Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 645  —  467. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um lífeyrissjóði.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Hvaða lög, stjórnvaldsfyrirmæli og aðrar reglur gilda um lífeyrissjóði? Hver hefur eftirlit með því að lífeyrissjóðir fari eftir þessum ákvæðum, hverju fyrir sig? Liggur fyrir að einhverjir lífeyrissjóðir hafi brotið gegn þessum ákvæðum sl. tíu ár? Ef svo er, hvaða lífeyrissjóðir voru það og í hverju fólust brotin?
     2.      Telur ráðherra samþykktir einhvers lífeyrissjóðs samræmast fyllilega 10. meginreglu hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum um að fyrirtæki skuli vinna gegn öllum formum spillingar? Ef svo er, hvað í samþykktunum tryggir að þeir samræmist fyllilega þessari meginreglu?
     3.      Hvaða hópar launafólks eru skyldaðir með lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða öðrum reglum til að greiða í tiltekna lífeyrissjóði og þá hvaða sjóði? Er löglegt að vinnuveitandi gefi til kynna að þeir sem fyrir hann starfa greiði í tiltekinn eða tiltekna lífeyrissjóði? Ef svo er, er tilefni til að lögin banni slíkt? Ef ekki, hvaða ákvæði banna slíkt, hver eru viðurlögin við að brjóta þau og hvert sækir fólk rétt sinn ef það telur á sér brotið? Telur ráðherra rétt að tryggja launafólki raunverulegt frelsi til að velja sér lífeyrissjóð án ytri þrýstings?
     4.      Í hvaða lífeyrissjóðum kjósa sjóðfélagar stjórnarmenn, og þá hve marga af heildarfjölda stjórnarmanna? Telur ráðherra að veita eigi sjóðfélögum rétt með lögum til að kjósa stjórnir lífeyrissjóða? Ef svo er, hve marga af heildarfjölda stjórnarmanna? Ef ekki, hvaða hagsmunir vega að mati ráðherra þyngra?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Launafólk í landinu er skyldað með lögum til að greiða 15,5% af launum í lífeyrissjóð. Sjóðfélagar lífeyrissjóða hafa ríka og réttmæta hagsmuni af því að lífeyrissjóðir fylgi lögum og reglum og vinni sem best gegn spillingu. Þá er það hagur sjóðfélaga að geta valið lífeyrissjóð og kosið í stjórn sjóðsins.