Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 534  —  403. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum (lýðheilsusjóður).

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Elsa Lára Arnardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy.


1. gr.

    Í stað orðanna „skal 1%“ í 7. gr. laganna kemur: skulu 5%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skulu 3% tekna af áfengisgjaldi renna til lýðheilsusjóðs á árinu 2018 og 4% á árinu 2019.

Greinargerð.

    Þetta frumvarp var áður flutt á 145. löggjafarþingi (62. mál) af núverandi flutningsmanni. Þar sem málið varð ekki útrætt en tilefni þess er enn jafnbrýnt og það var þá er það endurflutt óbreytt að öðru leyti en því hvað tímamörk varðar. Meðfylgjandi greinargerð, sem fylgdi málinu upphaflega, var uppfærð eins og breytingar á umfjöllunarefni hennar kröfðust og stytt allnokkuð.
    Markmiðið með frumvarpinu er að auka tekjur lýðheilsusjóðs af áfengisgjaldi sem lagt er á allt áfengi og er meðal þeirra vörugjalda sem lögð eru á tiltekinn varning í því skyni að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna. Lýðheilsusjóður er starfræktur á vegum landlæknisembættisins, sbr. 4. gr. b laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og reglugerð um lýðheilsusjóð nr. 1260/2011 í því skyni að styrkja lýðheilsustarf í samræmi við markmið laga um landlækni og lýðheilsu og stuðla að heilsueflingu og forvörnum. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um lýðheilsusjóð ber að verja „að minnsta kosti 65% af tekjum sjóðsins til lýðheilsu- og forvarnastarfs embættis landlæknis eða annarra verkefna sem unnin eru á vegum embættisins“ en þar að auki ber að nýta hluta tekna sjóðsins til að standa undir kostnaði við verkefni samkvæmt umsóknum. Lýðheilsusjóður er þannig mikilvægur fjármögnunaraðili heilsueflandi aðgerða, hvort sem litið er til lýðheilsu- og forvarnastarfs á vegum hins opinbera eða slíkra verkefna og rannsókna sem komið er í kring fyrir atbeina einstaklinga og félagasamtaka. Því til staðfestingar er að árið 2016 námu úthlutanir úr sjóðnum alls kr. 84.525.000, 74.800.000 kr. árið 2015 og 69.810.000 kr. árið 2014 samkvæmt upplýsingum á heimasíðu landlæknisembættisins. 1
    Samkvæmt ríkisreikningi viðkomandi ára nam áfengisgjald árið 2013 kr. 11.409 millj. kr., 12.345 millj. kr. árið 2014, 13.303 millj. kr. árið 2015 og er áætlað um 15.900 millj. kr. árið 2016.
    Eins og málum er nú háttað ber lýðheilsusjóði 1% af innheimtu áfengisgjaldi ár hvert og því um takmarkað fjármagn að ræða sem sjóðurinn getur úthlutað árlega til almennra lýðheilsu- og forvarnaverkefna. Jafnframt er ljóst að hækkun í þrepum upp í 5% af innheimtu áfengisgjaldi mundi styrkja sjóðinn umtalsvert og auka getu hans til að efla lýðheilsu- og forvarnastarf að því marki að vænta mætti betri árangurs á þessum mikilvæga vettvangi.
    Enn á ný liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (106. mál, þskj. 165) sem áður var flutt á 145. löggjafarþingi (13. mál) og þar áður á 144. löggjafarþingi (17. mál). Þingmál þetta miðar að því að leggja einkasölu ríkisins á smásölu áfengis utan veitingastaða af og fela einkaaðilum þennan rekstur. Eins og fram kemur í greinargerð með málinu hafa þingmál með sama markmið verið flutt alloft á undanförnum árum en ekki náð fram að ganga. Í 27. gr. fyrrnefnds frumvarps er gert ráð fyrir þeirri breytingu á ráðstöfun áfengisgjalds sem ætlunin er að koma í kring með þessu þingmáli og í 30. gr. er að finna ákvæði um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, sem felur í sér að lýðheilsusjóði verði gert að „leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna“ um tveggja ára skeið eftir að frumvarpið hefur tekið gildi sem lög og í skýringum er þetta sagt vera „til þess að bregðast við þeim tímabundnu breytingum sem kunna að verða á áfengisneyslu eftir að smásala á áfengi verður gefin frjáls“.
    Ætla má að þær breytingar, sem flutnings- og stuðningsmenn fyrrnefnds frumvarps sáu fyrir sér að yrðu með einkavæðingu smásölu áfengis og kölluðu á aukinn atbeina lýðheilsusjóðs, fælu í sér aukna neyslu áfengis. Með það í huga og þann málatilbúnað sem hafður var uppi í málinu er ástæða til að spyrja hvort ástæða eða tilefni hafi gefist til að grípa til ráðstafana til að auka áfengisneyslu á Íslandi. Afdrif þeirra þingmála sem flutt hafa verið til þessa benda til þess að meiri hluti þingmanna hafi jafnan verið svo vel að sér um þau margháttuðu vandkvæði sem áfengisneysla getur haft fyrir neytendur og samfélagið í heild að þeir hafi viljað forðast allar breytingar í þá veru að auka neyslu þessa útbreidda vímugjafa. Óskandi er að svo verði einnig framvegis. Frumvarpið mætir enda yfirgnæfandi andstöðu þeirra sem fyrr og nú hafa sent Alþingi umsagnir um málið og virðist sú andstaða sem og andstaða almennings fara vaxandi.
    Óháð því hver verða afdrif 106. máls á yfirstandandi þingi er full ástæða til að styrkja lýðheilsusjóð til aukinna verkefna. Ýmsir lífsstílssjúkdómar aðrir en þeir sem beinlínis stafa af áfengisneyslu eru algengir og ekki útlit fyrir annað en að svo verði framvegis þannig að telja má víst að þörf fyrir fjármuni til lýðheilsuverkefna fari vaxandi. Má í því sambandi nefna ört vaxandi nýgengi sykursýki tvö sem væntanlega má hiklaust flokka sem lífsstílstengdan sjúkdóm. Flest fagfólk á heilbrigðissviði er þeirrar skoðunar að leitun sé að arðbærari fjárfestingu fyrir samfélagið en í efldu forvarnar- og lýðheilsustarfi. Framangreindar breytingar á ráðstöfun áfengisgjalds eru því meira en tímabærar þó áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í áfengismálum, þó auðvitað megi færa fyrir því rök að þörfin verði enn brýnni verði þar breytingar á til hins verra.
    Gert er ráð fyrir því að fjármagn til lýðheilsusjóðs aukist í skrefum á þremur árum og ætti með því að gefast nægur tími til undirbúnings aukinna verkefna á starfssviði sjóðsins.

1     www.landlaeknir.is/um-embaettid/lydheilsusjodur/