Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 550  —  417. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum (andvana fæðingar).

Flm.: Katla Hólm Þórhildardóttir, Einar Brynjólfsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Smári McCarthy, Eygló Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Gunnar I. Guðmundsson, Oddný G. Harðardóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Logi Einarsson, Jón Þór Ólafsson.


1. gr.

    Á eftir 6. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Ef barn fæðist andvana og er kennt við foreldri gildir réttur skv. 6. mgr. þótt enginn samningur hafi verið gerður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í lögum um fæðingarorlof liggur fyrir að þegar foreldrar sem ekki eru skráðir í sambúð eiga barn þarf að liggja fyrir samningur um sameiginlega forsjá eða umgengni til þess að foreldrið sem ekki fæðir barnið fái fæðingarorlofsrétt sinn. Þegar barn er fætt andvana er eðli málsins samkvæmt ómögulegt að ganga frá slíkum samningi. Gera verður ráð fyrir að foreldri sem ekki fæðir barnið geti einnig haft tíma til að syrgja og jafna sig á því áfalli sem barnsmissir án þess að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur.
    Frumvarpið er fyrst og fremst jafnréttismál. Þeir foreldrar sem ekki fæddu barn ættu samt sem áður að hafa tíma til að syrgja.
    Þegar lagabreyting var gerð á 145. þingi um andvanafæðingar barna komu fram fjölmargar umsagnir þess efnis að þessi lagabreyting væri tímabær.
    Í umsögn Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd segir: „Önnur athugasemd er þegar foreldrar eru ekki skráðir saman eða gift. Hefur faðir því engan rétt til fæðingarorlofs þar sem látið barn er ekki feðrað. Það þarf að athuga hvernig er hægt að mæta þessum aðstæðum. Foreldrar eru oft saman en hafa ekki gengið frá skráningu á sambúð formlega. Einnig þó að foreldrar séu ekki saman þá getur faðir þurft svigrúm til að syrgja látið barn sitt.“