Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 518  —  388. mál.
Frumvarp til laga


um rafrettur og tengdar vörur.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Einar Brynjólfsson, Jón Þór Ólafsson, Gunnar Hrafn Jónsson.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.

    Markmið laga þessara er að tryggja fyllsta öryggi með notkun rafrettna hér á landi og styðja við skaðaminnkandi úrræði til að draga úr þeim vanda sem er tilkominn vegna notkunar tóbaks.

2. gr.

    Með rafrettu er í lögum þessum átt við vöru sem hægt er að nota til neyslu á gufu, þ.m.t. hylki og tank sem og búnað án hylkis eða tanks.Rafrettur geta verið einnota eða fjölnota með áfyllingaríláti og tanki eða endurhlaðanlegar með einnota hylkjum.
    Með áfyllingaríláti er í lögum þessum átt við ílát sem inniheldur níkótínvökva sem hægt er að nota til að fylla á rafrettur.

3. gr.

    Nikótín og vörur sem innihalda nikótín falla undir lög þessi.

II. KAFLI
Sala og innflutningur.
4. gr.

    Rafrettur og áfyllingarílát má því aðeins hafa til sölu eða dreifingar að skráð sé viðvörun á umbúðir um skaðsemi af neyslu vörunnar.

5. gr.

    Til þess að kaupa, selja, framleiða eða sýsla með vökva sem inniheldur nikótín skal einstaklingur hafa náð 18 ára aldri.
    Um vökva sem innihalda önnur efni sem eru háð aldurstakmarki samkvæmt öðrum lögum skal farið samkvæmt þeim lögum.

6. gr.

    Ekki er heimilt að selja áfyllingarílát með nikótínvökva sem inniheldur meira nikótín en sem nemur 36 mg/ml.
    Ílát sem rúma meira af vökva en 30 ml skulu vera úr endurvinnanlegu gleri og öll áfyllingarílát skulu vera með þar til gerðum öryggisbúnaði.
    Ekki er heimilt að selja hylki til áfyllingar í rafrettur sem hafa stærra vökvarými en 15,2 ml.

7. gr.

    Rafrettum, áfyllingarílátum og vörumerkjum þeirra skal komið þannig fyrir á sölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum. Verslunum sem einungis selja rafrettur og áfyllingarílát er þó heimilt að koma vörum þannig fyrir í versluninni að þær séu sýnilegar þegar inn í verslunina er komið.

8. gr.

    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar, þar á meðal um viðvörunartexta og viðvörunarmyndir, stærð þeirra og letur.
    Framleiðendur og/eða seljendur rafrettna og áfyllingaríláta skulu standa straum af kostnaði við merkingar samkvæmt þessari grein.

9. gr.

    Allur búnaður sem tengdur er neyslu á nikótínvökva í formi gufu skal vera CE-merktur.
Allur vökvi skal vera innsiglaður og standast gæðakröfur samkvæmt reglugerð ráðherra, sbr. 4. mgr. 11. gr.

10. gr.

    Einstaklingur má flytja inn til eigin nota að hámarki 1,2 l af nikótínvökva á mánuði og nikótínstyrkur má þá að hámarki nema 36 mg/ml.

11. gr.

    Framleiðendur og innflutningsaðilar rafrettna og áfyllingaríláta, sem þeir hyggjast setja á markað hér á landi, skulu tilkynna Neytendastofu um starfsemi sína eigi síðar en tveimur vikum áður en starfsemi hefst.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja frekari ákvæði um tilkynningu, m.a. um hvaða upplýsingar skulu fylgja tilkynningu, um móttöku tilkynningar og varðveiðslu og meðhöndlun og greiningu upplýsinga sem fylgja tilkynningu.
    Neytendastofu er heimilt að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga sem standi undir kostnaði vegna umsýslu með þeim.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um kröfur um gæði, öryggi, merkingar og innihaldslýsingar rafrettna og áfyllingaríláta.
    Telji framleiðendur, innflytjendur eða dreifingaraðilar á rafrettum eða áfyllingaríláta að vara þeirra sem er ætlunin að markaðssetja uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru í lögum þessum eða séu skaðvænleg skulu þeir tafarlaust grípa til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að færa viðkomandi vöru til samræmis við lög þessi, þ.m.t. að innkalla vöruna af markaði, og veita Neytendastofu upplýsingar um framangreint.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um eftirlit með afleiðingum/aukaverkunum af notkun eða neyslu á nikótínvökva.
    Framleiðendur og innflutningsaðilar skulu árlega skila embætti landlæknis upplýsingum um sölu og neysluvenjur á rafrettum og áfyllingarílátum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.

12. gr.

    Efni sem hafa krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða æxlunarskaðandi eiginleika (CMR) í óbrunnu formi eru óheimil hér á landi. Heimilt er að innheimta gjöld af framleiðendum og innflutningsaðilum rafrettna og áfyllinga fyrir að meta hvort notuð séu bönnuð aukefni eða bragðefni og hvort varan innihaldi aukefni í magni sem eykur, umtalsvert eða mælanlega, eituráhrif eða ávanabindandi áhrif eða CMR-eiginleika viðkomandi vöru samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

13. gr.

    Óheimilt er að flytja inn, selja eða framleiða rafrettur og áfyllingar sem ekki uppfylla ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru með stoð í þeim.

14. gr.

    Sérstakt leyfi þarf til framleiðslu á nikótínvökva til sölu og dreifingar, þar með talið til útflutnings.
    Leyfi eru gefin út af Matvælastofnun.
    Leyfi skal veita til eins árs til reynslu og að því loknu er unnt að sækja um leyfi til fimm ára.
    Matvælastofnun er heimilt að innheimta gjald fyrir leyfi þó aldrei hærra en 150.000 kr.
    Matvælastofnun hefur eftirlit með allri framleiðslu á nikótínvökva.

III. KAFLI
Önnur ákvæði.
15. gr.

    Þeir sem bera ábyrgð á barni skulu stuðla að því að það njóti réttar til hreins andrúmslofts.

16. gr.

    Leggja skal gjald á vökva sem inniheldur nikótín sem nemur 5% af innflutningsverði og skulu tekjur af álagningu gjaldsins renna óskertar til rannsókna á rafrettum og til forvarna.

17. gr.

    Óheimilt er að auglýsa vökva sem inniheldur nikótín.
    Auglýsingar sem sérstaklega er beint að börnum eru með öllu óheimilar.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði heildarlög um rafrettur og tengdar vörur. Rafrettur eru enn á nokkuð gráu svæði og mikilvægt er að setja lög sem fyrst til þess að hægt sé að fylgja þróun eftir með ábyrgum og greinargóðum hætti og til þess að rannsóknir og heilbrigðismál sem tengjast þeim séu ætíð í réttum farvegi. Verslanir þurfa skýrt lagaumhverfi til að vinna eftir og neytendur eiga rétt á að nýta sér það skaðaminnkandi úrræði sem rafretta er.
    Afleiðingar tóbaksnotkunar er stórt heilbrigðisvandamál. Árlega látast um 400 manns af völdum tóbaks hér á landi og rekja má rúmlega 17% allra dauðsfalla beint til tóbaksnotkunar. Ætla má að fjárhagslegar afleiðingar tóbaksnotkunar séu árlega um 21 milljarður kr. umfram tekjur miðað við skýrslu nr. C03:04 sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands af út árið 2003 og byggist á tölum frá árinu 2000. Reikna má með að þessi kostnaður hafi aukist eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. Danmörku og Noregi. Norska heilbrigðisráðuneytið áætlar að kostnaður af tóbaksnotkun þar í landi sé um 80 milljarðar norskra kr. eða um 16 þús. norskar kr. á hvern einstakling. Þessar tölur sýna okkur hvernig notkun rafretta gæti styrkt stöðu ríkissjóðs umtalsvert.
    Frumvarp þetta er svar við illa unnu og skaðlegu frumvarpi heilbrigðisráðherra sem hefur verið birt í drögum um breytingar á tóbaksvarnarlögum þar sem rafretta er flokkuð sem sambærilegt fyrirbrigði og tóbak. Frumvarpið sem ráðherra hyggst leggja fram gæti haft í för með sér heilsufarslegt og efnahagslegt stórslys og er til þess fallið að hér myndist svartur markaður með vöru af þessu tagi og þar má aftur koma inn á þá staðreynd að ekki er um venjulegt lyf eða neysluvöru að ræða.
    Rafrettur eru ekki tóbak heldur leið sem milljónir manna um heim allan nýta sér til að venja sig af tóbaksnotkun. Fram hefur komið að neysla á tóbaki hefur minnkað stórlega samfara aukinni notkun rafrettna. Ef flokka á nikótínvökva með sama hætti og tóbak þyrfti einnig að færa nikótíntyggjó og aðrar sambærilegar vörur í sama flokk. Til að gæta samræmis við önnur lög þyrfti að endurskipuleggja alla stjórnsýsluna og færa kveikjara í tóbaksvarnalög og banna sölu á stærri einingum af stíflueyði en 10 ml.
    Mikilvægt er að gera greinarmun á áhöldum og vökva án nikótíns frá vökvum sem innihalda nikótín. Það þættu ekki góð vinnubrögð að flokka kveikjara undir tóbaksvarnalög.
Með núverandi lagaumhverfi varðandi rafrettuna er ekki grundvöllur fyrir heilbrigðri samkeppni þar sem verslanir starfa á gráu svæði. Mæta verður eftirspurn með traustu og góðu starfsumhverfi sem er til þess fallið að styrkja stöðu verslunar með þá vöru sem fellur undir frumvarp þetta. Heilbrigðisyfirvöld ættu ávallt að taka skaðaminnkandi úrræðum sem þessum fagnandi og leggja grunn að góðu samstarfi við almenning. Eins og með aðra vöru skulu allar merkingar, viðvörun um skaðsemi og innihaldslýsingar vera sýnilegar og vel læsilegar á umbúðum. Þykja má eðlilegt að framleiðendur og seljendur standi straum af kostnaði við merkingar á vörum hverjar sem þær kunna að vera.
    Hvað varðar innflutning er í frumvarpinu gerð sú krafa að vörur sem falla undir tiltekinn flokk fái CE-merkingu og hafi til þess gerðan stimpil. Ef ekki skal vara haldlögð við komuna til landsins.
    Horfa þarf til nýrra atvinnutækifæra sem þessi iðnaður færir sem ekki er aðeins bundinn við sölu tiltekinna vara heldur jafnframt framleiðslu, einkum á vökva.
    Það er mikill uppgangur í iðnaði tengdum rafrettum og fyrir hendi eru möguleikar á miklum útflutningstekjum. Á Íslandi eru kjöraðstæður til framleiðslu á vökva, sérstaklega til útflutnings.
    Í lagafrumvarpi ráðherra um breytingar á tóbaksvarnalögum er fjallað um aukefni eins og koffín og vítamín. Flutningsmenn telja eðlilegt að setja bann við slíkum aukefnum umfram það sem er í gildandi lögum sem lúta t.d. að orkudrykkjum.
    Flestir eru sammála um að takmarka beri styrk nikótíns í vökva sem fer í rafrettur og er það með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Ráðherra hyggst leggja til að hann verði takmarkaður við 20 mg/ml hér er hins vegar lagt til að styrkur verði takmarkaður við 36 mg/ml sem er hófleg krafa, sérstaklega í ljósi þess að þar til gerður öryggisbúnaður er ávallt til staðar sem hindrar aðgang t.d. barna og dýra að vörunni.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að stærðartakmörkun á vökvaílátum verði á þá leið að öll ílát yfir 30 ml verði í endurvinnanlegum umbúðum en nær allir minni skammtar af vökva fáist eingöngu í plastumbúðum. Vegna öryggisbúnaðar á töppum íláta og leyfilegum styrk nikótíns í vökva þykir ekki nauðsynlegt að takmarka stærðir á ílátum frekar. Ef þessar kröfur um stærðartakmarkanir þykja ekki góðar væri rétt að að takmarka stærð á umbúðum um stíflueyði við sömu stærð og niðurstaða verður samkvæmt frumvarpi þessu. Hæfileg tankastærð ætti að miðast við 15,2 ml og ekki þörf á að takamarka frekar leyfilegan styrk nikótíns í vökvanum.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að lagður verði skattur á vöruna sem nemi 5% af innflutningsverðmæti og renni tekjur af honum til rannsókna á rafrettum og til forvarna gegn tóbaksnotkun. Hins vegar er ekki lagður til skattur á aðra vöru sem tengist rafrettum. Ekki þarf að leita lengra en út í næstu raftækjaverslun til að sjá að tölvuleikir eru ekki skattlagðir í samræmi þann kostnað sem fíkn í tölvuleiki veldur.
    Vísindamönnum kemur ekki öllum saman um skaðsemi rafrettna en flestir telja, þ.m.t. breska heilbrigðisráðuneytið, að þær séu a.m.k. 95% hættuminni en tóbak. Telja má ástæðu til að stíga varlega til jarðar og hafa í huga heilsufarslegan og efnahagslegan ábata sem þessi tækni færir okkur.
    Mikilvægt er að neytendur hafi kost á að kaupa sinn eigin vökva að utan og gildandi reglur um 100 ml eru fjarri því að vera eðlilegar. Flutningsmenn telja 1,2 l á mánuði vera hæfilegt magn. Það skapar ekki eðlilega samkeppni ef íslenskar verslanir hafa einkarétt á sölu á vökva. Framangreind takmörkun er bundin við vökva sem í er nikótín en ef um er að ræða önnur efni, t.d. koffín eða vítamín, skal farið eftir þeim reglum sem kveða á um takmörkun á styrk miðað við millilítra.
    Flutningsmenn leggja til að auglýsingar um nikótínvökva verði óheimilar en annar búnaður og vökvi ætti ekki að falla undir sömu reglur. Einnig er kveðið á um það í frumvarpinu að auglýsingum ætti ekki að beina að börnum og unglingum. Þá skulu vörur í þessum flokki ekki vera sýnilegar í verslunum nema í sérverslunum með nikótín og tengdar vörur.
    Samkvæmt frumvarpinu má einstaklingur aðeins selja, kaupa eða sýsla með nikótín ef hann hefur náð 18 ára aldri. Önnur aukefni sem kunna að vera í vökvunum og bundin eru aldurstakmörkunum í öðrum lögum skulu vera með þeim takmörkunum sem þar segir.
    Ekki þykir eðlilegt að skerða frelsi einstaklings að óþörfu og sjá flutningsmenn hvorki að að setja ætti aldurstakmark á sölu á vökvum sem innihalda ekkert nikótín né á áhöldum til notkunar.