mynda sérstaklega tekið fram að aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum um réttarstöðu liðsafla þeirra frá 19. júní 1951 og aðilar að samningi frá 19. júní 1995 milli aðildarríkja að Norður-Atlantshafssamningnum og annarra ríkja, sem eru aðilar að Samstarfi í þágu friðar, um réttarstöðu liðsafla þeirra skuli njóta skatta- og tollfrelsis hér á landi. Einnig ber að geta þess að í varnarmálalögum, nr. 34/2008, er kveðið á um að Atlantshafsbandalagið, Samstarf í þágu friðar og herlið Bandaríkjanna skuli njóta undanþágu hér á landi frá greiðslu skatta, gjalda og tolla.
    Með lögum um breytingu á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, nr. 69/2012, með síðari breytingum, var fellt brott ákvæði í 48. gr. laga nr. 50/1988 er laut að því að sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, nr. 110/1951, teldist sala úr landi. Fram kom að þessi hluti ákvæðisins hefði misst marks á árinu 2006 við brotthvarf varnarliðsins frá landinu. Í framkvæmd nutu hins vegar aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sem höfðu viðdvöl á Íslandi í lengri eða skemmri tíma einnig slíkrar undanþágu, þ.m.t. þau ríki sem sinntu hér loftrýmisgæslu.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að skýrar verði kveðið á um að alþjóðastofnanir og aðrir hlutaðeigandi aðilar sem flytja til landsins vörur á grundvelli alþjóðasamninga eða eftir atvikum tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, og öðlast hafa gildi er Ísland varðar, skuli undanþegnar sköttum og aðflutningsgjöldum við innflutning. Þá er lagt til að kveðið verði á um að erlendur liðsafli og borgaralegar deildir hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagið, Samstarf í þágu friðar og herlið Bandaríkjanna sem og aðrir aðilar sem njóta skattfríðinda í formi undanþágu á sköttum og aðflutningsgjöldum vegna innflutnings á vörum hingað til lands á grundvelli samningsskuldbindinga Íslands skuli vera undanþegnir greiðslu skatta og aðflutningsgjalda við innflutning.
    Í frumvarpinu er jafnframt brugðist við því að ekki er nú til staðar í lögum um virðisaukaskatt, tollalögum og lögum um ýmsa skatta og gjöld bein heimild til endurgreiðslu skatta og gjalda vegna kaupa alþjóðastofnana, erlends liðsafla og annarra aðila á vörum og þjónustu hér á landi á grundvelli samningsskuldbindinga Íslands við umrædda aðila. Lagt er til að brugðist verði við því þannig að kveðið verði á um að þessir aðilar skuli eiga rétt á endurgreiðslu skatta og gjalda vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi á grundvelli samningsskuldbindinga Íslands. Rétt þykir að sú leið verði farin að kveðið sé á um endurgreiðslu virðisaukaskatts til þeirra aðila sem falla undir ákvæðið vegna kaupa þeirra á vörum og þjónustu hér á landi í stað þess að salan verði talin undanþegin skattskyldri veltu. Með því móti er komið í veg fyrir ákveðið flækjustig í skattframkvæmd auk þess sem ríkisskattstjóra gefst tækifæri til þess að viðhafa eftirlit og skoðun á þeim sölureikningum sem berast honum vegna þeirra endurgreiðslna sem um ræðir hverju sinni. Þá ber að árétta að eingöngu ber að endurgreiða virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld samkvæmt ákvæðinu ef kveðið er á um endurgreiðslu slíkra gjalda með beinum hætti í þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland er aðili að eða sérstökum lögum þar um. Endurgreiðsla virðisaukaskatts og annarra opinberra gjalda skal því fara fram í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem um ræðir hverju sinni og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar eða eftir atvikum í samræmi við sérstök lög þar um. Þá skulu eingöngu þeir aðilar sem bærir eru til þess að krefjast endurgreiðslu virðisaukaskatts og annarra opinberra gjalda samkvæmt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem um ræðir hverju sinni geta óskað eftir endurgreiðslu slíkra gjalda hjá ríkisskattstjóra.

4.6. Saknæmi verknaðar við veitingu rangra eða villandi upplýsinga við innflutning eða vanrækslu upplýsingagjafar.
    Saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga, nr. 88/2005, er bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi, nema annað sé tekið fram, sbr. 2. mgr. 169. gr. laganna. Brot gegn ákvæðum 172. gr. tollalaga varða hins vegar ekki refsingu nema þau hafi verið framin af ásetningi eða að lágmarki stórfelldu gáleysi. Eru því gerðar strangari kröfur þegar um brot gegn fyrrgreindri grein tollalaga er að ræða en varðandi brot gegn ákvæðum tollalaga almennt. Ætla má að verknaður sem fellur undir verknaðarlýsingu 1. mgr. 172. gr. tollalaga sé í mörgum tilvikum framinn í þeim tilgangi að takmarka eða komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda. Fjárhagslegur ávinningur af slíkri brotastarfsemi er oft mun meiri en þegar um er að ræða brot gegn öðrum ákvæðum tollalaga enda getur röng eða villandi upplýsingagjöf orðið til þess að rýra verulega eða þurrka út skattstofna aðflutningsgjalda.
    Reynsla tollyfirvalda hefur sýnt að nær ómögulegt er að sýna fram á ásetning eða stórfellt gáleysi brotamanns vegna verknaðar sem fellur undir verknaðarlýsingu 172. gr. tollalaga. Afar sjaldgæft er að ákæra sé gefin út í slíkum málum og í þeim tilvikum þegar er ákært er afar fátítt að hún leiði til sakfellingar. Í allnokkrum málum hafa meintir brotamenn verið sýknaðir af broti gegn ákvæðum 172. gr. tollalaga þrátt fyrir að upplýst hafi verið og jafnvel viðurkennt að réttar upplýsingar hafi ekki verið veittar. Varnaðaráhrif 172. gr. tollalaga eru því afar takmörkuð enda er áhætta innflytjenda af því að hljóta refsingu fyrir brot sín mjög lítil. Nauðsynlegt er að breyta ákvæði 172. gr. tollalaga þannig að brot gegn ákvæðum greinarinnar varði refsingu sé það framið af ásetningi eða gáleysi. Slík breyting mun auka verulega líkur á að réttar upplýsingar berist tollyfirvöldum við innflutning sem aftur ætti að leiða til réttari álagningar aðflutningsgjalda en ella.

4.7. Brottfall ákvæðis í tollalögum vegna takmörkunar á útflæði gjaldeyris.
    Ákvæði til bráðabirgða IV var bætt við tollalög með lögum nr. 27/2009, um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum. Ákvæðið kom fram í 1. gr. þeirra laga en með 1. mgr. 3. gr. laganna var ákvæði sem varðaði sama efni einnig bætt við lög um gjaldeyrismál. Tilgangur ákvæðanna var að auka líkur þess að skilaskylda gjaldeyris virkaði sem skyldi í því skyni að takmarka útflæði gjaldeyris og byggja upp gjaldeyrisforða.
    Í ákvæði til bráðabirgða IV í tollalögum er efnislega kveðið á um að viðskiptaverð vöru, sem lagt er til grundvallar við ákvörðun tollverðs, skuli skráð í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Við skráningu skal miða við þann gjaldmiðil sem fram kemur á sölureikningi útflytjanda, þó ekki íslenskar krónur. Sé hins vegar ekki ljóst af sölureikningi hver sé gjaldmiðill viðskiptanna skulu þau skráð í evrum eða bandaríkjadölum á útflutningsskýrslu.
    Samhengisins vegna er rétt að geta þess að skv. 2. gr. laga nr. 87/1992 eru gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu óheft nema kveðið sé á um annað í lögum. Af 1.–3. mgr. 13. gr. b laganna leiðir hins vegar að allar fjármagnshreyfingar vegna vöru- eða þjónustuviðskipta á milli landa í innlendum gjaldeyri eru óheimilar nema Seðlabanki Íslands heimili undanþágur frá því banni.
    Hinn 12. mars 2017 setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um gjaldeyrismál. Skv. 11. gr. reglnanna eru greiðslur vegna útflutnings vöru og þjónustu undanþegnar skilyrði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um gjaldeyrismál. Af þeim sökum eru fjármagnshreyfingar í íslenskum krónum milli landa vegna útflutnings vöru og þjónustu ekki lengur bannaðar.
    Af tilvísun í ákvæði til bráðabirgða IV í tollalögum til ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um gjaldeyrismál leiðir að bann við skráningu viðskiptaverðs í íslenskum krónum er orðið marklaust og að vettugi virðandi. Í nafni skýrleika er lagt til að ákvæði til bráðabirgða IV í tollalögum falli brott frá þeim tíma er reglur Seðlabanka Íslands frá 12. mars 2017 tóku gildi.

4.8. Grindarbílar.
    Samkvæmt meginreglu 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, sbr. 1. og 2. gr. laganna, ber að greiða vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum sem flutt eru inn, framleidd, unnið er að eða sett eru saman hér á landi miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Gjaldið nemur 0–65% eftir því í hvaða gjaldbil, af tíu gjaldbilum aðalflokks, ökutækið fellur. Ýmsar undantekningar frá framangreindri meginreglu 3. gr. laganna er að finna í 4. og 5. gr. þeirra. Þau ökutæki sem falla utan meginreglu 3. gr. laganna, skv. 1. og 2. tölul. 4. gr. þeirra, eiga það flest sameiginlegt að þau eru almennt ætluð til sérstakra nota í þeim skilningi að gera má greinarmun á ætluðum meginnotum þeirra og þeirra ökutækja sem jafnan eru nýtt af almenningi og nefnd hafa verið ökutæki til mannflutninga.
    Umtalsverðar breytingar voru gerðar á lögum nr. 29/1993 með samþykkt laga nr. 156/2010. Fyrir gildistöku hinna síðarnefndu laga báru svokallaðir pallbílar 13% vörugjald þar sem þeir töldust til ökutækja sem aðallega væru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna. Eftir gildistöku laga nr. 156/2010 eru pallbílar meðhöndlaðir eins og aðrir mannflutningabílar. Þessi áform komu skýrt fram í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögunum (197. mál 139. löggjafarþings).
    Frá gildistöku laga nr. 29/1993 hafa svokallaðir grindarbílar, þ.e. grindur með hreyfli og ökumannshúsi, fallið undir undantekningarákvæði 4. gr. laganna og því borið lægra vörugjald en ökutæki til mannflutninga. Nam vörugjaldið í upphafi 15%. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 156/2010 var hins vegar gert ráð fyrir að grindarbílar féllu undir meginreglu laganna og vörugjald yrði lagt á þá miðað við losun koltvísýrings, 0–65%. Við aðra umræðu um frumvarpið lagði meiri hluti efnahags- og skattanefndar hins vegar til að grindarbílar yrðu færðir undan meginreglunni, þeim skipt í tvennt og þeir bæru annars vegar 0% vörugjald, ef þeir teldust grindur með hreyfli og ökumannshúsi án vöruflutningarýmis, en 13%, ef þeir teldust grindur með hreyfli og ökumannshúsi að viðbættu vöruflutningarými. Tillagan var samþykkt en niðurstaðan hefur hins vegar komið nokkuð afkáralega út í framkvæmd. Þannig hafa ökutæki sem flutt hafa verið inn ýmist borið 0%, 13% eða 0–65% vörugjald allt eftir því hvernig þau líta út við innflutning. Þessi staða endurspeglast vel í tveimur úrskurðum yfirskattanefndar frá 18. janúar 2017 (YSKN nr. 8 og 9/2017). Í ljósi niðurstaðna nefndarinnar þurfa tollyfirvöld að leggja vandasamt heildarmat á útbúnað slíkra bifreiða við innflutning. Matið er nær óvinnandi í framkvæmd og fer gegn sjónarmiðum um einfalda skattframkvæmd. Þá leiða niðurstöðurnar til þess að það verður nær óvinnandi vegur fyrir innflytjendur ökutækja að áætla með skynsamlegum hætti við innkaup hvaða gjald ökutæki muni bera.

4.9. Leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald.
    Með lögum um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017, nr. 126/2016, voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Eru forsendur breytinganna ítarlega raktar í kafla 3.15 í almennum athugasemdum frumvarps þess er varð að fyrrnefndu lögunum.
    Með 40. gr. laga nr. 126/2016 var nýjum viðauka, viðauka XIX, bætt við lög um úrvinnslugjald og inniheldur sá viðauki úrvinnslugjald sem leggst á tiltekin raf- og rafeindatæki. Vegna mistaka féllu niður nokkur tollskrárnúmer sem gera átti grein fyrir í viðaukanum auk þess sem gjöld reyndust ekki nægilega há í nokkrum tilvikum. Gerðist þetta annars vegar vegna mistaka við útreikning gjalda og hins vegar misskilnings sem á rætur sínar að rekja til viðamikilla breytinga sem urðu á tollskrá í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005, um síðustu áramót vegna breytinga á tollskrá Alþjóðatollamálastofnunarinnar.

5. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

6. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við utanríkisráðuneytið, ríkisskattstjóra og tollstjóra.

7. Mat á áhrifum.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Áhrif einstakra tillagna eru þó nokkuð mismunandi og er hér á eftir gerð nánari grein fyrir þeim.
    Ákvæði frumvarpsins um að samsköttun verði einnig leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins, gæti hugsanlega haft einhver áhrif á ríkissjóð hvort heldur er til hækkunar eða lækkunar á tekjum. Í ljósi þess að fram til þessa hefur ekki reynt á slíka skattlagningu hér á landi er engin leið að spá fyrir um nettóáhrif tillagna frumvarpsins á tekjuhlið ríkissjóðs til framtíðar verði þær óbreyttar að lögum.
    Gera má ráð fyrir að sú breyting að lögfest verði nýtt ákvæði um skattlagningu leigutekna vegna útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis í eigu einstaklinga kunni að hafa einhver áhrif á tekjur ríkissjóðs hvort heldur er til hækkunar eða lækkunar. Þessi áhrif yrðu helst á sviði heimagistingar en ómögulegt er að segja til um þau áhrif enda liggja upplýsingar um heimagistingu ekki fyrir. Markmiðið með breytingunum er að einfalda og bæta skattskil og skýra skattskyldu, skattalega meðferð leigutekna og afmörkun skattstofna vegna útleigu einstaklinga á íbúðarhúsnæði eftir því hvort um er að ræða a) leigu til varanlegrar búsetu leigutaka, b) heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eða c) annars konar útleigu íbúðarhúsnæðis í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi.
    Áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs vegna þeirra tillagna að vörugjald af grindarbílum verði 13% og að saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga verði bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða einföldu gáleysi eru talin verða nokkur. Gera má ráð fyrir 20–350 millj. kr. endurgreiðslum vörugjalda vegna fyrri álagningar en það mat er háð verulegri óvissu.
    Tillögur frumvarpsins um undanþágur og endurgreiðslur virðisaukaskatts á grundvelli alþjóðasamninga eru til komnar vegna alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins. Gert er ráð fyrir því að breytingarnar feli í sér lækkun tekna sem geti numið um 40 millj. kr. Um tekjuáhrif vegna annarra afleiddra breytinga er alls óvíst og ómögulegt að meta.
    Aðrar breytingar frumvarpsins er taldar hafa óveruleg eða engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Ekki verður annað séð en að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum ætti það að hafa jákvæð áhrif á almannahagsmuni og hagsmunaaðila. Áhrif þess á stjórnsýslu ríkisins og stofnanir þess eru talin hverfandi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um a-lið 1. gr. og a- og b-lið 2. gr.

    Í a-lið 1. og 2. gr. eru lagðar til leiðréttingar á þremur tilvísunum í lögum um tekjuskatt til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Frádráttur vegna iðgjalda launþega og manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem greidd eru til lífeyrissjóða til aukningar lífeyrisréttinda mun því auk þess að taka til viðskiptabanka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja, líftryggingafélaga og lífeyrissjóða einnig taka til útibúa erlendra viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og líftryggingafélaga hér á landi, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, eins og verið hefur. Sama á við um hvað ekki telst til tekna hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða til framangreindra aðila eða það bundið í lögum.
    Í b-lið 2. gr. er mælt fyrir um brottfall 3. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna. Samkvæmt núgildandi ákvæði 3. málsl. 2. mgr. ber að líta til heildarfyrningargrunns íbúðarhúsnæðis við mat á því hvort útleiga manns á íbúðarhúsnæði teljist ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi. Um er að ræða hlutlægt viðmið sem litið hefur verið til í skattframkvæmd. Núverandi meginmarkmið framangreinds 3. málsl. er aðallega að reisa skorður við að útleiga á íbúðarhúsnæði í eigu manna sem leigt er út eitt og sér geti talist vera atvinnurekstur. Þar sem lagt er til í frumvarpi þessu að útleiga manna á íbúðarhúsnæði til varanlegrar búsetu leigjanda skuli ekki teljast til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi leigusala og að slíkar tekjur skuli ávallt skattlagðar sem fjármagnstekjur, nú að teknu tilliti til 50% frítekjumarks af fenginni leigu, er lagt til að 3. málsl. 2. mgr. ákvæðisins verði felldur brott.

Um b-lið 1. gr. og 6. gr.

    Í ljósi þess að sjómannaafsláttur var felldur niður frá og með 1. janúar 2014 er lögð til sú leiðrétting á lögum um tekjuskatt að orðið sjómannaafsláttur verði fellt brott á tveimur stöðum. Annars vegar er um að ræða upptalningu á því hvað ekki telst til tekna og hins vegar hvað telst til afsláttar við tekjuskattsútreikning manna.

Um 3. gr.

    Lagt er til að samsköttun verði leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er þó háð þeim skilyrðum að séu hlutafélög heimilisföst í lágskattaríki eigi ákvæðið ekki við nema þau geti sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a. Að auki er það skilyrði sett að öll hlutafélög innan samstæðunnar séu samsköttuð.
    Lagt er til að ákvæði 4. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga verði breytt til einföldunar þar sem mikil brögð hafa verið að því að nýting eldra taps sé með röngum hætti. Þá er einnig lagt til að tap í hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins, skv. 4. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga, verði aðeins frádráttarbært hjá öðru íslensku félagi að ekki sé unnt að jafna tapið í heimilisfestarríki hins erlenda félags eða hjá hinu erlenda móðurfélagi starfsstöðvarinnar. Skilyrðið er sett til að koma í veg fyrir tvöfalda nýtingu taps.

Um 4. gr.

    Lagt er til að felld verði brott undantekning sú sem kveður á um að ákvæði 57. gr. b tekjuskattslaga, um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, eigi ekki við í því tilviki að lánveitandi beri ótakmarkaða skattskyldu hérlendis þar sem líkur eru á að hún gangi gegn EES-rétti, sbr. sérstaklega ákvæði 1. mgr. 31. gr. og 34. gr. EES-samningsins.

Um c-lið 2. gr., 5. og 7. gr.

    Hér er fjallað um útleigu manna á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði eða öðru húsnæði, m.a. þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi, og mat á því hvenær tekjur af slíkri útleigu teljast hafa myndast í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi einstaklings.
    Byggt er á því að meginreglan um skattlagningu tekna af útleigu einstaklinga verði sú að tekjur af útleigu manna á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði eða öðru húsnæði, m.a. þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi, teljist hafa myndast í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi einstaklings, þó með þeim undantekningum sem mælt fyrir um í a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. (58. gr. a tekjuskattslaga).
    Í a-lið ákvæðisins er mælt fyrir um að tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu leigjanda skuli ekki teljast hafa myndast í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi séu ekki leigðar út fleiri en tvær sérgreindar fasteignir (íbúðir). Með varanlegri búsetu leigjanda er átt við að leigjandi hafi fasta búsetu í leiguhúsnæðinu í skilningi 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990. Litið skal til svonefndrar svefnstaðarreglu, sbr. athugasemdir í frumvarpi við 1. gr. laga um lögheimili, þ.e. að maður teljist hafa fasta búsetu þar sem svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Útleiga til námsmanna skal í þessu sambandi teljast vera útleiga til varanlegrar búsetu leigjanda í skilningi a-liðar. Af þessu leiðir að undir a-lið ákvæðisins fellur ekki heimagisting samkvæmt lögum nr. 85/2007 eða annars konar tímabundin gisting sem veitt er gegn endurgjaldi. Í ljósi 1. mgr. 4. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, mun a.m.k. þurfa að leggja fram skriflegan húsaleigusamning til sönnunar varanlegri búsetu leigutaka í viðkomandi húsnæði. Telja ber tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu leigutaka fram sem fjármagnstekjur, en virk skattbyrði þeirra er nú 10%, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna.
    Í b-lið 5. gr. ákvæðisins er mælt fyrir um að tekjur af íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði eða öðru húsnæði í eigu einstaklinga þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi skuli ekki teljast hafa myndast í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eiganda ef útleigan fellur undir flokk heimagistingar, sbr. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Við skilgreiningu á frístundahúsnæði skal litið til laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008. Með öðru húsnæði er átt við aðra fasteign þar sem gistirými er leigt út gegn gjaldi, til að mynda herbergi, rými eða svefnskála. Tekjur vegna heimagistingar skulu teljast til fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar og bera 20% fjármagnstekjuskatt án nokkurs frádráttar frá leigutekjum, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er heimagisting skilgreind sem gisting á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af. Við mat á því hvort útleiga íbúðarhúsnæðis teljist vera heimagisting í skilningi laganna skal m.a. litið til þess hvort útleigan sem slík geti talist vera gisting samkvæmt lögunum, þ.e. leiga á húsnæði til gesta gegn endurgjaldi að hámarki í 30 daga samfleytt í senn, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 þar um. Ef gisting er boðin til lengri tíma en 30 daga samfleytt í senn skal útleigan teljast til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi einstaklings, sbr. þó a-lið greinarinnar. Af skilgreiningu á heimagistingu í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald leiðir jafnframt að fjöldi útleigðra daga á lögheimili eða í einni annarri fasteign einstaklings sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu mega ekki vera fleiri en 90 dagar á hverju almanaksári. Þá mega samanlagðar tekjur af leigu eignanna ekki nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. Ef annað hvort þessara skilyrða er uppfyllt eða einstaklingur uppfyllir að öðru leyti ekki ákvæði laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er varða skilyrði fyrir skráðri heimagistingu samkvæmt þeim lögum telst húsnæði sem einstaklingur leigir út í skammtímaleigu til atvinnurekstrar eða til sjálfstæðrar starfsemi einstaklings í skilningi tekjuskattslaga og ber að skattleggja eins og aðrar tekjur einstaklings af atvinnurekstri, sbr. þó a-lið ákvæðisins. Jafnframt skal liggja fyrir að eigandi húsnæðis hafi tilkynnt sýslumanni að hann hyggist leigja eign sína í heimagistingu og hafi fengið úthlutað skráningarnúmeri hjá sýslumanni vegna leigunnar.
    Í b-lið ákvæðisins er einnig kveðið sérstaklega á um að heildarleigufjárhæð leigutekna á tekjuárinu megi ekki nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. Um er að ræða sjálfstætt skilyrði í ákvæðinu. Telja skal leigutekjur vegna útleigu til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa leigusala á hendur leigutaka vegna þeirra. Ef leigutekjur nema hærri fjárhæð á tekjuárinu eða ef sýslumaður afskráir heimagistingu í húsnæðinu skulu tekjurnar þannig teljast hafa myndast í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi frá upphafi tekjutímabilsins. Þá er kveðið á um það í b-lið að við afmörkun á fjárhæðarmörkunum beri að telja heildartekjur vegna útleigu á húsnæðinu ef húsnæðið er í útleigu tveggja eða fleiri manna og heildarleigutekjur nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. hjá þeim mönnum sem fengið hafa leyfi til heimagistingar vegna húsnæðisins á tekjuárinu. Hér er átt við að eigendur húsnæðis eða þeir menn sem skráð hafa húseign hjá sýslumanni vegna heimagistingar, m.a. út frá lögheimilisskráningu, geti ekki komist hjá því að telja útleigu til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi með skiptingu útleigu húsnæðis á milli tveggja eða fleiri manna á tekjuárinu.
    Til skýringar má nefna að ef heildarleigutekjur þriggja manna sem stafa af heimagistingu vegna útleigu gistirýma í húseign eru 3.000.000 kr., á tekjuárinu, og tekjur hvers og eins þeirra eru 1.000.000 kr., skal sala gistingar teljast til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi hvers og eins þeirra og falla utan flokks heimagistingar samkvæmt lögum nr. 85/2007. Líta skal til fastanúmers húseignar við afmörkun á þeirri húseign sem um ræðir hverju sinni og gistirýmum hennar. Í þessu tilfelli ber að skattleggja 1.000.000 kr. hjá hverjum og einum manni sem tekjur einstaklings af atvinnurekstri sem skattleggjast þá eins og aðrar launatekjur nú eftir atvikum með 36,94%–46,24% skatthlutfalli.
    Um c-lið 2. gr. og 7. gr. vísast til skýringa við gildistökuákvæði frumvarpsins.

Um 8. og 9. gr.

    Lögð er til sú leiðrétting að við upptalningu 1.–4. tölul. í 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga um tryggingagjald verði bætt 5. tölul. sem mælir fyrir um það hlutfall sem Fæðingarorlofssjóður skal fá í sinn hlut af gjaldstofninum. Það sem umfram er rennur þá til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eins og hingað til.
    Þá er lagt til að í stað tilvísunar til brottfallinna vaxtalaga, nr. 25/1987, í 2. mgr. 13. gr. laga um tryggingagjald, verði vísað til gildandi laga um vexti og verðtryggingu.

Um 10. gr.

    Í núgildandi ákvæði 2. tölul. 36. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er kveðið á um að vörur sem fluttar eru inn til landsins á grundvelli milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar, skuli undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðið verði gert skýrara að því leyti að vísað verði til alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að. Þá er lagt til að beinlínis verði kveðið á um undanþágu virðisaukaskatts við innflutning þegar m.a. er um að ræða innflutning á vörum frá erlendum liðsafla og borgaralegum deildum hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalaginu, Samstarfi í þágu friðar, herliði Bandaríkjanna og skylduliði þeirra og öðrum aðilum sem undanþegnir eru skyldu virðisaukaskatts samkvæmt sérstökum lögum þar um.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar. Með orðunum „á grundvelli alþjóðasamninga“ er átt við að endurgreiðsla virðisaukaskatts skuli eingöngu fara fram ef kveðið er á um slíka endurgreiðslu með beinum hætti í þeim alþjóðlegu samningum sem um ræðir hverju sinni. Þá er mælt fyrir um að endurgreiða skuli virðisaukaskatt til erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila, vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi samkvæmt alþjóða- eða tvíhliða samningum eða eftir atvikum sérstökum lögum. Ekki er til staðar ákvæði í lögum um virðisaukaskatt sem kveður á um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi þegar Ísland hefur veitt skattfrelsi í formi undanþágu virðisaukaskatts samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þar um. Til að taka af öll tvímæli um rétt aðila í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi er lagt til að kveðið verði á um rétt þessara aðila til endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og öðlast hafa gildi hvað Ísland varðar. Ríkisskattstjóri skal einungis endurgreiða þeim aðilum virðisaukaskatt samkvæmt ákvæði þessu sem bærir eru til þess að krefjast endurgreiðslu út frá þeim alþjóðlegu skuldbindingum eða sérstöku lögum sem um ræðir hverju sinni og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar. Ríkisskattstjóri skal annast endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi samkvæmt ákvæði þessu.

Um 12., 16. og 18.–25. gr.

    Í greinunum er annars vegar lagt til að kveðið verði á um undanþágu þeirra aðila sem njóta munu réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt nýrri 10. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Lagt er til að þessir aðilar verði undanþegnir gjaldskyldu í tilviki aðflutningsgjalda og ýmissa beinna og óbeinna skatta. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um rétt þessara sömu aðila til endurgreiðslu skatta og gjalda í þeim tilvikum þegar þeir teljast ekki sjálfir til gjaldskyldra aðila heldur kaupa vörur eða þjónustu, svo sem gistiþjónustu, frá gjaldskyldum aðilum. Rétt er að taka fram að aðeins er gert ráð fyrir að þeir aðilar geti byggt rétt á ákvæðunum sem falla undir ákvæði sérlaga eða alþjóða- eða tvíhliða samninga þar um, og kveðið er með beinum hætti á um undanþágu þeirra tilteknu skatta og gjalda sem um ræðir hverju sinni í sérlögum eða eftir atvikum alþjóða- eða tvíhliða samningum.
    Um nánari skýringar vísast til kafla 4.5. í greinargerðinni.

Um 13. gr.

    Í frumvarpsgreininni er lagt til að 172. gr. tollalaga verði breytt á þann veg að brot gegn þeim verknaði að veita rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti vöru eða vanrækja að leggja fram tilskilin gögn vegna innflutnings samkvæmt ákvæðum tollalaga varði refsingu sé það framið af ásetningi eða einföldu gáleysi. Í því felst að ekki verður lengur gerð krafa um að saknæmisskilyrðið stórfellt gáleysi sé uppfyllt í tilviki slíkra brota. Markmiðið með breytingunni er að auka varnaðaráhrif ákvæðisins, sbr. nánari umfjöllun í kafla 4.6. í greinargerðinni. Einnig stuðlar breytingin að því að réttar upplýsingar um innflutning berist tollyfirvöldum og þar með aukast líkur á að rétt aðflutningsgjöld verði lögð á varning við innflutning.

Um 14. gr.

    Um skýringu á efni greinarinnar vísast til kafla 4.7. í greinargerðinni.

Um 15. gr.

    Í frumvarpsgreininni eru lagðar til tvær breytingar á 4. gr. laga nr. 29/1993.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði q-liðar 1. tölul. 4. gr. laganna verði fellt brott. Í ákvæðinu er kveðið á um að grindur með hreyfli og ökumannshúsi án vöruflutningarýmis beri 0% vörugjald.
    Í annan stað er lögð til breyting á h-lið 2. tölul. 4. gr. laganna. Með breytingunni er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að grindur með hreyfli og ökumannshúsi beri 13% vörugjald óháð því hvort þær eru útbúnar vöruflutningarými eður ei. Þá er lagt til að bætt verði við nánari skilgreiningu á hugtakinu vöruflutningarými en finna má í gildandi lögum. Er það gert til að einfalda greinarmun milli svokallaðra grindarbíla og pallbíla sem teljast til mannskapsbifreiða og bera vörugjald samkvæmt meginreglu 3. gr. laganna. Notast er við orðalagið „viðbætt vöruflutningarými“ og er með því átt við að vöruflutningarýminu hafi verið bætt á ökutækið sérstaklega og það sé því ekki órjúfanlegur hluti ökumannshúss að öðru leyti eins og á t.d. við í tilviki sendibíla. Eins og leiða má af gildandi lögum er með vöruflutningarými átt við vörukassa eða vörupall. Til þess að gera enn skýrara að rýmið verði að teljast viðbætt er sérstaklega kveðið á um að það megi ekki vera sambyggt ökumannshúsi. Þá er að auki áskilið að vöruflutningarýmið megi ekki hvað varðar lögun, lit eða efni eiga sjónræna samstöðu með ökumannshúsinu sem á grindinni er. Áfram er þannig gert ráð fyrir heildarmati á útbúnaði og útlitslegum einkennum ökutækis en það mat einfaldað. Ef ökutæki er með ökumannshúsi sem einkennist af ávölum línum og á það hefur verið bætt vörupalli sem einkennist af skörpum línum mundu rök standa til þess að það teldist til grindar með hreyfli og ökumannshúsi og viðbættu vöruflutningarými. Ef skil milli þeirra útlína sem einkenna ökumannshús annars vegar og vörupall hins vegar eru óljós mætti líta til litasamsetningar þannig að ef litur á palli væri ekki sá hinn sami og á ökumannshúsi mundi það benda til þess að um grind með hreyfli og ökumannshúsi og viðbættu vöruflutningarými væri að ræða. Að sama skapi mundi mismunandi sjónrænn greinarmunur á efnivið ökumannshúss og vörupalls benda til þess að um slíkt ökutæki væri að ræða, t.d. ef ökumannshús væri augsýnilega úr stáli eða álblönduðu stáli en vörupallur úr hreinu áli. Rétt er að taka fram að með grind í þessu samhengi er átt við burðarvirki ökutækis sé yfirbygging þess ekki sjálfberandi. Við grind ökutækis má festa aflrás, gírkassa, hjóla-, fjöðrunar-, hemla- og stýrisbúnað ásamt öxlum og telst það þá sem undirvagn ökutækisins. Á undirvagn ökutækis er hægt að festa yfirbyggingu, t.d. farþegarými eða framrými. Ef til þess kæmi að óljóst væri hvort ökutæki teldist grind í þessu samhengi væri eðlilegt að litið yrði til þess hvernig það var afhent frá verksmiðju eða hvort það sé yfirleitt framleitt og afhent frá verksmiðju sem grind. Tilgangur tillögunnar er að greina enn betur á milli hefðbundinna pallbíla og svokallaðra vinnuflokkabíla. Þar sem um undantekningu frá meginreglu 3. gr. laga nr. 29/1993 er að ræða er gert ráð fyrir að í vafatilvikum yrði litið svo á að meginregla 3. gr. ætti við um ökutækið.

Um 17. gr.

    Lagðar eru til leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Um nánari skýringar vísast til kafla 4.9. í greinargerðinni.

Um 26. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku.
    Lagt er til að ákvæði 10.–12., 16. og 18.–25. gr. öðlist gildi 1. janúar 2017 til ívilnunar fyrir þá aðila sem falla undir þau.
    Lagt er til að ákvæði 5. gr., að undanskildum a-lið 1. mgr., taki gildi 1. janúar 2017 til ívilnunar fyrir húseigendur sem hafa með höndum heimagistingu samkvæmt lögum nr. 85/2007. Með því verður gildistaka ákvæðisins samræmd gildistöku laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi). Leigutekjur vegna hvers konar fasteigna og fasteignaréttinda eru skattskyldar tekjur skv. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar sem verið er að skýra skattskyldu einstaklinga vegna útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis eða annarra eigna þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi í formi heimagistingar, samkvæmt lögum nr. 85/2007, og mælt er fyrir um að slíkar tekjur teljist til fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar, er lagt til að ákvæði þetta taki gildi 1. janúar 2017. Skörunar gætir milli ákvæða b- og c-liðar 2. gr. og a-liðar 5. gr. frumvarpsins. Ákvæði b- og c-liðar 2. gr. fela í sér brottfellingu ákvæða sem varða heimildir til frádráttar frá húsaleigutekjum á meðan gert er ráð fyrir því í a-lið 1. mgr. 5. gr. að ákvæði um sama efni verði tekin upp í nýja lagagrein, 58. gr. a laga um tekjuskatt. Þar sem nokkuð er liðið á árið þykir ekki forsvaranlegt að brottfall ákvæða 3. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. 30. gr. tekjuskattslaga eigi sér stað fyrr en um næstu áramót. Ekki tjóir að ákvæði a-liðar 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins taki gildi fyrr en á þeim sama tíma. Hins vegar er lagt til að ákvæði 5. gr. frumvarpsins taki að öðru leyti gildi 1. janúar 2017. Á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 1. janúar 2018 mun því fara um útleigu húsnæðis með eftirfarandi hætti:
     a.      Um afmörkun þess hvort útleiga íbúðarhúsnæðis teljist eiga sér stað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi mun áfram fara samkvæmt ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna. Þar sem sérákvæði laga ganga framar almennum ákvæðum mun hins vegar fara um afmörkunina hvað heimagistingu varðar skv. 5. gr. frumvarpsins, er verður 58. gr. a laganna.
     b.      Um heimildir til frádráttar tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis til eigin nota mun fara samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 30. gr. laganna (leiga á móti leigu).
     c.      Um heimagistingu mun eins og áður hefur verið nefnt fara skv. 5. gr. frumvarpsins, er verður 58. gr. a laganna, að öðru leyti en því að a-liður 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins tekur ekki til heimagistingar.
    Þegar þær breytingar sem lagðar eru til í b- og c-lið 2. gr. og 5. gr. frumvarpsins hafa að fullu tekið gildi, hinn 1. janúar 2018, mun alfarið fara um afmörkun þess hvort útleiga íbúðarhúsnæðis teljist eiga sér stað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og skattlagningu tekna af heimagistingu samkvæmt nýrri 58. gr. a laga um tekjuskatt.
    Lagt er til að ákvæði a-liðar 1. mgr. 5. gr. taki gildi 1. janúar 2018 og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2019, þannig að reglur um gildandi leigusamninga til varanlegrar búsetu leigutaka verði óbreyttar út tekjuárið 2017.
    Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringar.