Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 529  —  398. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þátttöku í viðræðum um kjarnorkuafvopnun á vegum Sameinuðu þjóðanna.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að Ísland taki þátt í viðræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um útrýmingu kjarnorkuvopna og sendi fulltrúa á fund um þetta efni sem haldinn verður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna 15. júní til 7. júlí nk. Fulltrúinn taki afstöðu með útrýmingu kjarnorkuvopna og beiti sér í þágu kjarnorkuafvopnunar á fundinum.

Greinargerð.

    Þótt minna sé talað um kjarnorkuvopn nú en þegar kalda stríðið stóð sem hæst ógnar fátt mannkyni meira en þau. Núna eru ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum níu og áætlað að sprengjurnar séu tæplega 16 þúsund talsins. Þær eru vissulega færri en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins en með þeim væri þó hægt að margdrepa allt kvikt hér á jörð.
    Alþjóðlegu átaki um útrýmingu kjarnavopna (e. International Campaign to Abolish Nuclear Weapons, ICAN) var ýtt úr vör í Vínarborg árið 2007 og er það vettvangur frjálsra félagasamtaka, þingmanna af þjóðþingum og annars áhugafólks um kjarnorkuafvopnun. Samtökin hafa staðið fyrir stórum ráðstefnum um kjarnorkuógnina. Kveikjan að átakinu er óánægja með það hversu hægt gengur að fá kjarnorkuveldi heimsins til að axla þá ábyrgð sem gildandi sáttmálar um fækkun kjarnorkuvopna leggja þeim á herðar.
    Það voru því mikil og gleðileg tímamót þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í október 2016, með stuðningi yfir 120 landa, að efna til viðræðna á grundvelli tillagna ICAN um útrýmingu kjarnorkuvopna.
    Umræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um hvernig losa megi heiminn við kjarnorkuvopn og þá ógn sem af þeim hlýst fela í sér metnaðarfulla tilraun til kjarnorkuafvopnunar. Ísland tók því miður ekki þátt í fyrstu viðræðunum sem fóru fram 27.–31. mars sl. Ekki má bregðast að fulltrúi Íslands taki þátt í afvopnunarviðræðum í sumar ásamt fulltrúum mikils meiri hluta þjóða heimsins og styðji þá ötullega við málstað friðar og afvopnunar.