Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 669  —  479. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að Landsvirkjun verði í eigu íslenska ríkisins.


Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


    Alþingi ályktar að Landsvirkjun verði að fullu og öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.


Greinargerð.

    Ein stærsta og gjöfulasta auðlind íslensku þjóðarinnar eru fallvötn hennar og sú orka sem úr þeim má vinna. Þótt nýting auðlindarinnar hafi á köflum verið umdeild er það hafið yfir vafa virkjanir á vegum Landsvirkjunar hafa skilað og munu skila eiganda sínum háum fjárhæðum. Starfsemi Landsvirkjunar hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði á Íslandi, bæði með auknu öryggi í afhendingu raforku og miklum gjaldeyristekjum. Þessa stöðu ber að varðveita.
    Forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á að fjárhagsleg staða fyrirtækisins verði sífellt sterkari og arðsemi aukist. Í lok árs 2016 var eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar 45,4% og hefur aldrei verið hærra. Þetta mun leiða til þess að arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð landsmanna munu fara stighækkandi. Þær gætu numið allt að 10–20 milljörðum króna á næstu 3–4 árum. Ávinningi af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar má ekki og á ekki að fórna á altari skammtímasjónarmiða.
    Í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn áformar að setja fram eigendastefnu fyrir Landsvirkjun er mikilvægt að vilji Alþingis komi skýrt fram.