Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 687  —  232. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um stuðning við fráveituframkvæmdir.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkið endurgreiði sveitarfélögum á ný virðisaukaskatt af framkvæmdum þeirra við fráveitur eins og gert var á árabilinu 1995–2008?
     Lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, giltu um styrki vegna framkvæmda við sniðræsi frá safnkerfum fráveitna, rotþrær, hreinsi- og dælustöðvar og útrásir, sem unnar voru á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2008. Áður en lögin voru sett var í tengslum við fjárhagsaðstoð ríkisins við þennan málaflokk skoðað hvort breyta ætti lögum um virðisaukaskatt með það fyrir augum að endurgreiða virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum, hvort setja ætti á afmarkaða tekjustofna eða styrkja framkvæmdir með beinum framlögum á fjárlögum. Niðurstaðan varð sú að komið yrði til móts við sveitarfélögin með fjárhagsstuðningi með beinum fjárveitingum á fjárlögum. Styrkir til sveitarfélaga námu á bilinu 15 til 30% af kostnaði við framangreindar fráveituframkvæmdir.
    Endurgreiðslan var hugsuð sem tímabundin aðgerð sem hvetti sveitarfélög til þess að fara í nauðsynlegar framkvæmdir í fráveitumálum sem fyrst þar sem samkvæmt ákvæði í íslenskum reglugerðum og samningi um Evrópska efnahagssvæðið átti að vera komin á hreinsun skólps eigi síðar en 31. desember 2005 á öllum þéttbýlisstöðum þar sem losaðar voru 2.000 persónueiningar eða meira.
    Ljóst er að staða fráveitumála er ekki alls staðar viðunandi út frá kröfum sem gerðar eru. Á tveggja ára fresti dregur Umhverfisstofnun saman upplýsingar um stöðu fráveitumála frá heilbrigðisnefndum í sameiginlega stöðuskýrslu fyrir landið, í samræmi við ákvæði 28. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Von er á nýrri stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar um ástand fráveitumála nú í vor. Þá liggur fyrir frá Umhverfisstofnun stöðuskýrsla um vatnasvæði Íslands frá árinu 2013. Þegar endurskoðuð reglugerð um fráveitur og skólp og ný stöðuskýrsla um ástand fráveitumála liggja fyrir mun á vegum ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar verða sett fram yfirlit um stöðu mála á grunni framangreindra upplýsinga og annarra fyrirliggjandi gagna. Í framhaldi af því mun ráðherra skoða hvort eðlilegt sé að beita sér fyrir því að ríkið aðstoði við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga í formi endurgreiðslu á virðisaukaskatti eða með öðrum hætti. Það þarf einnig að skoða í tengslum við gerð næstu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar, enda mögulega um umtalsverðar upphæðir að ræða.

     2.      Áformar ráðherra stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga með einhverjum öðrum hætti og ef svo er, hverjum og hvenær má vænta aðgerða?
    Samkvæmt lögum nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, ber sveitarfélag ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og hefur heimildir í sömu lögum til að innheimta fráveitugjald sem miða skal við að ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri fráveitunnar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Atvinnurekstur ber kostnað við að setja upp og viðhalda sínum mengunarvarnabúnaði, þ.m.t. hreinsibúnaði vegna fráveitu. Þess ber að geta í þessu sambandi að það ber að vera hreinsun á skólpi frá mengandi starfsemi og hægt er að setja frekari kröfur um slíkt í starfsleyfi sem veitt eru á grundvelli reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í grunninn eru það því sveitarfélögin og atvinnulífið sem eiga, í samræmi við mengunarbótaregluna, að bera kostnað sem hlýst af hreinsun skólps.
    Í einhverjum tilvikum hafa sveitarfélög ekki nýtt sér að fullu þær gjaldtökuheimildir sem þau hafa vegna uppbyggingu fráveitna. Í öðrum tilvikum eiga sveitarfélög erfitt með að standa undir skyldum sem á þeim hvíla vegna fráveitna, svo sem vegna fámennis. Vísað er í svar við 1. lið fyrirspurnarinnar varðandi hugsanlegan stuðning af hálfu ríkisvaldsins. Yfirlýsinga um slíkt er ekki að vænta fyrr en að lokinni greiningu sem byggir á endurskoðaðri fráveitureglugerð og nýrri stöðuskýrslu um fráveitur.
    Þá er til skoðunar sértækt mál sem varðar mögulegan stuðning við fráveituframkvæmdir við Mývatn í ljósi sérreglna um fráveitur þar á grunni laga um vernd Mývatns og Laxár. Þar liggur nú fyrir skýrsla með verkfræðilegri úttekt á kostum á svæðinu sem ráðuneytið óskaði eftir og barst í lokaútgáfu í mars 2017. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur einnig sent sveitarstjórn Skútustaðahrepps og fleiri aðilum bréf með ósk um úrbótaáætlun fyrir 17. júní næstkomandi. Sveitarstjórn hefur lýst yfir að hún telji sig ekki hafa bolmagn til að framfylgja ítarlegri kröfum um hreinsun skólps á svæðinu og hefur óskað eftir aðstoð frá ríkinu. Það er til skoðunar á þeim grunni að um sérstakt tilvik er að ræða vegna krafna sem settar eru í reglugerð sem byggir á lögum um vernd Mývatns og Laxár. Ljóst er að ekki eru fjárheimildir fyrir hendi í dag fyrir umtalsverðum stuðningi ríkisins við umbætur á fráveitumálum í Skútustaðahreppi og því þyrfti að afla slíkra heimilda. Einnig er ljóst að stuðningur ríkisins, ef af yrði, myndi vera vegna krafna á íbúabyggð en ekki vegna atvinnustarfsemi, sem oft nýtur staðsetningarinnar og nálægðar við vatnið. Þessi mál munu skýrast á næstu vikum.

     3.      Hvað er títt af störfum nefndar um endurskoðun reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og hvenær má vænta þess að endurskoðuð reglugerð birtist?
    Vinnu nefndar um endurskoðun reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp fer að ljúka og mun nefndin senda tillögur sínar til ráðherra nú í vor. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun kynna drög að endurskoðaðri reglugerð á heimasíðu ráðuneytisins og óska eftir umsögnum áður en endurskoðuð reglugerð verður gefin út.