Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 625  —  166. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um ríkisjarðir.


     1.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ríkisjarðir? Hyggst ráðherra láta endurmeta stefnu á sviði jarðamála ríkisins?
    Í samræmi við lög nr. 123/2015, um opinber fjármál, fer fjármála- og efnahagsráðherra með eignarhlut ríkisins í jörðum og öðrum fasteignatengdum réttindum ríkisaðila í A-hluta og sér um fyrirsvar þeirra, öflun og ráðstöfun nema lög eða stjórnvaldsfyrirmæli kveði á um annað.
    Í lögum um opinber fjármál og fjármálaáætlun fyrir árið 2018–2022 sem lögð hefur verið fram á Alþingi er lagður grunnur að þeirri stefnumörkun sem gildir um eignaumsýslu ríkisins. Meginmarkmið málaflokksins er að stuðla að skýrri, skilvirkri og hagkvæmri meðferð á ríkiseignum hvort sem um er að ræða fyrirtæki, fasteignir, jarðir eða auðlindir í eigu ríkisins.
    Í fjármálaáætlun fyrir árið 2018–2022 um eignaumsýslu ríkisins sem lögð hefur verið fram á Alþingi kemur enn fremur fram markmið um að setja skýrari ramma um hagnýtingu lands, náttúru og auðlinda í umráðum ríkisins. Í ljósi vaxandi hagnýtingar vegna fjölgunar ferðamanna er þörf á bættri umgjörð um hvernig hagnýtingu auðlinda á ríkisjörðum er stýrt og til að tryggja sýnilega og eðlilega arðsemi. Þá skal auka hagkvæmni, skilvirkni, gegnsæi og þekkingu á fasteigna-, jarðeigna- og auðlindaumsýslu ríkisins. Einnig er mikilvægt að framtíðarfyrirkomulag eignarhalds ríkisins á fasteignum, jörðum og ábúðarjörðum verði fullmótað og gerð ítarleg skil í sérstakri eigandastefnu ríkisins, sbr. 43. gr. laga um opinber fjármál.
    Í stefnumörkun ráðuneytisins á sviði eignamála hefur verið gengið út frá því að framtíðarfyrirkomulag um eignarhald ríkisins á landi skuli byggja á því að jarðir ríkisins skili samfélagslegum ávinningi. Þar af leiðandi þurfa almannahagsmunir að réttlæta eignarhald á viðkomandi landi, t.d. vegna mikilvægs landbúnaðar, landgræðslu, vegagerðar, orkunýtingar eða annarra sambærilegra atriða. Þá er jafnframt lögð áhersla á að jarðir séu nýttar með eins hagkvæmum hætti og kostur er fyrir starfsemi í þágu ríkisins og að ríkið njóti eðlilegs arðs af eignum sínum í samræmi við fjárbindingu í slíkum eignum.
    Samkvæmt lögum um opinber fjármál er mælt fyrir um að reikningsskil fyrir A-hluta ríkissjóðs skulu gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila. Samkvæmt þessu mun ríkið nú þurfa að eignafæra allar eignir ríkissjóðs í ríkisreikningi og afskrifa þær árlega. Í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í lögum um opinber fjármál er mikilvægt að eignir sem ekki eru nýttar til opinberra þarfa séu sjálfbærar til framtíðar litið. Um er ræða grundvallarstefnumörkun til að ná fram hagkvæmni í ríkisrekstri og stuðla að vandaðri eignaumsýslu á vegum hins opinbera.
    Í samræmi við framangreint hefur ráðuneytið lagt áherslu á að eignir sem ekki eru nýttar í rekstri ríkisins og ekki hafa sérstakt samfélagslegt hlutverk skili þá a.m.k. tekjum sem taka mið af markaðsverðmæti eignar og umsýslukostnaði. Þannig á leiguverð ríkiseigna að vera í eðlilegu samræmi við verðmæti þeirra. Leiga á landi í eigu ríkisins getur fallið þar undir.
    Í samræmi við 2. mgr. 43. gr. laga um opinber fjármál er unnið að gerð eigandastefnu fyrir land og jarðir í eigu ríkisins þar sem fjallað verður um markmið og áherslur ríkisins um meðferð og nýtingu slíkra eigna.

     2.      Hefur ráðherra í hyggju að leggja mat á kosti og galla þess að ráðstafa ríkisjörðum til ábúðar?
    Ábúðarkerfið samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 byggir á því að jarðareigandi úthlutar jörðum til ábúðar með sérstökum ábúðarsamningi um leiguliðaafnot sem felur í sér full afnotaumráð á viðkomandi jörð ásamt öllu sem henni fylgir. Í framkvæmd hefur það verið með þeim hætti að ábúandi á ríkisjörð greiðir árlega leigu sem er tiltölulega lágt hlutfall af fasteignamati. Skráð fasteignamat jarða er enn fremur mjög lágt og endurspeglar ekki markaðsverð þeirra. Rekstrarkostnaður ríkisins við umsýslu ábúðarkerfisins er af þessum sökum hærri en reglubundnar leigugreiðslur.
    Samkvæmt ábúðarlögum hvílir einnig kaupskylda á jarðareiganda á eignum og endurbótum sem ábúandi hefur staðið fyrir á ábúðarjörð. Mat á eignum og endurbótum ábúanda samkvæmt lögunum tekur mið af núvirði að frádregnum afskriftum sem leiðir til þess að uppkaupsverð jarðareiganda getur verið mjög hátt miðað við markaðsverð jarðarinnar ásamt byggingum. Með breyttu reikningshaldi mun ríkissjóður þurfa að gjaldfæra þann mismun sem myndast vegna uppkaupsverðs og markaðsverðs. Samkvæmt ábúðarlögum er ábúanda einnig heimilt veðsetja ábúðarjörð sína til tryggingar lánum sem hann tekur til framkvæmda og annarra endurbóta á jörðinni. Veð ábúandans hvíla því á jörðinni og þeim mannvirkjum sem á henni standa óháð eignarhaldi. Komi til vanskila á lánum ábúanda getur það leitt til uppboðs á viðkomandi ríkisjörð. Tapi ríkið eignarhaldi með þessum hætti mun einnig þurfa að gjaldfæra það samkvæmt nýjum reikningsskilareglum. Ríkissjóður verður því fyrir margvíslegum kostnaði til viðbótar vegna ábúðar sem fram þessu hefur ekki komið fram í reikningshaldi ríkisins.
    Eins og fyrr greinir í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar er unnið að gerð eigandastefnu fyrir land og jarðir í eigu ríkisins. Liður í gerð eigandastefnu hefur verið að leggja mat á kosti og galla þess að setja ríkisjarðir í ábúð. Óskað var eftir að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði sérstaka greiningu og úttekt á ábúðarkerfinu þar sem lagt yrði mat á stöðu kerfisins og hagkvæmni.

     3.      Hyggst ráðherra láta endurskoða ábúðarkerfi ríkisjarða til þess að stuðla að markvissri nýtingu þeirra í þágu landbúnaðar?
    Ábúðarlög nr. 80/2004, sem gilda um ábúð á jörðum og jarðarhlutum til búrekstrar eða annars atvinnurekstur á sviði landbúnaðar, heyra undir málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þar af leiðandi er það ekki á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins að endurskoða þann lagaramma sem gildir um ábúðarkerfið í heild.

     4.      Ætlar ráðherra að láta framkvæma sérstaka úttekt á ábúðarkerfinu, meta gildi þess og árangur og leggja mat á aðra valkosti en núverandi fyrirkomulag? Ef svo er, yrðu allar ríkisjarðir í slíkri úttekt eða aðeins ábúðarjarðir og hvenær lægi úttektin fyrir?
    Eins fram kemur í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar var óskað eftir því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði greiningu og úttekt á ábúðarkerfinu þar sem lagt verður mat á stöðu þess og hagkvæmni. Gera má ráð fyrir að greiningin taki til umfangs ábúðarkerfisins, afkomu bænda í kerfinu, skipti á ábúendum, tekjur og gjöld ríkisins af kerfinu, mat á samfélagslegum þáttum kerfisins ásamt mati á kostum og göllum á þess. Greiningin afmarkast aðeins við jarðir sem ríkið hefur sett í ábúð, þ.e. með sérstökum ábúðar- eða leigusamningum samkvæmt ábúðarlögum.
    Upphaflega var gert ráð fyrir að niðurstaða greiningarinnar mundi liggja fyrir haustið 2016. Gagnaöflun vegna úttektarinnar hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir og vonast ráðuneytið eftir að hún liggi fyrir innan einhverra vikna. Þegar greiningin liggur fyrir verður haft samráð við hagsmunaðila um niðurstöður hennar og framtíðarstefnumörkun varðandi ábúð þeirra jarðeigna sem heyra undir ráðuneytið

     5.      Yrðu í þess konar úttekt kannaðir sérstaklega þættir eins og umfang kerfisins, afkoma bænda í kerfinu, skipti á ábúendum, tekjur og gjöld ríkisins af kerfinu, mat á samfélagslegum þáttum, mat á kostum og göllum á núverandi fyrirkomulagi eða aðrir þættir?
    Sjá svar við 4. lið fyrirspurnarinnar.