Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 634  —  217. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hlutinn telur aukna áherslu á eftirlit með fjármálamarkaði eðlileg og sjálfsögð viðbrögð við fjármálahruninu. Eins og fram kom við afgreiðslu tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þeirra gerða sem hér um ræðir í EES-samninginn á síðasta löggjafarþingi (681. mál) kalla gerðirnar hins vegar á umtalsvert framsal valdheimilda sem vafasamt er að standist stjórnarskrá. Í Noregi var innleiðing þeirra metin sem meiri háttar framsal sem kallaði á stuðning aukins meiri hluti þings, eða þriggja fjórðu þingmanna. Innleiðingin var samþykkt í Noregi með 136 atkvæðum gegn 29 eftir talsverða umræðu og átök um hvort gerðirnar fælu í sér of mikið framsal valdheimilda til yfirþjóðlegs valds. Þessi stjórnskipulegu álitamál eru enn fyrir hendi.
    Í áfangaskýrslu síðustu stjórnarskrárnefndar frá 2014 segir að þótt heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana „hafi talist vera fyrir hendi að vissu marki samkvæmt ólögfestum reglum íslenskrar stjórnskipunar, hefur aukin þjóðréttarleg samvinna, einkum samvinna á sviði EES-samningsins á síðustu árum, skapað vafamál um nákvæmar heimildir og í sumum tilvikum orðið tilefni deilumála. Þetta mælir með því að reglur stjórnskipunarinnar um þetta efni séu afmarkaðar og skýrðar.“ Í þessu tilfelli eru Eftirlitsstofnun EFTA framseldar umtalsverðar valdheimildir á afmörkuðu sviði. Því er minni hlutanum ókleift að styðja þetta frumvarp í ljósi þeirra stjórnskipulegu ágalla sem hann telur á umbúnaði málsins.
    Málið er hluti af þeim umfangsmiklu breytingum sem orðið hafa á regluverki fjármálakerfisins á Evrópska efnahagssvæðinu sem ætlað er að taka á þeim veikleikum sem afhjúpuðust í fjármálahruninu. Þá veikleika leiddi af eðlisbreytingum sem urðu á fjármálakerfinu eftir afregluvæðingu fyrri ára. Fjármálafyrirtæki hurfu frá hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi og fóru út í umfangsmikla fjárfestingarbankastarfsemi, lánuðu hvert öðru til kaupa á sjálfum sér og nýttu frjálst flæði fjármagns til að fela fé í aflandsfélögum á lágskattasvæðum. Fjármálastarfsemi varð um leið umfangsmeiri hluti efnahagskerfis Vesturlanda en áður hafði þekkst.
    Minni hlutinn tekur undir þau markmið sem birtast í þessari reglusetningu og telur mikilvægt að skýr lög og reglur gildi um fjármálakerfið sem og að sjálfstætt og virkt eftirlit sé með því. Hér á landi er því nauðsynlegt að styrkja eftirlitsverkfæri á borð við Fjármálaeftirlitið ekki síður en að innleiða reglugerðir um eftirlit í gegnum EES-samninginn. Hins vegar verður að spyrja hver raunveruleg áhrif regluverksins eru á gildi og menningu fjármálakerfisins. Íslensk stjórnvöld hafa nú, þegar stærsti hluti fjármálakerfisins er í höndum ríkisins, í hendi sér tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif þar á, en það hefur ekki verið nýtt til sjálfstæðrar reglusetningar eða endurhugsunar. Hennar er þó sannarlega þörf.

Alþingi, 7. apríl 2017.


Katrín Jakobsdóttir,
frsm.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.