Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 535  —  404. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heildarúttekt á starfsemi lífeyrissjóðakerfisins og endurskipulagningu þess.


Flm.: Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Einar Brynjólfsson, Gunnar I. Guðmundsson, Katla Hólm Þórhildardóttir.


    Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd til að gera heildarúttekt á starfsemi lífeyrissjóðakerfisins og gera tillögur að endurskipulagningu þess.
    Nefndin kanni sérstaklega lýðræðislega aðkomu sjóðsfélaga að stjórn lífeyrissjóða, gagnsæi í starfsemi lífeyrissjóða, kerfisáhættuþátta vegna rekstrarforms og umsvifa lífeyrissjóðakerfisins, og framtíðaráhættu vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar.
    Nefndin skili skýrslu til Alþingis um leið og úttekt er lokið, þó eigi síðar en í lok árs 2018. Nefndin upplýsi efnahags- og viðskiptanefnd skriflega um framgang vinnunnar á sex mánaða fresti.

Greinargerð.

    Stærð, umfang og umsvif lífeyrissjóðakerfisins hefur verið vaxandi áhyggjuefni undanfarin ár. Um síðustu áramót námu heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna 3.514 milljörðum kr. og samsvarar það um það bil 145% af VLF síðasta árs, þar af námu innlendar eignir 2.751 milljörðum kr. en erlendar eignir 764 milljörðum kr. Eignir lífeyriskerfisins jukust því um 7,0% á árinu, innlendar eignir um 7,9% en erlendar um 3,9%. Þá eru lífeyrissjóðirnir með hátt í helmingshlutfall skráðra hlutabréfa.
    Árið 2012 lagði Lilja Mósesdóttir þingmaður fram efnislega svipaða þingsályktunartillögu (40. mál á 141. löggjafarþingi). Í greinargerð með henni var bent á að árið 2012 skilaði úttektarnefnd lífeyrissjóða úttektarskýrslu um starfsemi lífeyrissjóða árin 2006–2010 og áhrif efnahagshrunsins 2008 og 2009 á eignir sjóðanna. Samkvæmt þeirri skýrslu töpuðust 480 milljarðar kr. við bankahrunið sem er meira en búast mátti við.
    Margt benti til þess þá eins og nú að lífeyrissjóðakerfið væri of íburðarmikið og hafa ýmsir bent á kosti þess að breyta lífeyrissjóðakerfinu úr söfnunarkerfi í gegnumstreymiskerfi, sem gæti orðið til þess að draga úr umfangi lífeyrissjóðakerfisins til framtíðar, ásamt því að tryggja áframhaldandi virkni lífeyrissjóðakerfisins óháð framtíðarsveiflum í efnahag landsins, fjárfestingarumhverfi þess eða aldurssamsetningu þjóðarinnar. Í greinargerð sinni bendir Lilja Mósesdóttir á þá áhættu sem söfnunarkerfið felur í sér. Hætta sé á að eignir rýrni eða tapist eins og gerðist í kjölfar efnahagshrunsins auk þess sem kerfið viðheldur launamun á vinnumarkaði þar sem fólk öðlast réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur. Með gegnumstreymiskerfinu sé auðveldara að ná fram tekjujöfnum í gegnum lágmarkslífeyri en áhættan með því kerfi felst aðallega í aldurssamsetningu þjóðarinnar og þróun raunlauna. Lagt er til að farin verði blönduð leið sjóðsmyndunar og gegnumstreymis sem gerir kleift að auka jöfnuð og leggja af verðtryggingu. Undanfarin ár hefur verið gengið út frá nauðsyn þess að viðhalda núverandi fyrirkomulagi, jafnvel með ærnum tilkostnaði, t.d. voru rúmlega 100 milljarðar kr. færðir úr ríkissjóði inn í LSR á haustdögum 2016 vegna þess tryggingafræðilega halla sem hafði safnast upp þar.
    Þótt vandamálið hafi verið að hluta til leyst þar til skamms tíma eru enn til staðar töluvert umfangsmiklir kerfisáhættuþættir sem ógna framtíðarstöðugleika lífeyrissjóðakerfisins. Einn stærsti þátturinn í því er vaxandi meðalaldur landsmanna, en líkt og víða annars staðar í heiminum fjölgar lífeyrisþegum hraðar en starfsfólki á almennum vinnumarkaði.

Lýðræðisleg aðkoma.
    Kallað hefur verið eftir aukinni aðkomu sjóðsfélaga að stjórnum lífeyrissjóða og aukins gagnsæis í starfsemi þeirra. Flestar stéttir hafa ekki val um hvaða lífeyrissjóði greitt er í auk þess sem sjóðsfélagar stærstu sjóða landsins hafa ekkert með stjórn sjóðanna að segja, sem skipaðar eru fulltrúum samtaka á vinnumarkaði. Nýverið létu Samtök um betri lífeyrissjóði gera könnum þar sem í ljós kom að mikill meiri hluti aðspurðra, eða 97%, sagðist vera hlynntur því að geta valið sér eigin lífeyrissjóð óháð stéttarfélagi. Þá töldu sömuleiðis 95% aðspurðra rétt að sjóðsfélagar kjósi sjálfir í stjórnir lífeyrissjóða. 1
    Pétur H. Blöndal lagði þrisvar fram frumvarp sem snéri að auknu lýðræði í lífeyrissjóðum og skilgreiningu á eignarhaldi. Frumvarpið kveður m.a. á um að lífeyrissjóðir séu eign sjóðsfélaga og að stjórn lífeyrissjóðs verði kjörin beint af sjóðsfélögum á félagsfundi eða ársfundi, eða með almennri kosningu. 2 Frumvarpið var endurflutt af Guðlaugi Þór Þórðarsyni á 145. löggjafarþingi og gekk málið þá til efnahags- og viðskiptanefndar og bárust fjórar umsagnir um málið. Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Landssamtök lífeyrissjóða lögðust gegn frumvarpinu. Þá lagði þingflokkur Pírata fram breytingartillögu sama efnis á 143. löggjafarþingi (þskj. 338) við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. 3
1     www.visir.is/vilja-velja-eigin-lifeyrissjodi/article/2017170309279
2     www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill//?ltg=144&mnr=602
3     www.althingi.is/altext/143/s/0338.html