Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 666  —  154. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Sigurðardóttur um auðlindir og auðlindagjald.

     1.      Hefur verið skilgreint hvað auðlind er og ef svo er, hverjar teljast helstu auðlindir Íslendinga?
    Það er rétt að taka fram að hugtakið auðlind er notað almennt yfir hvers konar takmörkuð gæði í íslenskri tungu, svo sem mannauð eða fjármagn, og er því stundum villandi þegar rætt er um náttúruauðlindir.
    Þetta svar miðast hins vegar við náttúruauðlindir. Skilgreining á því hvað teljist náttúruauðlindir er hins vegar ekki alveg einhlítt. Það hefur verið sett fram í þrengri, hagfræðilegum skilningi líkt og í skýrslu Auðlindastefnunefndar frá árinu 2000 sem var endurtekin í skýrslu Auðlindastefnunefndar frá árinu 2012. Þar er eftirfarandi skilgreining sett fram: „Auðlind er þannig þau gæði sem efnahagslegur hagur er af að nýta þannig að nýting skili meiri arði (auði) en sem nemur kostnaði við nýtinguna. Þau náttúrugæði sem efnahagslega er hagkvæmt að nýta teljast þá til náttúruauðlinda.“
    Nýrri skilgreining á náttúruauðlindum er hins vegar sú að þær séu einfaldlega: „Uppspretta hverra þeirra aðfanga/gæða í náttúrunni sem nýtist manninum (svo sem timbur, orka, fiskur, hreint loft, o.fl.).“
    Ísland er afar auðlindaríkt land, en náttúrauðlindir liggja til grundvallar helstu útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar, sérstaklega auðlindir sjávar, stórbrotin náttúra og orkuauðlindir, auk ýmissa annarra. Í vinnu Auðlindanefndar frá 2000 voru birt drög að flokkun á þeim náttúruauðlindum sem landið býr yfir. Síðan þá hefur orðið mikil þróun á skilningi á náttúruauði þjóða og náttúruauðlindum og hvernig það megi flokka og skilgreina. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur hafið skipulega greiningu og flokkun á því hverjar séu náttúruauðlindir Íslendinga og styðst m.a. við vinnu bresku auðlindastefnunefndarinnar (Natural Capital Commitee) og þá alþjóðlegu aðferðafræði sem þar hefur verið beitt. Í þeim drögum sem liggja fyrir eru náttúruauðlindir landsins flokkaðar í sex yfirflokka, eða náttúruauðlindir a) lands, b) hafs, c) stranda, d) vatns, e) orkuauðlindir og f) villt dýr, þ.m.t. fiskar, fuglar og spendýr. Þessum flokkum er síðan skipt í fjölmarga undirflokka. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að þessari greiningu ljúki síðar á þessu ári og verði þá kynnt opinberlega, en þá liggi fyrir aðgengilegt yfirlit yfir hverjar helstu náttúruauðlindir landsins eru, hver sé staða þeirra og flæði afurða frá þeim. Á þeim grunni verður hægt að skilja betur hver náttúruauður Íslands er, en það er samheiti yfir allar þær náttúruauðlindir sem viðkomandi þjóð býr yfir.

     2.      Af hvaða auðlindum er greitt auðlindagjald?
    Auðlindagjald í formi skattlagningar á þá sem hafa fengið réttindi til að nýta náttúruauðlindir er eingöngu lagt á auðlindir sjávar, sbr. lög um veiðigjöld, nr. 74/2012, á ábyrgð sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra. Jafnframt eru einnig innheimt ýmis gjöld, svo sem fyrir þjónustu eða aðgang að opinberum náttúruauðlindum, t.d. vegna hreindýraveiða og veiðkorta vegna aðgangs til veiða á dýrum.

     3.      Hyggst ráðherra leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir en nú er gert og þá hverjar?
    Að mati ráðherra er eðlilegt að þeir aðilar sem nýta landsins gæði sem eru í sameign þjóðarinnar og selja til þriðja aðila greiði auðlindagjald af þeirri nýtingu. Ráðherra hyggst leggja mat á þann möguleika að taka upp auðlindagjöld fyrir nýtingu náttúruauðlinda landsins í sameign þjóðarinnar, svo sem í tengslum við orkuvinnslu, námuvinnslu og nýtingu ferðaþjónustu á sérstæðri náttúru þar sem um takmörkuð gæði gæti verið að ræða. Rétt er þó að taka fram að ekki eru allar náttúruauðlindir á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðherra, en ráðherra hyggst beita sér fyrir vinnu í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti við að greina hvernig réttindum til nýtingar náttúruauðlinda er háttað, gagnsæi í úthlutun réttinda og sjálfbærni nýtingarinnar, m.a. í samhengi við ákvæði um auðlindamál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.