Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 663  —  164. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um Landsvirkjun.


     1.      Hve miklum fjármunum skilaði Landsvirkjun til þjóðarbúsins á árunum 2014, 2015 og 2016?
    Ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum frá Landsvirkjun vegna þessa liðar fyrirspurnarinnar og byggist svarið m.a. á svari fyrirtækisins. Þess ber að geta að ársskýrslur og ársreikningar Landsvirkjunar eru birtir á vef fyrirtækisins ásamt ítarefni og eru þau gögn því öllum aðgengileg.
    Hvorki ráðuneytið né Landsvirkjun hafa ráðist í greiningu á því hversu miklum fjármunum fyrirtækið hefur skilað til þjóðarbúsins á umræddu tímabili umfram það sem greinir í svarinu. Hvorki Landsvirkjun né ráðuneytinu er kunnugt um að aðrir hafi unnið slíka greiningu. Þess ber þó að geta í þessu samhengi að á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að það hefur sett sér markmið um samfélagslega ábyrgð og að fyrirtækið ætli sér að skapa virði fyrir alla hagsmunaaðila. Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir þeim opinberu gjöldum sem fyrirtækið skilaði þessi ár á samstæðugrunni, þ.e. arði, ábyrgðargjaldi og sköttum.

Greiðslur á samstæðugrunni – millj. kr. 2014 2015 2016
Arður 1.500 1.500 1.500
Ábyrgðargjald 1.415 1.357 1.070
Skattar 0 588 1.050
Samtals 2.915 3.445 3.620

    Önnur göld en þau sem greint er frá hér að framan hefur Landsvirkjun ekki upplýsingar um frá dótturfélögum sínum, þar á meðal Landsneti. Eru þau því á móðurfélagsgrunni.

Greiðslur á móðurfélagsgrunni – millj. kr. 2014 2015 2016
Önnur opinber gjöld 615 679 678
Samtals 615 679 678
Samtals greiðslur á móðurfélags-
og samstæðugrunni – millj. kr.
3.531 4.124 4.298

     2.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi eignarhald á Landsvirkjun?
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir eftirfarandi um orkugeirann og Landsvirkjun: „Eigendastefna verður gerð fyrir Landsvirkjun þar sem meðal annars verði markmið um að hámarka virði orkunnar og að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn.“ Enn fremur segir: „Stofna skal stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.“ Það eru því engin áform um breytingar á eignarhaldi ríkisins í Landsvirkjun.
    Uppfærsla á almennri eigandastefnu fyrir hluta- og sameignarfélög í eigu ríkisins, sem einnig mun eiga við Landsvirkjun, er nú í vinnslu í ráðuneytinu. Þar er gerð grein fyrir almennum markmiðum ríkisins með rekstri slíkra félaga, meginreglum og viðmiðum um stjórnarhætti ásamt kröfum og árangursviðmiðum. Samhliða er unnið að sérstökum reglum um val á stjórnarmönnum í stjórnir félaga í eigu ríkisins og er gert ráð fyrir að þær verði hluti af almennu eigandastefnunni. Stefnt er að því að drög að uppfærðri almennri eigandastefnu verði sett á vef ráðuneytisins til umsagnar fyrir lok maí, en þó eftir að ný eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki hefur verið samþykkt.
    Í framhaldi verður unnið að gerð viðauka við almennu eigandastefnuna þar sem sett verða fram sérstök viðmið fyrir einstaka geira og/eða félög eftir þörfum. Stefnt er að því, í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, að fyrsti slíki viðaukinn verði fyrir orkugeirann og þau orkufyrirtæki sem ríkið á meiri hluta í, þ.m.t. Landsvirkjun. Er stefnt að því að drög að þessum viðauka verði sett á vef ráðuneytins til umsagnar á haustmánuðum.

     3.      Kemur til greina að einkavæða Landsvirkjun að hluta eða öllu leyti?
    Engin áform eru um að einkavæða Landsvirkjun, hvorki að hluta né öllu leyti.