Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 560  —  427. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um lausn á undanskotum frá gjaldþrota fyrirtækjum.


Flm.: Gunnar I. Guðmundsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Katla Hólm Þórhildardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Smári McCarthy, Einar Brynjólfsson, Halldóra Mogensen, Logi Einarsson, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þórunn Egilsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Nichole Leigh Mosty.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka til að finna lausn á viðvarandi vanda eignaundanskota úr gjaldþrota fyrirtækjum. Starfshópurinn njóti liðsinnis viðeigandi ráðuneyta og stofnana.
    Starfshópurinn verði skipaður fyrir lok maí 2017 og skili tillögum um úrbætur til ráðherra eigi síðar en í lok árs 2017.

Greinargerð.

    Kennitöluflakk er þjóðfélagslegt mein á Íslandi og stór kostnaðarliður bæði í rekstri minni fyrirtækja og fyrir ríkissjóð. Samkvæmt tölfræði Alþýðusambands Íslands hlaupa fjárhæðir úr sameiginlegum sjóðum á milljörðum. Í skýrslu ASÍ frá 2013 segir t.d.: „Í könnun, sem nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík gerðu á stjórnendum 600 íslenskra fyrirtækja og sagt var frá árið 2005, kom fram að rúmlega 73% íslenskra fyrirtækja höfðu tapað fjármunum á kennitöluflakki og þriðjungur þeirra hafði tapað fjármunum á kennitöluflakki oftar en 6 sinnum. Tap þessara fyrirtækja hljóp á milljörðum.“ Miklir fjármunir tapast þar sem regluverki um einkahlutafélög er verulega ábótavant. Dæmi eru um að aðilar komist hjá því að greiða virðisaukaskatt og tolla af innfluttri vöru sem skekkir samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja. Borið hefur á því sama í veitingarekstri. Samkvæmt framangreindri skýrslu ASÍ er ljóst að kennitöluflakk rýrir samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja gríðarlega og því ber þinginu að bregðast við vandanum þvert á stjórnmálaflokka.