Ferill 248. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 613  —  248. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Einari Brynjólfssyni um valdheimildir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlitsins í ljósi fregna af fráveitumálum í Mývatnssveit.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Höfðu Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlitið nægilegar valdheimildir til að koma í veg fyrir mengun frá fráveitum hótela í Mývatnssveit sem sagt var frá í Kastljósi 21. og 22. febrúar 2017? Ef svo var, hvorri stofnuninni bar að koma í veg fyrir að þetta gerðist? Ef svo var ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að bæta úr því?

    Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hafa sameiginlega farið yfir verkferla og valdheimildir varðandi eftirlit með fráveitumálum í Skútustaðahreppi. Ábyrgðin á eftirliti og eftirfylgni með umbótaaðgerðum, ef þeirra er þörf, er fyrst og fremst á valdsviði Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra , sbr. ákvæði í VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, þar sem fjallað er um valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar. Valdheimildir stofnunarinnar og heilbrigðisnefnda til að krefjast úrbóta eru skýrar í VI. kafla laganna að mati ráðuneytisins.
    Hvað varðar atvinnurekstur á svæðinu sem ekki tengist fráveitu sveitarfélagsins er ljóst að ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir gilda um rekstur slíkra fráveitna og þar af leiðandi sömu þvingunarúrræði í VI. kafla laganna. Ekki er alltaf hægt að koma í veg fyrir mengun eins og þegar bilun verður í búnaði eða viðhaldi hans er ábótavant en ef einhverju er ábótavant ætti það að koma í ljós við reglubundið eftirlit og viðeigandi ráðstafanir til úrbóta að hefjast í kjölfarið.
    Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra sendi Skútustaðahreppi kröfu um úrbótaáætlun í fráveitumálum, dags. 10. mars sl., þar sem þess var krafist að tímasett áætlun um úrbætur bærist nefndinni fyrir 17. júní nk. Í bréfi heilbrigðisnefndar er tekið fram að nefndin hafi, samkvæmt lögum nr. 7/1998, heimildir til að knýja á um úrbætur samkvæmt lögunum, veita áminningu, takmarka eða stöðva starfsemi og beita dagsektum. Með tilliti til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004, hefur ráðherra auk þess farið yfir stöðu fráveitumála við Mývatn með sérfræðingum ráðuneytisins og fulltrúum Umhverfisstofnunar. Til skoðunar er hvort þörf sé á að styrkja löggjöf á þessu sviði í ljósi fráveitumála innan verndarsvæðisins eða hvort skýra þurfi betur verkferla á milli sveitarfélagsins annars vegar og Umhverfisstofnunar hins vegar. Ráðherra telur einnig mikilvægt að horfa til mengunarbótareglunnar í tilviki atvinnureksturs við Mývatn, en reglan felur í sér að sá sem er valdur að mengun skuli bera kostnað af mengunarvörnum.