Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 627  —  458. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2016.


1. Inngangur.
    Flóttamenn og landamæraeftirlit innan Norðurlanda voru meðal þeirra málefna sem voru efst á baugi í starfi Norðurlandaráðs árið 2016. Danir fóru með formennsku í ráðinu og Henrik Dam Kristensen, þingmaður danska jafnaðarmannaflokksins, gegndi embætti forseta. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, var formaður Íslandsdeildar frá janúar og þar til skömmu fyrir kosningar til Alþingis í október.
    Vorþingfundur Norðurlandaráðs í Ósló var m.a. helgaður umræðu um landamæraeftirlit og frjálsa för á Norðurlöndum. Margir þingmenn í Norðurlandaráði lýstu þar, og við önnur tækifæri, áhyggjum af framtíð frjálsrar farar á Norðurlöndum í ljósi þess eftirlits sem verið hefur á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur síðan í nóvember 2015. Norðurlandaráð hefur fylgst vel með þróun mála varðandi eftirlitið og reynt að tryggja að norrænt samstarf bíði ekki skaða af.
    Tillaga flokkahóps miðjumanna um norræn sjónvarpsverðlaun, sem Höskuldur Þórhallsson átti frumkvæði að í tíð sinni sem forseti Norðurlandaráðs árið 2015, var ítrekað til umræðu og meðferðar á fundum Norðurlandaráðs. Um sumarið var hún send norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum til umsagnar og var eftir það rædd í forsætisnefnd en ekki tókst að ljúka meðferð málsins á árinu.
    Samþykkt var eftir allnokkrar umræður, þar sem skoðanir voru mjög skiptar, að opna sérstaka skrifstofu Norðurlandaráðs í Brussel til að sinna tengslum við Evrópusambandið, einkum Evrópuþingið. Ráðgert var að ráðinn yrði starfsmaður á skrifstofuna árið 2017.
    Staða íslensku og finnsku í starfi Norðurlandaráðs var til umræðu á árinu. Landsdeildir Finnlands og Íslands lögðu í sameiningu fram tillögu í lok ársins um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði. Meðferð þess máls heldur áfram árið 2017. Landsdeild Íslands hefur einnig óskað eftir því við skrifstofu Norðurlandaráðs að tryggt verði að við sameiginlega upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar verði framvegis starfandi íslenskur upplýsingaráðgjafi, en hingað til hefur enginn Íslendingur verið í þeirri stöðu.
    Færeyingar óskuðu á árinu eftir fullri aðild að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni til jafns við Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð, en þeir hafa ítrekað borið fram slíkar óskir áður. Allir stjórnmálaflokkar í Færeyjum studdu tillöguna að þessu sinni. Beiðni Færeyinga var hafnað og var í því sambandi vísað til ákvæða í Helsinki-sáttmálanum sem er grundvöllur opinbers samstarfs Norðurlanda og til þess að stjórnarskrá Danmerkur leyfði ekki sjálfstæða aðild Færeyja.
    Beiðni Sama um aðild að Norðurlandaráði var einnig hafnað, en ákveðið var að veita fulltrúum Samaþinganna í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi áheyrnaraðild að nefndafundum Norðurlandaráðs þegar fjallað væri um mál sem snerti hagsmuni þeirra.
    Beiðni frá sambandsríkinu Slésvík-Holtsetalandi um áheyrnaraðild að Norðurlandaráði var almennt vel tekið, þó var ákveðið að ganga til samstarfs við sambandsríkið án þess að nota hugtakið áheyrnaraðild fyrst um sinn. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs taldi að fyrst þyrfti að gera almenna úttekt á fyrirkomulagi áheyrnaraðildar utanaðkomandi aðila.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þeir þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs um mánaðamótin október/nóvember er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2016 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.


3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 2016 skipuðu Íslandsdeildina Höskuldur Þórhallsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Róbert Marshall, þingflokki Bjartrar framtíðar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Vigdís Hauksdóttir, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Brynhildur Pétursdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Breytingar urðu á Íslandsdeild í mars, september og október. 9. mars tók Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sæti Valgerðar Gunnarsdóttur, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sem aðalmaður. Í septemberlok tók Björt Ólafsdóttir sæti Brynhildar Pétursdóttur sem varamaður fyrir hönd Bjartrar framtíðar. 11. október urðu breytingar á fulltrúum Framsóknarflokks: Silja Dögg Gunnarsdóttir varð aðalmaður í stað Höskuldar Þórhallssonar, Þórunn Egilsdóttir tók við sem aðalmaður af Vigdísi Hauksdóttur og Elsa Lára Arnardóttir tók við af Þorsteini Sæmundssyni sem varamaður.
    Vegna þess hversu skammt var milli kosninga til Alþingis, sem haldnar voru 29. október, og Norðurlandaráðsþings, sem fram fór 1.–3. nóvember, var ljóst að ekki næðist að skipa nýja Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir þingið. Forsætisnefnd Alþingis ákvað því á fundi sínum 5. september að alþingismönnum sem hlytu endurkjör og sem ættu sæti sem aðalmenn eða varamenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir kosningarnar væri heimilt að sækja Norðurlandaráðsþing. Sama regla var látin gilda um forsætisnefndarfund Norðurlandaráðs sem haldinn var í Keflavík 28.–29. nóvember.
    Lárus Valgarðsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fram til loka maí 2016 en þá tók Helgi Þorsteinsson við.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2016 á 67. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Reykjavík 27.–29. október 2015. Á þinginu var jafnframt ákveðið breyta nefndatilhögun Norðurlandaráðs og fækka fagnefndunum úr fimm í fjórar. Nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs varð með þeim hætti að Höskuldur Þórhallsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í þekkingar- og menningarnefnd og eftirlitsnefnd, þar sem hún var varaformaður, Róbert Marshall og Elín Hirst í sjálfbærninefnd og Vigdís Hauksdóttir sat í kjörnefnd og sem varaformaður í velferðarnefnd. Brynjar Níelsson tók sæti Valgerðar Gunnarsdóttur í þekkingar- og menningarnefnd og eftirlitsnefnd í mars.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Helgi Hjörvar sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Höskuldur Þórhallsson átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans. Höskuldur Þórhallsson sótti fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs þemaráðstefnu Benelux-þingsins um félagsleg undirboð sem haldin var í Brussel 18. mars, þemaumræðu þingmannasamtaka Eystrasaltsríkjanna um öryggismál á Eystrasaltssvæðinu sem haldin var í Ríga í Lettlandi 12.–13. maí, hringborðsumræður um austlæga samstarfið sem haldnar voru í Kaupmannahöfn 18. maí, ráðstefnu danska varnarmálaháskólans um öryggismál á Norðurlöndum og Eystrasaltssvæðinu sem haldin var í Kaupmannahöfn 19.–20. maí og þemaumræðu Benelux-þingsins um fólksflutninga í Evrópu sem haldin var í Brussel 17.–18. júní. Vigdís Hauksdóttir sótti fyrir hönd velferðarnefndar Norðurlandaráðs norræna ráðstefnu um félagslegan atvinnurekstur og félagslega frumkvöðlastarfsemi sem haldin var í Malmö í Svíþjóð 9.–10. mars. Vigdís og Róbert Marshall sóttu þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins sem haldin var í Ríga í Lettlandi 28.–30. ágúst. Róbert sótti jafnframt fyrir hönd sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs ráðstefnu um kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield sem haldin var 23. júní í Svolvær í Noregi og fund á vegum Norðurlandaráðs um Norðurlönd og ESB í Kaupmannahöfn 5. september. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sóttu fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs fund Vestnorræna ráðsins í Qaqortoq á Grænlandi 23.–25. ágúst.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði tvisvar sinnum á árinu, í ágúst og september. Á fyrri fundinum var Elín Hirst kjörin varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Seinni fundurinn var haldinn til undirbúnings fyrir septemberfundi Norðurlandaráðs og jafnframt var þar rætt um tillögur og aðgerðir til að styrkja stöðu íslenskunnar í norrænu samstarfi.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd var árið 2016 skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Höskuldur Þórhallsson sat í forsætisnefnd þangað til hann gekk úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs 11. október 2017. Silja Dögg Gunnarsdóttir tók sæti hans og var kjörin formaður Íslandsdeildarinnar. Steingrímur J. Sigfússon og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sátu í forsætisnefndinni fram að kosningum 29. október. Steingrímur og Silja Dögg sátu jafnframt í forsætisnefnd Norðurlandaráðs eftir þingkosningarnar í samræmi við framangreinda ákvörðun forsætisnefndar Alþingis um þátttöku á fundum Norðurlandaráðs. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu, fjórum sinnum á sama tíma og fagnefndir ráðsins í janúar, mars, september og október, og tvisvar á eigin vegum í júní og nóvember.
    Síðasti fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs á árinu var haldinn í Keflavík 28.–29. nóvember. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Silja Dögg Gunnarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, auk Helga Þorsteinssonar ritara.
    Árið 2016 afgreiddi forsætisnefnd þrjú mál sem voru samþykkt sem tilmæli Norðurlandaráðs: um leiðbeiningar um samstarfið við granna í vestri, um áframhaldandi frjálsa för, víðsýni og samstarf innan Norðurlandaráðs og um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2016. Þá afgreiddi forsætisnefnd tvö mál sem urðu að ákvörðunum um innri málefni: um norræna skrifstofu í Brussel og um endurskoðaðar starfsreglur Norðurlandaráðs.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list og menning og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.
    Valgerður Gunnarsdóttir sat í þekkingar- og menningarnefnd frá janúar til mars, en þá tók Brynjar Níelsson við af henni. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Þekkingar- og menningarnefnd afgreiddi árið 2016 þrjú mál sem urðu tilmæli Norðurlandaráðs: um aðlögun hælisleitandi barna og ábyrgð allra skólagerða, um leiðtogafund um málefni íþrótta og um norrænt meistaranám.

Hagvaxtar- og þróunarnefndin.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu – þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta, og í framhaldi af því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar. Íslendingar áttu engan fulltrúa í nefndinni á árinu 2016. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Hagvaxtar- og þróunarnefnd afgreiddi árið 2016 sjö mál sem voru samþykkt sem tilmæli Norðurlandaráðs: um flugöryggi og starfsskilyrði í flugi, um hreyfanleika og sanngjarna samkeppni, um aukna og sjálfbæra ferðaþjónustu á Norðurlöndum, um samhæfingu í löndunum um að laða fleiri gesti til Norðurlanda, um samræmingu á vinnureglum og viðurkenningu á menntun til að auðvelda frjálst flæði vinnuafls, um viðurkenningu á starfsréttindum í löndunum og norræna samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2017–2020.

Sjálfbærninefndin.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd, náttúruauðlindir – þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar – þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórnun, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni. Róbert Marshall og Elín Hirst sátu í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd fram til október 2016. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Sjálfbærninefndin afgreiddi árið 2016 sex mál sem hlutu samþykkt sem tilmæli ráðsins: um úttekt á úrgangsstraumum á Norðurlöndum, um samstarfsáætlun FJLS 2017–2020, um samræmingu á reglum um merkingu matvæla, um nýtingu matarúrgangs og baráttu gegn matarsóun og um sameiginlegar norrænar aðgerðir um eiturefnalaust umhverfi (tvær tillögur með sama heiti).

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin fæst m.a. við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Aðlögun innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda. Vigdís Hauksdóttir var varaformaður velferðarnefndar frá janúar til október 2016, en þá tók Þórunn Egilsdóttir við af henni. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Velferðarnefnd afgreiddi árið 2016 átta mál sem urðu tilmæli Norðurlandaráðs: um börn og ungmenni á Norðurlöndum, um þverfaglega stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar 2016–2022, um samstarfsáætlun um aðlögun flóttafólks og innflytjenda, dánartíðni slökkviliðsmanna af völdum krabbameins og flokkun ákveðinna tegunda krabbameins, um sameiginleg lyfjainnkaup, um sameiginlegar aðgerðir gegn eltihrellingu á Norðurlöndum, um fylgdarlaus flóttabörn, um norræna stefnu til að draga úr fjölda fallslysa og um heyrnar- og sjónskerðingu.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.
    Valgerður Gunnarsdóttir var varaformaður eftirlitsnefndar frá janúar til mars. Eftir það tók Brynjar Níelsson sæti hennar. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.
    Vigdís Hauksdóttir sat í kjörnefnd frá janúar til október. Eftir það tók Þórunn Egilsdóttir við. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

5. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda fjórum sinnum árið 2016, í janúar og september og í apríl og nóvember í tengslum við þingfundi ráðsins. Á fundunum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs í apríl og nóvember eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í finnska þinginu í Helsinki 25.–26. janúar. Á fundina fóru af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Gunnarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru áheyrnaraðild Sama að Norðurlandaráði, sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs, Norræna húsið í Reykjavík, hlutverk borgaralegs samfélags í norrænu samstarfi, flugöryggi og starfsskilyrði í flugi.
    Forsætisnefnd afgreiddi úr nefnd tillögu um aukið samstarf við Þingmannaráð Sama (A 1664/præsidiet). Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð veiti Samaþingunum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, í gegnum Þingmannaráð Sama, víðtækari stöðu áheyrnarfulltrúa að Norðurlandaráði. Í því felst réttur til þátttöku í nefndastarfi Norðurlandaráðs þegar nefndirnar ákveða og ef til umfjöllunar eru mál sem snerta Sama. Þátttökurétturinn felur ekki í sér atkvæðisrétt. Fyrir hafa Samaþingin í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, samkvæmt starfsreglum Norðurlandaráðs, haft stöðu áheyrnarfulltrúa og rétt til að tjá sig í almennum umræðum á þingum ráðsins en að öðru leyti samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar.
    Þingmannaráð Sama, samstarfsvettvangur Samaþinga í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, sendi inn umsókn um aðild að Norðurlandaráði í desember 2014. Meiri hluti forsætisnefndar hafnaði aðild Þingmannaráðs Sama en nefndarmenn voru sammála um að efla tengsl við þingmannaráðið. Forsætisnefnd skipaði vinnuhóp um málið og landsdeildarskrifstofur Finnlands, Noregs og Svíþjóðar tóku saman upplýsingar um stöðu Sama í löndunum þremur. Við málsmeðferð komu fram hugmyndir um tvær mögulegar leiðir um aukið samstarf, annars vegar víðtækari áheyrnaraðild með rétt til þátttöku án atkvæðisréttar á fundum norrænu velferðarnefndarinnar, sem fer með málefni frumbyggja, og hins vegar víðtækari áheyrnaraðild með rétt til þátttöku án atkvæðisréttar á nefndarfundum almennt þegar til umfjöllunar eru mál sem snerta Sama. Samkomulag náðist um síðari leiðina.
    Þekkingar- og menningarnefnd hafði til umsagnar tillögu um sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs (A 1669/presidiet). Þar er lagt til að Norðurlandaráð stofni til sjónvarpsverðlauna til eflingar norrænni menningu innan Norðurlanda og orðstírs Norðurlanda út á við, en norrænir framhaldsþættir í sjónvarpi hafa vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi. Nefndin ákvað að styðja tillöguna í umsögn sinni til forsætisnefndar, en leggja um leið til að gerð yrði könnun á kostnaði og forsendum og því hvort verðlaunin gætu tengst kvikmyndaverðlaunum ráðsins, þ.e. að úr yrðu kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs, og hvort það að bæta við verðlaunum drægi úr gildi þeirra verðlauna sem þegar eru veitt.
    Eftirlitsnefnd fjallaði um skýrslu um heimsókn nefndarinnar í Norræna húsið í Reykjavík. Nefndin fór í eftirlitsheimsókn þangað 26. október 2015 í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík. Mikkel Harder forstjóri og Þórunn Ragnarsdóttir fjármálastjóri kynntu starfsemi hússins. Þau upplýstu að Norræna húsið þyrfti á endurbótum að halda og að gerð hefði verið áætlun til að húsið yrði í góðu ásigkomulagi við 50 ára afmæli þess árið 2018. Árið 2015 veitti Norræna ráðherranefndin 730 þús. danskar kr. til endurbóta á húsinu sem er álíka mikið fé og húsið lagði fram. Áætlaður heildarkostnaður endurbóta er 4 millj. danskar kr. Eftirlitsnefnd samþykkti eftirfarandi niðurstöðu skýrslunnar: „Brýn þörf er á gagngeru viðhaldi ef komast á hjá stórskemmdum á byggingunni. Viðhald á innanstokksmunum er einnig aðkallandi. Mikilvægt er að eina húsið, sem er að fullu í eigu Norrænu ráðherranefndarinnar og jafnframt einstök perla í húsagerðarlist glati ekki ásýnd sinni. Norræna ráðherranefndin verður að vera viðbúin því að viðhald og endurbætur á húsnæði og innanstokksmunum kosti meira en 4 millj. danskra kr. eins og stofnunin gerði ráð fyrir. Mikilvægt er að starfsemi hússins raskist eins lítið og unnt er á meðan viðgerðir standa yfir. Því ber að fagna að stjórn Norræna hússins hugsar til framtíðar í viðhaldsmálum. Norræna húsið hefur aflað tekna umfram grunnfjárveitingu Norrænu ráðherranefndarinnar. Eins og starfseminni er lýst er Norræna húsið áberandi í íslensku menningarlífi og stuðlar að því að norræn menning verður sýnileg á Íslandi og vekur jafnframt athygli á alþjóðavettvangi og skapar þannig norrænt notagildi.“ Þá ákvað eftirlitsnefndin að fela skrifstofu Norðurlandaráðs að koma skýrslunni til réttra aðila og leita upplýsinga hjá Norrænu ráðherranefndinni um framvindu málsins og kynna nefndinni hana á fundi síðar.
    Velferðarnefnd fjallaði um hlutverk borgaralegs samfélags í norrænu samstarfi. Á fundum Norðurlandaráðs í Reykjavík í október 2015 var haldinn sameiginlegur fundur þriggja fagnefnda ráðsins um málið þar sem varpað var ljósi á borgaralegt frumkvæði (medborgarinitiativ) í Finnlandi í tengslum við tillögu Sambands norrænu félaganna til Norðurlandaráðs um að innleiða norrænt borgaralegt frumkvæði. Það snýst í stuttu máli um að ákveðinn fjöldi norrænna borgara geti lagt fram tillögu til meðferðar í Norðurlandaráði. Nefndirnar voru í heild frekar jákvæðar gagnvart málinu, fyrir utan efnahags- og viðskiptanefnd, en þær hafa jafnframt lagt áherslu á að vinna þurfi málið mun betur. Fagnefndirnar ræddu einnig haustið 2015 tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um endurskoðun áætlunar ráðherranefndarinnar um samstarf við borgaralegt samfélag og reiknað var með að Norðurlandaráð mundi fjalla um endanlegu tillögu ráðherranefndarinnar þessa efnis um haustið. Við málsmeðferð kom fram að til þess að geta rætt hlutverk borgaralegs samfélags í norrænu samstarfi í heild, þar á meðal viðræður Norðurlandaráðs við sjálfboðaliðasamtök, gæti verið við hæfi að koma á norrænum samráðsvettvangi, þ.e. „vettvangi borgaralegs samfélags“, ef áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar yrði tekin til afgreiðslu hjá Norðurlandaráði sem ráðherranefndartillaga. Velferðarnefnd ákvað að fela skrifstofu Norðurlandaráðs að hefja viðræður við skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar um að koma á norrænum vettvangi borgaralegs samfélags og að fela skrifstofu Norðurlandaráðs að leggja drög að svari til Sambands norrænu félaganna um norrænt borgaralegt frumkvæði.
    Hagvaxtar- og þróunarnefnd afgreiddi úr nefnd tillögu um flugöryggi og starfsskilyrði í flugi (A 1647/näring). Í nefndaráliti er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórna Norðurlandanna um að þær eigi frumkvæði að því að endurskoða starfsskilyrði í flugsamgöngum með hliðsjón af flugöryggi, starfskjörum og sanngjarnri samkeppni og að þær stuðli sameiginlega að því að vekja athygli á flugöryggi og starfsskilyrðum á vettvangi norræns, evrópsks og alþjóðlegs samstarfs. Nefndarálitið var samþykkt í atkvæðagreiðslu en flokkahópur hægri manna lagði fram breytingartillögu sem var felld.
    Sjálfbærninefnd ákvað að halda sumarfund sinn í Vestmannaeyjum 26.–28. júní. Samþykkt var að á dagskrá fundarins yrðu málefni hafsins, stjórn sameiginlegra fiskstofna í Norður-Atlantshafi og Barentshafi, blátt lífhagkerfi og áhrif loftslagsbreytinga á hafið.
    Á undan nefndarfundunum voru haldnir tveir sameiginlegir fundir allra þingmanna. Á fyrri fundinum var fjallað um norrænt samstarf í sögulegu ljósi, en í janúar 2016 voru liðin 60 ár frá því að Finnland fékk aðild að Norðurlandaráði. Framsögu á fundinum höfðu Erkki Tuomioja, fyrrverandi utanríkisráðherra Finnlands og fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs, Johan Strang, lektor við háskólann í Helsinki, Anna Abrahamsson, forseti Norðurlandaráðs æskunnar, og Joakim Palme, prófessor við Uppsalaháskóla.
    Á seinni sameiginlega fundinum var fjallað um vinnumarkað á Norðurlöndum án landamæra. Poul Nielson, fyrrverandi þróunarsamvinnuráðherra Danmerkur og fyrrverandi framkvæmdastjóri ESB á sviði þróunarsamvinnu, var aðalframsögumaður á fundinum en honum var falið árið 2015 af Norrænu ráðherranefndinni að gera ítarlega úttekt á norræna vinnumarkaðnum.

Vorþing Norðurlandaráðs í Ósló.
    Aprílfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stórþinginu í Ósló 18.–19. apríl. Fundina sóttu af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Vigdís Hauksdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Fyrri fundardaginn voru flokkahópsfundir og sameiginlegir fundir nefnda og seinni daginn voru nefndarfundir og vorþingfundur ráðsins. Helstu mál á dagskrá voru áhrif landamæraeftirlits á norrænt samstarf, börn og ungmenni á Norðurlöndum, frjálst flæði vinnuafls milli Norðurlanda og hreyfanleiki og sanngjörn samkeppni.
    Forsætisnefnd tók fyrir tillögu frá flokkahópi miðjumanna um sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs (A 1669/presidiet). Nefndin hafði áður sent tillöguna til umsagnar hjá norrænu þekkingar- og menningarnefndinni. Hún styður málið en lagði til í umsögn sinni að gerð yrði úttekt á slíkum verðlaunum til að skoða kostnað, viðmið og listflokka, sem og hvort verðlaunin gætu samlagast núverandi kvikmyndaverðlaunum og úr yrðu kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs. Með slíkri úttekt ætti einnig að skoða hvort ein verðlaun Norðurlandaráðs í viðbót drægju úr gildi núverandi verðlauna. Við umræðuna í forsætisnefnd kom fram að umfang tillögunnar væri óljóst og að skýra þyrfti betur til hvers konar sjónvarpsefnis hún ætti að taka. Forsætisnefnd vísaði því tillögunni aftur til flokkahóps miðjumanna til að hann fengi möguleika á að gera betur grein fyrir málinu.
    Norræna sjálfbærninefndin afgreiddi tillögu frá flokkahópi jafnaðarmanna um úttekt á úrgangsstraumum á Norðurlöndum (A 1662/miljø). Í nefndaráliti er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að úrgangsstraumar milli norrænu landanna og milli Norðurlanda og annarra svæða verði kannaðir, athugað hvernig þeir hafa þróast á síðustu tíu árum og hvaða þættir hafa haft áhrif á þróunina; og um að kanna hvort regluverk, styrkjaáætlanir og gjöld sem innheimt eru í tengslum við úrgang í hverju landi vinni með eða gegn markmiðum um að auka hlutfall úrgangs sem fer til efnisendurvinnslu í löndunum.
    Sjálfbærninefndin ákvað einnig að óska eftir greinargerð í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn árið 2016 um hvað ríkisstjórnir Norðurlanda hafi gert á síðustu árum til að draga úr hættu á slysum í siglingum á norðurslóðum og til að draga úr umhverfisskaða vegna slysa í siglingum.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin afgreiddi úr nefnd tillögu frá flokkahópi jafnaðarmanna um hreyfanleika og sanngjarna samkeppni (A 1664/näring). Í nefndaráliti er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að láta vinna úttekt á því hvernig hægt verði að byggja upp og fjármagna til lengri tíma litið heildræna upplýsingaþjónustu á Eystrasaltssvæðinu fyrir starfsfólk, vinnuveitendur og lítil og meðalstór fyrirtæki; og að eiga frumkvæði að samstarfi innan Norðurlanda, hið minnsta, um hvernig betur megi samræma og gera aðgengilegar á norrænum vettvangi upplýsingar sem veittar eru til smárra og meðalstórra fyrirtækja innan landanna.
    Hagvaxtar- og þróunarnefndin afgreiddi einnig úr nefnd tillögu frá flokkahópi miðjumanna um að auðvelda frjálst flæði vinnuafls milli Norðurlandanna (A 1665/näring). Í nefndaráliti er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að leggja fram breytingar á reglum eða hagnýtar lausnir sem beita mætti á norrænum vettvangi til að auðvelda flæði vinnuafls innan ólíkra starfsgreina í þeim tilgangi að stuðla að því að uppfylla þörf fyrir vinnuafl þegar hún skapast innan starfsgreinar í landi eða á landsvæði; og að eiga frumkvæði að umræðum yfir landamæri við vinnuveitenda- og launþegasamtökin í ólíkum starfsgreinum um að samræma ákvæði reglna í þeim tilgangi að skapa sameiginlegan norrænan vinnumarkað innan þeirrar starfsgreinar og að starfsgreinar mundu gera það koll af kolli eftir hentugleika, þar sem byggingargeirinn gæti verið hentug byrjun. Í nefndarálitinu er einnig lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um að flýta málsmeðferð umsókna um viðurkenningu starfsgreinaréttinda á öllum Norðurlöndunum.
    Norræna velferðarnefndin afgreiddi tillögu frá Norrænu ráðherranefndinni um börn og ungmenni á Norðurlöndum – þverfaglega stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar 2016 –2022 (B 305/välfärd). Meginmarkmið stefnunnar eru að ráðherranefndin í heild sinni leggi meiri áherslu á að flétta réttindi barna og ungmenna inn í starf sitt þannig að betur verði hugað að og hlustað á það sem börn og ungmenni hafa að segja og að Norræna ráðherranefndin beini í auknum mæli sjónum að þremur stefnumótandi aðgerðasviðum sem eru öflugur stuðningur við börn og ungmenni í áhættuhópum og virkni þeirra í samfélaginu, áframhaldandi samstarf og stuðningur við borgaralegt samfélag, betri þekkingarmiðlun og aukin færniþróun. Í nefndaráliti velferðarnefndar er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hrinda áætluninni í framkvæmd.
    Velferðarnefndin samþykkti einnig svarbréf til Sambands norrænu félaganna um tillögu sambandsins til Norðurlandaráðs um að innleiða fyrirkomulag um norrænt borgaralegt frumkvæði sem í fælist að ákveðinn fjöldi norrænna borgara gæti komið með hugmynd um tillögu til meðferðar í Norðurlandaráði. Í svarbréfinu kemur fram að Norðurlandaráð sé ekki tilbúið að innleiða slíkt fyrirkomulag. Ástæður þess séu að þrátt fyrir að þingmenn ráðsins fagni frumkvæði sem stuðli að lýðræði og áhuga á norrænu samstarfi hafi þeir ólíka sýn á hvernig best sé að stuðla að því á norrænum vettvangi. Hluti þingmanna telji ekki uppbyggilegt að draga upp mynd af Norðurlandaráði sem löggjafarvaldi og það gæti leitt til vonbrigða meðal norrænna borgara ef norrænt borgaralegt frumkvæði yrði innleitt. Aðrir vísi til þess að norrænum borgurum sé velkomið að hafa samband við þingmenn í Norðurlandaráði sem hafi rétt til að leggja fram tillögur til norrænu ríkisstjórnanna og Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Á vorþingfundi Norðurlandaráðs var sérstök umræða um áhrif landamæraeftirlits á norrænt samstarf, auk umræðna og atkvæðagreiðslna um ráðherranefndartillögur og þingmannatillögur.
    Anne Berner, samstarfsráðherra Finnlands og formaður ráðherranefndar norrænu samstarfsráðherranna, gerði grein fyrir áhrifum landamæraeftirlits á norrænt samstarf. Hún sagði að vegna þeirra áskorana sem hefðu falist í mesta fjölda flóttafólks í Evrópu á vorum tímum hefðu ríkisstjórnir Norðurlanda neyðst til, innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga sinna, að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða í formi landamæraeftirlits. Slíkt væri talið samræmast samningi um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlanda og Schengen-reglum, þar sem staða mála væri áskorun fyrir allsherjarreglu og almannaöryggi. Berner sagði jafnframt að bráðavandi vegna flóttafólks yrði ekki leystur á norrænum vettvangi heldur á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.
    Berner kynnti einnig yfirlýsingu norrænna samstarfsráðherra frá því fyrr um daginn þess efnis að Norðurlöndin ættu hér eftir sem hingað til að stefna að landamæralausum Norðurlöndum og að mikilvægt væri að standa vörð um hið norræna sjónarhorn í komandi umræðum og tillögum um stöðuna í málefnum flóttafólks. Þrátt fyrir tímabundið landamæraeftirlit væri staða norræns samstarfs sterk.
    Þingmenn tóku við umræðuna undir það að ríkar ástæður væru að baki aðgerðum stjórnvalda á sviði landamæraeftirlits, að þær ráðstafanir væru tímabundnar og að leita þyrfti að lausn vandans á evrópskum vettvangi. Þeir lögðu einnig áherslu á meiri norræna samvinnu í tengslum við aðlögun flóttafólks og innflytjenda og fram kom að kanna mætti möguleika á samnorrænni vegabréfaskoðun á landamærum Danmerkur og Þýskalands.
    Þingfundurinn samþykkti tvenn tilmæli. Annars vegar tilmæli 1/2016 til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hrinda í framkvæmd áætluninni um börn og ungmenni á Norðurlöndum – þverfaglegri stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar 2016 –2022. Hins vegar tilmæli 2/2016 til ríkisstjórna Norðurlanda um að þær taki frumkvæði að því að endurskoða starfsskilyrði í flugsamgöngum með hliðsjón af flugöryggi, ráðningarkjörum og sanngjarnri samkeppni og að þær taki sameiginlega frumkvæði að því að vekja athygli á flugöryggi og starfsskilyrðum á vettvangi norræns, evrópsks og alþjóðlegs samstarfs.
    Þá tók þingfundurinn eina ákvörðun um innri málefni Norðurlandaráðs. Samþykkt var að bæta við nýrri grein í starfsreglur Norðurlandaráðs um aukna áheyrnaraðild með eftirfarandi orðalagi: „Samaþingin í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð hafa með fulltingi Þingmannaráðs Sama aukna áheyrnaraðild með rétti til þátttöku í nefndarfundum þegar fjallað er um mál sem varða hagsmuni Sama. Nefndirnar skera úr um fyrir hvaða fundi og mál boðið á við. Þátttökurétturinn felur ekki í sér atkvæðisrétt.“
    Að lokum voru nýjar tillögur teknar til fyrstu umræðu. Það voru tillaga um framfylgd við alþjóðleg loftslagsmarkmið, tillaga um áframhaldandi frjálsa för, víðsýni og samstarf innan Norðurlanda, tillaga um dánartíðni slökkviliðsmanna af völdum krabbameins og flokkun ákveðinna tegunda krabbameins, tillaga um heyrnarskerðingu, tillaga um bestu hugsanlegu aðlögun hælisleitandi barna og ábyrgð allra skólagerða, tillaga um sameiginlegar norrænar aðgerðir gegn kynferðisáreitni á vinnustöðum, tillaga um aukna þátttöku Norðurlandaráðs æskunnar, tillaga um skynsamlega nýtingu matarúrgangs og baráttu gegn matarsóun og tillaga um að efna til leiðtogafundar um málefni íþrótta.

Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Slésvík.
    Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs var að þessu sinni haldinn í borginni Slésvík í þýska sambandsríkinu Slésvík-Holtsetalandi þriðjudaginn 21. júní. Helgi Hjörvar sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem varamaður fyrir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, auk Helga Þorsteinssonar ritara.
    Töluverð umræða varð um skipulag Norðurlandaráðsþings sem að þessu sinni var haldið í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn frá 31. október til 3. nóvember. Ákveðið var að á leiðtogafundi með forsætisráðherrum Norðurlanda, sem haldinn er sem hluti af þinginu, yrði rætt um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt var ákveðið að bjóða ráðherrum vinnumála á Norðurlöndum að sitja fyrir svörum í fyrirspurnatíma á þinginu í tilefni af nýútkominni skýrslu um atvinnulíf á Norðurlöndum sem Daninn Poul Nielson, fyrrverandi ráðherra og stjórnarmaður í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, tók saman fyrir Norrænu ráðherranefndina. Rætt var um að reyna að fá Frans páfa til að ávarpa þingið, en hann verður í opinberri heimsókn í Svíþjóð um það leyti sem þingið verður haldið. Formleg fyrirspurn þessa efnis hefur verið send Páfagarði. Í tengslum við þingið munu Norðurlandaráð og Sameinuðu þjóðirnar standa sameiginlega fyrir viðburði á skrifstofu stofnana Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn (FN-byen).
    Töluverðar umræður urðu um fyrirhugaða námsstefnu Norræna fjárfestingarbankans í tengslum við þingið í tilefni af fjörutíu ára afmæli bankans. Gerðar voru athugasemdir við ákvörðunarferlið, við að námsstefnan ætti að vera hluti af sjálfu þinginu en ekki hliðarviðburður og við að hún yrði haldin á ensku. Niðurstaðan varð þó sú að halda námsstefnuna í samræmi við tillögur Norræna fjárfestingarbankans og forseta Norðurlandaráðs, og var Helgi Hjörvar eindregið fylgjandi þeirri niðurstöðu.
    Rætt var um þemaþing Norðurlandaráðs sem haldið var í apríl 2016 í Ósló þar sem fjallað var um landamærahindranir á Norðurlöndum. Var það samdóma álit fundarmanna að þingumræðurnar hefðu ekki verið nógu líflegar og áhugaverðar, þingmenn hefðu verið varkárir í málflutningi sínum og að fjölmiðlamenn, sem voru fjölmennir á þinginu, hefðu ekki haft úr nóg miklu að moða.
    Samþykktar voru ýmsar tillögur í tengslum við starf nefnda Norðurlandaráðs að sautján sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en nefndirnar hafa skipt með sér verkum varðandi markmiðin. Heildarrammi fjárhagsáætlunar norræns samstarfs fyrir árið 2017 verður óbreyttur frá árinu 2016, en fram kom á fundinum að fjárframlög til norræns samstarfs hefðu dregist verulega saman á síðustu tveimur áratugum. Unnið hefur verið að endurbótum á framsetningu fjárhagsáætlunarinnar og töldu þingmenn að það hefði tekist vel en að ýmislegt mætti enn bæta.
    Rætt var um tillögu sem fram hafði komið um að halda þemaþing Norðurlandaráðs í apríl 2017 í London í tengslum við fyrirhugað kynningarátak Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í samstarfi við menningarmiðstöðina Southbank Centre. Tillagan mætti verulegri andstöðu, m.a. vegna kostnaðar og erfiðleika við öryggisgæslu, en nefnt var að í staðinn gæti forsætisnefndin hugsanlega haldið einn fund í London árið 2017.
    Beiðni sem borist hafði frá þingi þýska sambandsríkisins Slésvíkur-Holtsetalands um áheyrnaraðild að Norðurlandaráði fékk góðar undirtekir, m.a. frá Helga Hjörvar. Ákveðið var að taka endanlega ákvörðun um aðild um haustið.
    Þýðinga- og túlkadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinar hafði verið beðin um að taka saman áætlun um kostnað við að hafa íslenska og finnska túlkun á öllum fundum Norðurlandaráðs og við að þýða öll fundargögn á þau tungumál. Dagskrár funda og ýmis fundargögn eru nú þegar þýdd á finnsku og íslensku og túlkun er á flestum fundum Norðurlandaráðs. Að mati þýðinga- og túlkadeildarinnar hefði það ekki verulegan kostnaðarauka í för með sér að hafa túlkun á öllum fundum, en þýðing allra fundargagna á finnsku og íslensku fæli í sér árlegan kostnaðarauka upp á um fimm milljónir danskra króna. Einnig taldi þýðinga- og túlkadeildin að erfitt gæti orðið að útvega nógu marga túlka og þýðendur á íslensku.
    Í tengslum við forsætisnefndarfundinn fóru nefndarmenn einnig til Kílar, höfuðborgar Slésvíkur-Holtsetalands, og hittu þar að máli Klaus Schlie, forseta þings sambandsríkisins, ýmsa aðra þingmenn og fulltrúa samtaka danska minni hlutans í Þýskalandi.Þeir ræddu m.a. við Anke Spoorendonk, þingflokksformann SSV (Sydslesvigsk Vælgerforening), sem er flokkur danska minni hlutans.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í sænska þinginu í Stokkhólmi 26.–27. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í fundunum Höskuldur Þórhallsson formaður, Elín Hirst, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon, Vigdís Hauksdóttir og Helgi Hjörvar, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Meðal þess sem var á dagskrá fundarins var tillaga um að stofna skrifstofu Norðurlandaráðs í Brussel, umsókn um áheyrnaraðild að Norðurlandaráði frá þýska sambandsríkinu Slésvík-Holtsetaland og tillaga um aukið samstarf og samráð Norðurlanda varðandi flóttamannamál og landamæraeftirlit.
    Meiri hluti forsætisnefndarmanna reyndust vera andsnúnir tillögu miðflokkahópsins um að stofna skrifstofu Norðurlandaráðs í Brussel til að sinna tengslum við Evrópusambandið, einkum Evrópuþingið. Miðflokkahópurinn gerði fyrirvara við þá niðurstöðu og málið var tekið fyrir á Norðurlandaráðsþingi síðar sama ár.
    Forsætisnefndin samþykkti að ganga til samstarfs við þing þýska sambandsríkisins Slésvík-Holtsetland, en umsókn hafði borist frá þinginu um áheyrnaraðild að Norðurlandaráði. Ákveðið var að bjóða tveimur fulltrúum þingsins á Norðurlandaráðsþing, en að nota ekki hugtakið „áheyrnaraðild“ um samstarfið, a.m.k. ekki fyrr en gerð hefði verið heildarúttekt á slíku samstarfi Norðurlandaráðs við erlenda aðila. Ákveðið var að skipa starfshóp til að fara yfir alþjóðasamstarf Norðurlandaráðs.
    Samþykkt var í forsætisnefnd að leggja til við Norrænu ráðherranefndina að tekin verði saman tölfræði um þróun mála á Norðurlöndum hvað varðar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030.
    Skiptar skoðanir voru í forsætisnefnd um tillögu miðflokkahópsins um frjálsa för, víðsýni og samstarf innan Norðurlanda. Tillagan var í þremur liðum:
          að mótuð verði áætlun um hvernig aðildarlöndin geti tekið á flóttamannamálunum í sameiningu,
          að samráð verði haft við allar norrænu ríkisstjórnirnar ef stefnt er að því að herða reglur þannig að neikvæð áhrif hljótist af fyrir norrænt samstarf,
          að forðast verði eftir megni að taka ákvarðanir sem stefni í hættu norrænu samstarfi.
    Í drögum að nefndaráliti, sem Henrik Dam Kristensen, forseti Norðurlandaráðs 2016, studdi, var hvatt til þess að fyrsta lið tillögunnar yrði hafnað, að annar liður yrði samþykkur og að orðalagi þriðja liðar yrði breytt þannig að tilmælum yrði beint til ríkisstjórna Norðurlanda um „að samráð verði haft við allar hinar norrænu ríkisstjórnirnar ef stefnt er að því að herða reglur þannig að neikvæð áhrif hljótist fyrir norrænt samstarf um vegabréfafrelsi“.
    Skiptar skoðanir voru í forsætisnefnd um þetta mál og m.a. beitti Höskuldur Þórhallsson, formaður Íslandsdeildar, sér mjög fyrir því að tillaga miðflokkahópsins yrði samþykkt óbreytt og tóku bæði Steingrímur J. Sigfússon og Helgi Hjörvar undir þá afstöðu. Greidd voru atkvæði og fór þannig að nefndarálitið var fellt og forsætisnefnd lýsti stuðningi við upprunalegu tillöguna. Tveir þingmenn gerðu fyrirvara við þessa niðurstöðu og málið kom á ný til meðferðar og nýrrar atkvæðagreiðslu á Norðurlandaráðsþingi.

68. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Norðurlandaráðsþing var haldið í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn dagana 1.–3. nóvember 2016. Fyrir Íslands hönd sóttu þingið Silja Dögg Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þórunn Egilsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sótti þingið hvort tveggja sem meðlimur Norðurlandaráðs og sem forseti Alþingis, en hún fundaði m.a. með forsetum hinna norrænu þinganna. Auk þess sótti Helgi Þorsteinsson ritari þingið.
    Eygló Harðardóttir, félags-, húsnæðismála- og samstarfsráðherra, kom til Kaupmannahafnar á þingið og var þar jafnframt sem staðgengill forsætisráðherra. Aðrir ráðherrar sem sóttu þingið voru Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
    Meðal helstu umræðuefna á Norðurlandaráðsþingi voru flóttamannamál, sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Samþykkt var að opna skrifstofu á vegum Norðurlandaráðs í Brussel og landsdeildir Finnlands og Íslands lögðu fram sameiginlega tillögu um að gera finnsku og íslensku að fullgildum vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin. Britt Lundberg frá Álandseyjum var kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2017.
    Norðurlandaráðsþing er helsti viðburður ársins í norrænu samstarfi. Þar koma saman þeir þingmenn sem sitja í Norðurlandaráði, fjöldi norrænna ráðherra og gestir frá Eystrasaltsríkjunum, Rússlandi og fleiri löndum og stofnunum. Þátttaka Íslendinga markaðist að þessu sinni nokkuð af þingkosningunum sem haldnar voru á Íslandi 29. október sl. og færri sóttu þingið frá Íslandi en oft áður.
    Norðurlandaráð æskunnar (UNR) hélt árlegt þing sitt helgina fyrir Norðurlandaráðsþing. Þar voru saman komnir fulltrúar aðildarsamtaka UNR auk áheyrnarfulltrúa, samtals 85 manns. Rætt var um m.a. frjálsa för á Norðurlöndum, hugmyndir um sameiginlegan norrænan ríkisborgararétt, olíuvinnnslu og umhverfisvernd á norðurslóðum og stöðu Færeyja í Norðurlandaráði. Daninn Espen Krogh frá Ungliðasambandi norrænna íhaldsmanna var kosinn forseti Norðurlandaráðs æskunnar fyrir árið 2017.
    Að venju héldu flokkahópar Norðurlandaráðs fundi mánudaginn fyrir setningu þingsins. Að þeim loknum buðu stofnanir Sameinuðu þjóðanna, sem hafa bækistöð í Kaupmannahöfn, þingmönnum Norðurlandaráðs til fundar í „FN-byen“, miðstöð Sameinuðu þjóðanna í borginni, til að ræða sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum kom fram að Norðurlandaráð hygðist beita sér af krafti fyrir innleiðingu markmiðanna og hefði skipað vinnuhóp undir stjórn norsku þingkonunnar Sonju Mandt til að vinna að framgangi þeirra á Norðurlöndum og á alþjóðavettvangi.
    Þriðjudaginn 1. nóvember voru á dagskrá fundir nefnda Norðurlandaráðs, fundir nefndanna með ráðherrum og jafnframt fundir forsætisnefndar Norðurlandaráðs með rússneskum þingmönnum. Eftir hádegi bauð Margrét Danadrottning til móttöku í Kristjánsborgarhöll.
    Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna voru á ný til umfjöllunar á leiðtogafundi í upphafi Norðurlandaráðsþings þriðjudaginn 1. nóvember þegar forsætisráðherrar Norðurlanda ræddu við þingmenn Norðurlandaráðs. Sérstök áhersla var lögð á jafnrétti kynjanna í tengslum við sjálfbærnimarkmiðin. Sú áhersla kom fram í ávarpi Eyglóar Harðardóttur, staðgengils forsætisráðherra Íslands, en hún sagði m.a.: „Mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna er rauði þráðurinn í gegnum öll heimsmarkmiðin og ekki að ástæðulausu. Konur og stúlkur eru meira en helmingur íbúa jarðar. Þær verða oft verr fyrir barðinu á fátækt, loftslagsbreytingum, skorti á heilbrigðisþjónustu og efnahagskreppum og það er gríðarlega mikilvægt, nú sem aldrei fyrr, að tryggja jafnrétti og valdeflingu stúlkna og kvenna um heim allan. Ísland eins og önnur Norðurlönd styður fast við mikilvægi kynheilbrigðis og réttinda því tengdu, þar sem við erum sannfærð um að sá þáttur sé mikilvæg breyta við að ná jafnrétti. Þannig geta Norðurlöndin í sameiningu komið sterk inn við framkvæmd heimsmarkmiðanna.“
    Landsdeildir Íslendinga og Finna í Norðurlandaráði lögðu fram sameiginlega tillögu fyrir þingið um að íslenska og finnska verði vinnutungumál í Norðurlandaráði með sama hætti og sænska, danska og norska. Ekki gafst tími til að ræða tillöguna á þinginu en hún var tekin fyrir síðar á forsætisnefndarfundi.
    Á þinginu var samþykkt tillaga um að opna skrifstofu með einum starfsmanni á vegum Norðurlandaráðs í Brussel til að styrkja tengslin við Evrópuþingið. Mjög skiptar skoðanir voru í Norðurlandaráði um þessa tillögu sem upphaflega kom frá flokkahópi miðjumanna. Steingrímur J. Sigfússon talaði m.a. gegn henni á þinginu og taldi að lítið mundi áorkast með einum starfsmanni. Hann sagðist þó vilja ræða hvernig hægt væri með öðrum hætti að styrkja samstarfið við Evrópuþingið.
    Miklar umræður urðu á þinginu um Nord Stream 2, fyrirhugaða gasleiðslu Rússa um Eystrasaltið. Flokkahópur hægrimanna lagði fram tillögu þess efnis að tilmælum yrði beint til ríkisstjórna Norðurlanda um að láta kanna málið á grundvelli umhverfis-, öryggis-, varnar- og utanríkismála, að samráð yrði haft við önnur ríki við Eystrasalt og að málinu yrði komið á framfæri við framkvæmdastjórn ESB.
    Fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir árið 2017 var samþykkt á þinginu nokkurn veginn ágreiningslaust. Steingrímur J. Sigfússon lýsti ánægju með að fjárhagsramminn væri óbreyttur frá fyrra ári og að niðurskurðartímabili síðustu ára væri þar með vonandi lokið. Hann sagðist þó óska eftir auknu fjármagni til norræns samstarfs, enda væri nóg af stórum verkefnum fram undan, m.a. á sviði loftslagsmála, sjálfbærrar þróunar, málefna norðurslóða og í hefðbundnum kjarna norræns samstarfs á sviði menningarmála, rannsókna o.s.frv. Steingrímur nefndi einnig að efla þyrfti samstarfið í flokkahópnum og veita þeim aukið fjármagn.
    Um miðjan október sl. lagði færeyska landsstjórnin fram umsókn um fulla og sjálfstæða aðild Færeyja að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Sjálfsstjórnarsvæðin á Norðurlöndum, þ. e. Færeyjar, Grænland og Álandseyjar, hafa nú þegar töluverðan rétt í norrænu samstarfi samkvæmt Álandseyjaskjalinu sem samþykkt var 2007. Færeyingar vilja þó ganga lengra og öðlast aðild til jafns við Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð og jafnframt greiða til samstarfsins á sömu forsendum og áðurnefnd lönd. Töluverðar umræður urðu um umsóknina, einkum voru það færeyskir og danskir stjórnmálamenn sem skiptust á skoðunum. Danski jafnaðarmaðurinn Henrik Dam Kristensen, sem gegndi embætti forseta Norðurlandaráðs árið 2016, sagði að breyta þyrfti dönsku stjórnarskránni og Helsinki-sáttmálanum, sem er grundvöllur norræns samstarfs, ef veita ætti Færeyingum fulla aðild og að stjórnmálamenn ættu að fara varlega í slíkar breytingar. Mikkel Dencker, þingmaður Danska þjóðarflokksins og varaforseti Norðurlandaráðs 2016, benti á að Norðurlandaráð væri skilgreint sem samstarf fimm fullvalda ríkja og að eitt þeirra væri danska samveldið. Færeyjar væru í danska samveldinu og tækju þátt í alþjóðastarfi sem hluti af því. Hann benti jafnframt á að Færeyjar hefðu hlutfallslega marga fulltrúa í dönsku landsdeildinni miðað við fólksfjölda. Jenis af Rana, þingmaður færeyska Miðflokksins, sagði að allir stjórnmálaflokkar í Færeyjum styddu umsóknina og að í henni fælist ósk um jafnræði. Hann undraðist að ekki væri fullur stuðningur við hana meðal annarra norrænna landa. Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja og formaður Þjóðveldisflokksins, sagði að Færeyjar hefðu fyrst óskað eftir fullri aðild árið 1976 og ítrekað eftir það. Hann benti á að Færeyingar væru sérstök þjóð með eigið tungumál og stofnanir og eigin sjálfsmynd. Hann sagði að ef menn hefðu einblínt á lagalegar hindranir í tengslum við stofnun Norðurlandaráðs árið 1952 og síðar stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar hefði ekkert orðið úr þeim fyrirætlunum. Hann benti jafnframt á að Norðurlönd hefðu verið í fararbroddi varðandi það að viðurkenna þjóðir í stað þess að leggja aðeins áherslu á tiltekin þjóðréttarleg fyrirbæri.
    Eins og tíðkast hefur síðustu árin voru öll verðlaun Norðurlandaráðs afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við þingið. Friðrik, krónprins Dana, og Mary krónprinsessa voru viðstödd verðlaunaathöfnina sem fram fór í tónlistarhúsi danska ríkisútvarpsins í Kaupmannahöfn. Arnar Már Arngrímsson hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Sölvasaga unglings. Bókmenntaverðlaunin komu í hlut sænska rithöfundarins Katarinu Frostenson fyrir ljóðabókina Sånger och formler. Umhverfisverðlaunin voru veitt fyrir smáforritið Too Good To Go sem auðveldar veitingastöðum og matvælafyrirtækjum að selja almenningi umframmatvæli. Daninn Hans Abrahamsen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir söngbálkinn Let Me Tell You. Norski kvikmyndaleikstjórinn og handritshöfundurinn Joachim Trier, handritshöfundurinn Eskil Vogt og framleiðandinn Thomas Robsahm hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndina Louder Than Bombs.
    Kosningar til nefnda og forystustarfa í Norðurlandaráði fyrir árið 2017 fóru fram í lok þingsins. Britt Lundberg, þingmaður Miðflokksins á Álandseyjum, var kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2017 og Juho Eerola, þingmaður Sannra Finna, var kosinn varaforseti. Íslenskir þingmenn fengu sæti í forsætisnefnd og þremur fagnefnda Norðurlandaráðs, m.a. kom embætti varaforseta velferðarnefndar í hlut Íslendinga, en í ljósi þess að ekki var búið að kjósa nýja Íslandsdeild Norðurlandaráðs í kjölfar þingkosninganna var ákveðið að taka skipan Íslendinga í nefndirnar til endurskoðunar síðar.

7. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins í Ríga.
    Árleg Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðissins (Baltic Sea Parliamentary Conference, BSPC) var að þessu sinni haldin í Ríga í Lettlandi 28.–30. ágúst. Þema ráðstefnunnar var „Hágæðamenntun og vinnuafl – framtíð Eystrasaltssvæðisins“. Vigdís Hauksdóttir og Róbert Marshall tóku þátt í ráðstefnunni fyrir Íslands hönd, auk Helga Þorsteinssonar ritara.
    Lettar, sem voru gestgjafar ráðstefnunnar, lögðu mikið upp úr því að gera hana sem veglegasta og árangursríkasta, m.a. vegna þess að verið var að halda upp 25 ára afmæli BSPC-samstarfsins. Raimonds Vejonis, forseti Lettlands, ávarpaði ráðstefnuna, en hann var virkur í starfi samtakanna um árabil áður en hann tók við forsetaembættinu. Einnig tóku ýmsir ráðherrar, háttsettir embættismenn og aðrir áhrifamenn þátt í henni.
    Íslendingar tóku við formennsku í Eystrasaltsráðinu (Council of Baltic Sea States, CBSS), samstarfi ríkisstjórna landanna við Eystrasalt árið 2016. Á ráðstefnu BSPC kynnti Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra áherslur Íslendinga í formennskutíðinni: börn, jafnrétti, sérstaklega jafnrétti kynjanna, og lýðræði. Guðmundur Árni sagði að þrátt fyrir landfræðilega stöðu Íslands fjarri Eystrasaltssvæðinu væri samstarfið við löndin þar forgangsmálefni fyrir Íslendinga. Hann minnti á að Íslendingar hefðu verið fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna árið 1991.
    Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um umsókn Hvíta-Rússlands um áheyrnaraðild að BSPC, en það er málefni sem ítrekað hefur verið til umræðu áður og skoðanir hafa verið mjög skiptar. Á síðustu ráðstefnu BSPC var ákveðið að sérstök sendinefnd á vegum samtakanna færi til Hvíta-Rússlands til að kanna aðstæður. Sendinefndin fór í þessa för í apríl 2016 og átti viðræður við stjórnmálamenn, hvort tveggja úr röðum stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, og báðir hópar lýstu áhuga á nánari tengslum við BSPC. Í umræðum á ráðstefnunni lagði sænski þingmaðurinn Cecilie Tenfjord-Toftby áherslu á að í hópi áheyrnarfulltrúa Hvít-Rússa yrðu ekki aðeins fulltrúar stjórnarliða heldur einnig stjórnarandstöðunnar.
    Á ráðstefnunni var Carola Veit, forseti þings sambandríkisins Hamborgar, kjörin nýr forseti samtakanna. Hún tók við af lettneska þingmanninum Jãnis Vucãns. Árið 2017 verður ráðstefnan haldin í Hamborg.
    Í lokaályktun ráðstefnunnar var m.a. fjallað um mikilvægi baráttunnar gegn hryðjuverkum, en jafnframt að hún mætti ekki ganga gegn grundvallargildum réttarríkisins og mannréttindum. Einnig var fjallað um málefni flóttamanna, hvatt til samstarfs ríkja við Eystrasalt í þessum málaflokki og til mannúðlegrar meðferðar flóttamanna. Jafnframt var fjallað um umhverfismál og var því sérstaklega fagnað að samkvæmt ákvörðun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar taka gildi nýjar reglur um losun skólps frá farþegaskipum í síðasta lagi árið 2021 og eru þær í samræmi við ítrekaðar ályktanir BSPC í þessum efnum. Í lokaályktuninni og í umræðum á þinginu var mikið fjallað um tengsl menntunar og vinnumarkaðar, aukið atvinnuleysi ungmenna og ýmsar aðferðir til að ráða á því bót. Einnig var fjallað um sjálfbæra þróun ferðamennsku og verndun umhverfis sjávar og stranda.

8. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. danskar kr.
    Verðlaun ráðsins 2016 voru afhent 1. nóvember við hátíðlega athöfn í tónleikahúsi danska ríkisútvarpsins í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Afhending verðlaunanna var með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis. Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs árið 2015 afhentu verðlaunin, verðlaunastyttuna Norðurljós.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað árlega síðan 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af málum Norðurlanda. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og málum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Bókmenntaverðlaunin 2016 komu í hlut sænska rithöfundarins Katarinu Frostenson fyrir ljóðabókina Sånger och formler. Verðlaunahafi ársins 2015, Kim Leine, afhenti verðlaunin.
Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 er ljóðskáld með langan feril og margþætt höfundarverk að baki. Í vef samtíma og goðsagna, nánasta umhverfis og víðrar veraldar, áþreifanlegs hvunndags og ferðalaga um minningar, bókmenntir og söngva, laðar hún heildina fram gegnum smáatriðin. Ljóðabókin Sånger och formler eftir Katarinu Frostenson er frásögn af hinum líkamlegu og andlegu opinberunum lífsins, um hið smáa í því stóra og um manneskjuna í heiminum. Í ljóðum hennar – sem eru sveigjanleg, þrátt fyrir stranga uppbyggingu – eiga stöðugar breytingar sér stað, og í þeim kristallast hið margþætta undur lífsins.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Daninn Hans Abrahamsen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2016 fyrir söngbálkinn Let Me Tell You. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Engum þeim, sem heyrir söngbálkinn Let Me Tell You eftir Hans Abrahamsen, getur dulist að þar fer verk í hæsta gæðaflokki. Verkið býður upp á marglaga túlkun og ber vott um bæði ríkt innihald og fágun, með brothættum formgerðum sem þó eru teknar föstum tökum. Sinfónísk uppbyggingin kann að virðast hefðbundin, en er engu að síður nýstárleg og hugvitsöm og ljáir verkinu afar nútímalegan blæ.
    Verkið er samið af miklum faglegum metnaði, ekki síst hvað varðar blandaða notkun á blæbrigðum hljómsveitarinnar, en einkum er sönghlutinn athyglisverður sökum þess hve snilldarlega tónskáldið færir sér í nyt rödd og tónlistargáfu Barböru Hannigan, sem verkið er skrifað fyrir. Hér eru hæfileikar hennar sannarlega nýttir til hins ýtrasta.
    Tilfinningaleg tjáning í verkinu er stórkostlega margbrotin, nákvæm og sterk, einkum í langa söngnum í lokin (líkt og í Das Lied von der Erde eftir Mahler), þar sem hinir mörgu þættir verksins koma saman í heildstæða hugmynd.
    Þegar á allt er litið mun þetta verk hljóta sinn sess á efnisskrám og vera metnaðarfullum sópransöngkonum áskorun um mörg ókomin ár.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Umhverfisverðlaunin fyrir árið 2016 voru veitt fyrir smáforritið Too Good To Go sem auðveldar veitingastöðum og matvælafyrirtækjum að selja almenningi umframmatvæli. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Smáforritið Too Good To Go hlýtur tilnefningu því um er að ræða nýskapandi stafræna lausn sem á einfaldan og aðgengilegan hátt getur breytt viðhorfum neytenda og fyrirtækja til matarsóunar og auðlindanýtingar. Þjónustan auðveldar veitingastöðum og matvælafyrirtækjum að selja almenningi umframmatvæli og almenningi að gera góð kaup. Hugmyndin að baki forritinu getur verið öðrum hvatning til að koma á fót svipuðum verkefnum í öðrum atvinnugreinum, en hún hefur þegar breiðst út til annarra landa. Verkefnið er í samræmi við ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun, sem ganga m.a. út á að draga úr matarsóun og auðlindanotkun almennt.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda, og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Norski kvikmyndaleikstjórinn og handritshöfundurinn Joachim Trier, handritshöfundurinn Eskil Vogt og framleiðandinn Thomas Robsahm hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2016 fyrir myndina Louder Than Bombs. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „ Louder Than Bombs er beitt, hugvitsamleg og framsýn kvikmynd um fjölskyldu sem tekur að leysast upp í kjölfar andláts móðurinnar og eiginkonunnar. Joachim Trier hefur unnið listrænt afrek ásamt teymi sínu þar sem frásagnarlistin nær nýjum hæðum. Flókin uppbygging kvikmyndarinnar, tilfinningaleg dýpt og hæfileiki til að tæta í sundur klisjur ætti að tryggja henni sess á námskrá kvikmyndaskóla um allan heim.“

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á einu af tungumálum norrænu landanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa, leikrits, samspil texta og mynda, eða annað verk sem uppfyllir miklar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Arnar Már Arngrímsson hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2106 fyrir bókina Sölvasaga unglings. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Verðlaunabókin fjallar um nútímaungling og viðfangsefnin sem hann þarf að glíma við. En þó vandamálin séu kunnugleg er unglingurinn það ekki. Höfundi tekst í þessari fyrstu bók sinni að búa til persónu sem er áhugaverð, fyndin, óþolandi, leitandi og heillandi. Tungutak sögunnar er lífleg blanda af unglingamáli og ritmáli eldri kynslóðarinnar og þar rekast á menningarheimar. Lesendur fylgja unglingnum gegnum tilvistarkreppur hans sem sýna hve stormasöm unglingsárin eru og erfitt að stýra gegnum þau án skipbrots.
    Því nær höfundurinn, Arnar Már Arngrímsson, að miðla af einlægni og trúnaði sínum við ungt fólk í Sölvasögu unglings.“

9. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2017.
    Finnland fer með formennsku í Norðurlandaráði 2017. Britt Lundberg frá Álandseyjum er forseti ráðsins 2017 og Juho Eerola varaforseti.
    Dagana 3.–4. apríl 2017 verður vorþing Norðurlandaráðs haldið í Stokkhólmi og aðalþingfundur ráðsins verður haldinn 30. október til 2. nóvember í Helsinki.
    Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Finna árið 2017 eru þekking og menntamál, alþýðumenntun og alþýðumenning, umhverfisvæn orka, málefni norðurslóða, frjáls för og stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum.

Alþingi, 29. mars 2017.

Valgerður Gunnarsdóttir,
form.
Steingrímur J. Sigfússon,
varaform.
Oddný G. Harðardóttir.
Jóna Sólveig Elínardóttir. Sigurður Ingi Jóhannsson. Brynjar Níelsson.
Teitur Björn Einarsson.



Fylgiskjal I.



Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2016.

Tilmæli.
    Tilmæli 1/2016/välfärd: Börn og ungmenni á Norðurlöndum – þverfagleg stefna Norrænu ráðherranefndarinnar 2016-2022 (B 305/välfärd).
    Tilmæli 2/2016/tillväxt: Flugöryggi og starfsskilyrði í flugi (A 1647/näring).
    Tilmæli 3/2016/tillväxt: Hreyfanleiki og sanngjörn samkeppni (A 1624/näring).
    Tilmæli 4/2016/holdbart: Úttekt á úrgangsstraumum á Norðurlöndum (A 1662/miljø).
    Tilmæli 5/2016/holdbart: Samstarfsáætlun FJLS 2017–2020 (B 307/holdbart).
    Tilmæli 6/2016/velfærd: Samstarfsáætlun um aðlögun flóttafólks og innflytjenda (B 311/velfærd).
    Tilmæli 7/2016/presidiet: Leiðbeiningar um samstarfið við granna í vestri (B 309/presidiet).
    Tilmæli 8/2016/välfärd: Dánartíðni slökkviliðsmanna vegna krabbameins og flokkun ákveðinna tegunda krabbameins (A 1677/välfärd).
    Tilmæli 10/2016/velfærd: Sameiginleg lyfjainnkaup (A 1703/velfærd).
    Tilmæli 11/2016/välfärd: Sameiginlegar aðgerðir gegn eltihrellingu á Norðurlöndum (A 1660/medborgar).
    Tilmæli 12/2016/præsidiet: Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2017 (B 312/præsidiet).
    Tilmæli 13/2016/kultur: Aðlögun hælisleitandi barna og ábyrgð allra skólagerða (A 1675/kultur).
    Tilmæli 14/2016/kultur: Leiðtogafundur um málefni íþrótta (A 1678/kultur).
    Tilmæli 15/2016/tillväxt: Aukin og sjálfbær ferðaþjónusta á Norðurlöndum (A 1656/näring).
    Tilmæli 16/2016/tillväxt: Samhæfing í löndunum um að laða fleiri gesti til Norðurlanda (A 1656/näring).
    Tilmæli 17/2016/holdbart: Samræming á reglum um merkingu matvæla (A 1676/holdbart).
    Tilmæli 18/2016/holdbart: Nýting matarúrgangs og barátta gegn matarsóun (A 1676/holdbart).
    Tilmæli 19/2016/tillväxt: Samræming á vinnureglum og viðurkenning á menntun til að auðvelda frjálst flæði vinnuafls (A 1665/näring).
    Tilmæli 20/2016/tillväxt: Viðurkenning starfsréttinda í löndunum (A 1665/näring).
    Tilmæli 21/2016/holdbart: Sameiginlegar norrænar aðgerðir um eiturefnalaust umhverfi (A 1657/holdbart).
    Tilmæli 22/2016/holdbart: Sameiginlegar norrænar aðgerðir um eiturefnalaust umhverfi (A 1657/holdbart).
    Tilmæli 23/2016/velfærd: Fylgdarlaus flóttabörn (A 1682/velfærd).
    Tilmæli 24/2016/presidiet: Áframhaldandi frjáls för, víðsýni og samstarf innan Norðurlanda (A 1671/presidiet).
    Tilmæli 25/2016/välfärd: Norræn stefna til að draga úr fjölda fallslysa (A 1648/välfärd).
    Tilmæli 26/2016/välfärd: Heyrnar- og sjónskerðing (A 1672/välfärd).
    Tilmæli 27/2016/kultur: Norrænt meistaranám (B 310/kultur).
    Tilmæli 28/2016/tillväxt: Norræn samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2017–2020 (B 308/näring).

Ákvarðanir um innri málefni.
    IB 2/2016/presidiet: Norræn skrifstofa í Brussel (A 1667/presidiet).
    IB 3/2016/presidiet: Endurskoðaðar starfsreglur Norðurlandaráðs (A 1681/præsidiet).


Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2016
(www.norden.org)


Góðir nágrannar
    Danir gegna formennsku í Norðurlandaráði á árinu 2016. Norðurlandaráð kaus Henrik Dam Kristensen (S) í embætti forseta og Mikkel Dencker (DF) sem varaforseta, úr landsdeild Danmerkur í Norðurlandaráði, og munu þeir leiða starf ráðsins á árinu 2016.
    Formennsku Dana á árinu 2016 mun leggja áherslu á þrjú meginsvið:
          Norrænt samstarf um varnarmál
          Norrænt samstarf um heilbrigðismál
          Norrænt samstarf um ferðamál
    Formennska Dana á árinu 2016 vill starfa áfram í sama anda og aðrar þjóðir hafa gert á formennskuárum sínum. Sameiginleg tungumál, menning og saga þjóðanna gera samstarf þeirra einstakt. Það eigum við að nýta okkur og gera enn betur. Undir formennsku Dana á árinu 2016 verður lögð áhersla á góð samskipti nágrannaþjóða, enn fremur sameiginlegt norrænt notagildi og virðisauka, einkum á hinum þremur meginsviðum.

Norrænt samstarf um varnarmál
    Ríkjum Norðurlanda er mikill hagur í því að þétta varnarmálasamstarf sín á milli sem og við grannsvæðin. Blikur eru á lofti um heim allan. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, innlimun Rússa á Krímskaga og hernaðarleg viðvera þeirra meðfram landamærum Norðurlanda og grannsvæða þeirra gera auknar kröfur um norrænar varnir. Bráðnun íshellu norðurskautsins kallar einnig á norrænt samstarf og sameiginlegar lausnir á norðurslóðum.
    Norrænt varnarmálasamstarf er þegar í öflugri þróun, meðal annars vegna Stoltenberg-skýrslunnar um norrænt samstarf í varnar- og utanríkismálum. Formennska Dana í Norðurlandaráði á árinu 2016 mun áfram beina sjónum að framtíðarhorfum í norrænu varnarmálasamstarfi og leita nýrra samstarfssviða sem geta gagnast ríkjum Norðurlanda.

Norrænt samstarf um heilbrigðismál
    Á Norðurlöndum sem og víðar um heim aukast heilsuþarfir og útgjöld til heilbrigðismála. Í formennskutíð Dana verður sjónum beint að sviðum heilbrigðismála þar sem löndin geta náð fram virðisauka og notagildi.
    Aukin útgjöld til lyfjakaupa geta orðið þess valdandi að löndin sjái sig knúin til þess að grípa til niðurskurðar á öðrum sviðum heilbrigðis- og öldrunarmála. Ríkjum Norðurlanda er hagur í því að starfa saman, til dæmis um kaup á lyfjum. Á árinu 2016 verður reynt að kortleggja þarfir landanna og tækifæri til samstarfs á þessu sviði og leggja síðan til hvernig standa megi að því framvegis.
    Meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum er margvíslegum erfiðleikum háð í löndunum. Hún krefst sérhæfingar og sérþekkingar sem örðugt er að skapa í hverju landi fyrir sig. Fyrir vikið er hætt við að einstaklingar með sjaldgæfa sjúkdóma fái ekki greiningu í tæka tíð eða að meðferð þeirra verði ófullnægjandi. Á árinu 2016 vill Norðurlandaráð beina sjónum að sjaldgæfum sjúkdómum og kanna hvort þar leynist svið sem löndin sjá sér hag í að eiga samstarf um.

Norrænt samstarf um ferðamál.
    Norðurlöndin hafa markað sér skýra stöðu alþjóðlega á sviðum eins og hönnun, matargerð, kvikmyndagerð, húsagerðarlist, sjálfbærni og lýðræði. Löndin hafa hvert um sig staðið að ótalmörgum kynningarferðum til útlanda á sviðum viðskipta og ferðamála. Formennska Dana á árinu 2016 vill beina sjónum að því hvort og hvernig löndin geta unnið saman að markaðssetningu Norðurlanda sem áfangastaðar ferðamanna og skapað þannig frekari hagvöxt og verðmæti á Norðurlöndum og alþjóðlega. Á árinu 2016 verða kannaðar forsendur fyrir sameiginlegri norrænni stefnumótun í ferðamálum.