Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 554  —  421. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um samþættingu verknáms á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.


Flm.: Gunnar I. Guðmundsson, Einar Brynjólfsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Gunnar Hrafn Jónsson, Katla Hólm Þórhildardóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skoða leiðir til að gera nemendum 9. og 10. bekkjar kleift að hefja nám í iðngreinum með það fyrir augum að geta lokið allt að 20 framhaldsskólaeiningum á ári samhliða hefðbundnu grunnskólanámi.
    Ráðherra skipi starfshóp sem kanni framangreinda samþættingu námsins og skulu niðurstöður hans liggja fyrir og birtar opinberlega eigi síðar en 1. október 2017.

Greinargerð.

    Margar verknámsbrautir á landsvísu eiga í vandræðum með að ná til sín nemendum og virðist áhugi ungmenna á verknámi fara dvínandi á sama tíma og verknám í grunnskólum er í mýflugumynd. Í tillögu þessari er lagt til að skoðaður verði til hlítar sá möguleiki að nemendur á síðustu árum grunnskóla geti hafið verknám áður en komið er á framhaldsskólaaldur og þá samhliða námi í grunnskóla.
    Í allmörgum sveitarfélögum er verkmenntaskóli til staðar og því verður að telja kjöraðstæður fyrir hendi til að nemendur hefji þar verknám fyrr en hefðbundið er. Þó er einnig víða enginn slíkur skóli og því torveldara að samþætta verkmenntaskóla og grunnskóla. Á þeim stöðum væri unnt að kenna í smíðastofum og ráða kennara.
    Ekki ætti að vera erfiðleikum bundið að kenna grunnhugtök í flestum brautum iðngreina og senda verkefni sem unnin eru í smíðastofum skólanna til prófdómara í næsta verkmenntaskóla. Miklar framfarir hafa orðið í fjarkennslu og ætti því að vera einfalt að ráða fram úr tæknilegum úrlausnarefnum. Með þessu móti má stytta nám til iðnmenntar um heilt ár og með því einnig bæta úr því hversu verklegar greinar eru vanræktar á grunnskólastiginu.