Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 588  —  33. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðaáætlun gegn mansali og vinnulag við mansalsmál.


     1.      Hvaða áform eru um framhald aðgerðaáætlunar gegn mansali en áætlun fyrir árin 2013–2016 rann út nú um áramótin?
    Vinna við gerð nýrrar aðgerðaráætlunar hefst um mitt ár 2017.

     2.      Hvaða verkferlar eru í gildi varðandi meðferð mansalsmála í dómskerfinu?
    Samkvæmt upplýsingum dómstólaráðs sæta mál sem handhafar ákæruvalds höfða til refsinga lögum samkvæmt meðferð eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála, sbr. 1. gr. laga nr. 88/2008. Ekki hafa verið settir sérstakir verkferlar varðandi meðferð mansalsmála innan dómskerfisins. Mansal lýtur ákæru á grundvelli ákvæða almennra hegningarlaga og sætir samkvæmt framansögðu sambærilegri meðferð og önnur mál sem höfðuð eru til refsingar.

     3.      Hvernig var fræðslu starfsmanna lögreglu, ákæruvalds og dómstóla háttað um mansalsmál á gildistíma fyrrnefndrar áætlunar og við hvaða embætti gegndu störfum þeir starfsmenn sem fengu fræðslu?
     4.      Hversu margir starfsmenn lögreglu, ákæruvalds og dómstóla sóttu fræðslufundi í tengslum við aðgerðaáætlunina? Svar óskast sundurliðað eftir embættum.

    Ekki liggja fyrir sundurliðaðar upplýsingar um hversu margir starfsmenn lögreglu, ákæruvalds og dómstóla hafi sótt fræðslufundi í tengslum við aðgerðaáætlun gegn mansali og hvernig þeir starfsmenn skiptast eftir embættum.
    Stýrihópur um innleiðingu aðgerðaáætlunarinnar myndaði fræðsluteymi sem samanstóð af fulltrúum eftirfarandi embætta: innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurnesjum, Starfsgreinasambands Íslands og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
    Vorið 2014 var ákveðið að fara af stað með tilraun til svæðisbundinnar fræðslu. Kallaðir voru saman þeir fagaðilar sem á einn eða annan hátt gætu mögulega komist í tæri við þolendur mansals; lögregla, heilbrigðisstofnanir, félagsþjónusta og verkalýðsfélög/stéttarfélög. Ástæðan fyrir því að kalla þessa aðila saman var fyrst og fremst að leiða saman og efla tengslanet þessara aðila eftir landsvæðum. Fyrsti fundur var haldinn á Selfossi í maí 2014 og tókst svo vel að ákveðið var að halda áfram með fræðsluna.
    Haldnir hafa verið um 70 fundir með yfir 2000 manns frá hinum ýmsu stofnunum og félagasamtökum. Þá hefur einnig verið veitt fræðsla fyrir fyrirtæki sem óskað hafa eftir því. Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur leitt fræðsluna ásamt Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirlögfræðingi hjá sama embætti, og Eddu Ólafsdóttur, félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg. Í fræðslunni er farið yfir helstu einkenni mansals, lögð áhersla á ólíkar birtingarmyndir og þar sem það á við er farið yfir þau úrræði sem í boði eru fyrir þolendur.
    Samkvæmt upplýsingum dómstólaráðs hefur ráðið ekki staðið fyrir sérstakri fræðslu um mansalsmál. Dómstólaráði er ekki kunnugt um hvort einstakir héraðsdómarar hafi sótt sér slíka fræðslu utan dómstólanna.

     5.      Hversu miklu fé var varið til verkefna sem tengdust mansali í samræmi við aðgerðaáætlunina? Svar óskast sundurliðað eftir árum og verkþáttum þar sem m.a. komi fram hve miklu var varið til fræðslu.
    Á árinu 2015 var áætlað að innanríkisráðuneytið verði 10 millj. kr. til verkefna sem tengdust mansali. Af þeirri upphæð var 4 millj. kr. ráðstafað í stöðugildi árið 2015 vegna mansalsmála. Á árinu 2016 hafði ráðuneytið því um 6 millj. kr. til ráðstöfunar vegna mansalsmála og var þeim fjármunum varið í stöðugildi vegna málaflokksins, m.a. til að fylgja eftir innleiðingu aðgerðaráætlunar gegn mansali og alþjóðlegum samskiptum á þessu sviði. Alþjóðleg samskipti hafa m.a. falist í að gegna formennsku í vinnuhópi Eystrasaltsráðsins um aðgerðir gegn mansali samhliða formennsku Íslands í Eystrasaltsráði árið 2016–2017. Sá vettvangur hefur m.a. verið nýttur til að leiða saman innlenda og erlenda sérfræðinga.
    Velferðarráðuneytið hefur tekið saman þær fjárhæðir sem varið var til verkefna á málasviðum ráðuneytisins vegna mansalsmála. Tekið skal fram að ekki er hægt að fullyrða að um tæmandi upplýsingar sé að ræða en verið getur að þolendur mansals fái aðstoð félagsþjónustu og/eða heilbrigðisþjónustu án þess að málið sé skráð sem mansalsmál. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ekki inni í þessum tölum þar sem velferðarráðuneytinu hafa ekki borist upplýsingar frá þeim. Þó er vitað að nokkrir þolendur hafa notið mæðra- og ungbarnaverndar á vegum Heilsugæslunnar.

Verkþáttur 2013 2014 2015 2016 Alls
Samningur við Kristínarhús, athvarf fyrir konur á leið úr vændi eða mansali 25.000.000 25.000.000
Samningur við Kvennaathvarf 2.000.000 200.000 200.000 2.400.000
Fjárhagsaðstoð til fórnarlamba 2.498.711 1.519.510 1.316.981 58.478 5.393.680
Ferðakostnaður fórnarlamba 193.986 193.986
Heilbrigðisþjónusta (LSH) 3.801.664 2.820.480 1.158.311 2.108.856 9.889.311
Fræðsla fyrir starfsmenn og erlent samstarf 45.241 431.415 476.656
31.300.375 6.385.231 2.675.292 2.992.735
Alls 43.353.633

     6.      Telur ráðherra að kostur sé á nægum úrræðum til að koma þolendum mansals úr þeim aðstæðum, svo sem með því að tryggja þeim möguleika á að framfleyta sér með því að stunda atvinnu meðan mál þeirra eru til meðferðar í réttarkerfinu?
    Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á því að tryggja fórnarlömbum mansals líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð, óháð því hvort viðkomandi sé heimilt að dvelja hér á landi eða ekki. Við svar við þessum lið fyrirspurnarinnar var haft samráð við velferðarráðuneytið og bárust eftirfarandi upplýsingar:
    Félagsþjónusta sveitarfélaga hefur veitt fórnarlömbum mansals viðamikla þjónustu. Ekki er unnt að meta hvort úrræðin séu til þess fallin að koma fórnarlömbum úr aðstæðum en aðstoðina skal meta út frá forsendum fórnarlambanna með markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að leiðarljósi.
    Markmiðið er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar en það kemur fram í 1. gr. laganna. Skal það m.a. gert með því bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal þess svo gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Markmið þetta er haft að leiðarljósi þrátt fyrir að viðkomandi eigi mögulega ekki lögheimili á Íslandi.
    Öllum fórnarlömbum mansals er tryggð framfærsla. Þau sem eru með skráð lögheimili á Íslandi njóta aðstoðar á grundvelli reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Fórnarlömb mansals, sem ekki eru með skráð lögheimili hér á landi, njóta fjárhagslegs stuðnings á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara, utan EES, sem ekki eiga lögheimili á Íslandi, nr. 203/2016 sem settar eru með stoð í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeim er einnig tryggð heilbrigðisþjónusta, sbr. reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna nr. 50/2017.
    Þeim sem fá umþóttunardvalarleyfi vegna mansals er ekki heimilt að starfa hér á landi, þ.e. ekki er unnt að fá atvinnuleyfi samhliða slíku dvalarleyfi. Þessi framkvæmd er í samræmi við löggjöf nágrannaríkja Íslands þar sem atvinnuleyfi er ekki veitt þeim fórnarlömbum mansals sem dvelja í landinu á grundvelli umþóttunarleyfis á meðan mál þeirra eru til rannsóknar. Ekki er hægt að fullyrða að atvinnuleyfi fyrir þolendur mansals sé forsenda þess að koma fórnarlömbunum úr aðstæðum mansals. Félagslegur stuðningur og valdefling skiptir þar sköpum og þá ekki síst félagsleg virkni samhliða félagslegri ráðgjöf.
    Ekki er heldur hægt að fullyrða að veiting atvinnuleyfis fyrir þolendur mansals geti ekki aukið hættuna á mansali milli landa.

     7.      Hvernig telur ráðherra að meðferð máls tveggja kvenna sem höfðu stöðu þolenda í meintu mansalsmáli í Vík í Mýrdal hafi samræmst aðgerðaáætlun gegn mansali?
    Ráðherra svarar ekki fyrirspurnum um einstök mál. Ljóst er hins vegar að mikil vitundarvakning hefur átt sér stað í þessum málaflokki undanfarið og hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu t.d. lagt sérstaka áherslu á mansal og vændi með breytingum á rannsóknardeild sinni. Rannsóknir lögreglu í þeim mansalsmálum sem komið hafa upp hér á landi hafa því verið mjög umfangsmiklar. Þá hefur lögreglan einnig tekið markvissan þátt í samstarfi við verkalýðsfélög, vinnueftirlit og skattinn hvað varðar vinnustaðaskoðanir og eftirlit. Lögreglukerfinu var jafnframt breytt til að betur væri hægt að ná utan um skráningar mansalsmála sem koma til lögreglunnar.
    Framkvæmdateymi velferðarráðuneytis hefur einnig verið virkjað en það sinnir aðstoð við þolendur.