Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 716  —  452. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Kötlu Hólm Þórhildardóttur um gögn á vef Alþingis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Stendur til að yfirfara gögn á vef Alþingis, eins og t.d. þingskjöl og ræður, frá því fyrir árið 1988 og uppfæra frá skönnuðum PDF-skjölum yfir í tölvutækt form sem mögulegt er að nota í gagnaleit?

    Upplýsingar (lýsigögn) um þingskjöl og ræður frá 1907 má finna á vef Alþingis. Þetta eru sambærilegar upplýsingar og skráðar eru um þingfundi núna, t.d. skjalsnúmer, flutningsmenn máls, skjalategund, útbýtingardagur þingskjala, ræðumaður, flutningsdagur ræðu. Að þessum upplýsingum má leita á vefnum og þær eru jafnframt notaðar til að tengja þingskjöl og ræður t.d. við þingmál og æviágrip þingmanna. Hægt er að gera textaleit bæði í þingskjölum og ræðum og afmarka leitarniðurstöðu með tilliti til áðurnefndra skráningarþátta.
    Ræður hafa verið stafgreindar og eru þær birtar sem texti sem er yfirfarinn fyrir birtingu. Hver ræða er birt sem sérstakt HTML-skjal og eru ræður nú aðgengilegar frá 1937 (52. löggjafarþingi). Þingskjöl hafa verið birt í PDF-skjölum sem myndir með stafgreindum texta á bak við myndirnar. Hvert þingskjal er birt í einu PDF-skjali og eru skjölin nú aðgengileg frá 1933 (47. löggjafarþingi). Hægt er að afrita textann úr þingskjalinu og vinna með hann, t.d. í ritvinnslu. Stafgreining þingskjala er óyfirfarin og því geta leynst villur í þeim. Textinn er ekki heppilegur til frekari vinnslu, svo sem ef skipta á frumvörpum upp í einstakar lagagreinar.
    Ekki eru uppi áform að svo komnu um að uppfæra þingskjöl sem þegar hafa verið skönnuð yfir á annað form svo að þau henti betur í frekari vinnslu. Það er þó rétt að nefna að nú er að störfum vinnuhópur, samkvæmt ályktun Alþingis frá 2. júní 2016, sem hefur það verkefni að móta tillögur að innleiðingu þeirra breytinga að þingskjöl sem birta skal í Alþingistíðindum verði gefin út á tölvutæku sniði þannig að þau verði greinanleg með tölvutækum hætti.