Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 562  —  429. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um nýtingu forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum í Arion banka.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Elsa Lára Arnardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins að nýta forkaupsrétt ríkisins að hlutabréfum í Arion banka vegna sölu á tæplega 30% hlut í bankanum til erlendra vogunarsjóða og fjárfestingarbankans Goldman Sachs.

Greinargerð.

    Tilkynnt hefur verið um kaup vogunarsjóðanna Taconic Capital, Attestor Capital og Och-Ziff Capital auk bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs á tæplega 30% hlut í Arion banka.
    Íslenska ríkið á 13% hlut í bankanum en 87% eru í eigu Kaupskila sem eru í eigu slitabús Kaupþings.
    Með samþykki kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja á svokölluðum stöðugleikaskilyrðum féllust þau á að afhenda íslenska ríkinu eignir sem væru nægjanlega miklar til að það gerði stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum án þess að stefna greiðslujöfnuði í voða. Í því skyni afhenti slitabú Glitnis ríkinu allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka. Í tilviki slitabús Kaupþings var hins vegar farin sú leið að gefa eigendum að 87% hlut tækifæri til að selja hlutinn en ríkinu ætlaður meiri hluti þess verðs sem kæmi fyrir bankann í gegnum skuldabréf og afkomuskiptasamning. Með því fyrirkomulagi var til staðar hvati fyrir meðeigendur ríkisins til að fara vel með eignarhlut sinn og til að selja hann á sem hæstu verði, enda þótt meiri hluti þess sem kæmi fyrir bankann rynni til ríkisins.
    Sem varúðarráðstöfun var þó sett ákvæði um að ef hlutur í bankanum yrði seldur á lægra verði en sem næmi 80% af eigin fé bankans gæti ríkið neytt forkaupsréttar. Auk þess fékk ríkið heimild til að yfirtaka bankann yrði hann ekki seldur fyrir mitt ár 2018.
    Nú hefur Kaupþing ákveðið að selja stærstu eigendum sínum hátt í þriðjungs hlut í bankanum fyrir um 80% af verðmæti hlutafjár bankans samkvæmt milliuppgjöri þriðja ársfjórðungs 2016. Með hliðsjón af hagnaði bankans undanfarin ár, umtalsverðu eigin fé umfram lögbundin mörk og þeirri staðreynd að um er að ræða banka sem samansettur var úr betri eignum Kaupþings banka hlýtur verð sem er lægra en nemur eigin fé að teljast lágt. Auk þess er um að ræða lægsta hugsanlega verð yfir því verði sem virkjar forkaupsrétt ríkisins. Af því má álykta að salan sé framkvæmd til að koma í veg fyrir að ríkið fái eðlilega hlutdeild í raunverulegu verðmæti bankans og hindra að ríkið geti leyst bankann til sín á næsta ári.
    Sé hins vegar litið til nýjasta uppgjörs Arion banka, árslokauppgjörs fyrir árið 2016, fer verð hlutarins sem um ræðir undir 80% af eigin fé. Þar sem eðlilegt hlýtur að teljast að litið sé til síðasta uppgjörs eða ársuppgjörs (ársreiknings) verður ekki annað séð en að ríkið hafi heimild til að ganga inn í kaupin og leysa til sín hlutinn.
    Athygli er vakin á því að vegna skuldar slitabús Arion banka við ríkið og stöðugleikaskilyrðanna þarf ríkissjóður ekki að leggja út kaupverðið.
    Í ljósi framangreinds er lagt til að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins neyti forkaupsréttar síns að því hlutafé í Arion banka sem ákveðið hefur verið að selja og veita kauprétt að.