Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 747  —  242. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé um umsækjendur um alþjóðlega vernd.


    Ráðuneytið óskaði eftir athugasemdum frá Útlendingastofnun við eftirfarandi fyrirspurn sem lýtur að umsækjendum um alþjóðlega vernd og byggjast svörin að miklu leyti á svörum stofnunarinnar.

     1.      Hversu margir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa látist hérlendis á undanförnum fimm árum meðan á málsmeðferð þeirra stóð?
    Á undanförnum fimm árum lést einn umsækjandi um vernd meðan á málsmeðferð stóð. Tveir til viðbótar létust eftir að málsmeðferð lauk.

     2.      Hvaða ráðstafanir eru gerðar til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. þjónustu sálfræðinga og geðlækna, og telur ráðherra að þessi mál séu í góðu horfi eða þarfnist úrbóta?
    Í júlí 2016 samdi Útlendingastofnun við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilbrigðisþjónustu við fólk sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Göngudeild sóttvarna og hælisleitenda á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins veitir þjónustuna fyrir hönd heilsugæslunnar. Eftirfarandi þjónusta er veitt á grundvelli samningsins:
     1.      Viðtal og fyrsta heilbrigðisskoðun barna og fullorðinna stuttu eftir komu á grundvelli verklagsreglna göngudeildar sóttvarna, heilsugæslunnar og barnadeildar LSH. Áhersla er lögð á:
             a.     Skimun vegna smitsjúkdóma og bólusetninga,
             b.     skimun fyrir öðrum sjúkdómum og áfallastreituröskun og
             c.     framkvæmd blóðprufa og bólusetninga.
     2.      Almenn heilbrigðisþjónusta á dagvinnutíma eftir fyrstu heilbrigðisskoðun:
                  a.      viðtal við hjúkrunarfræðing símleiðis til að leysa úr einfaldari erindum, mögulega með aðstoð læknis,
                  b.      viðtal við lækni samkvæmt ákvörðun hjúkrunarfræðings og
                  c.      útgáfa lyfseðla og endurnýjun þeirra.
     3.      Sérfræðiþjónusta.
     4.      Önnur sérfræðiþjónusta. Heilsugæslan metur þörf á aðkomu annarra sérfræðilækna og útbýr tilvísun sé þörf á því. Kostnaður vegna þessarar þjónustu er greiddur af Útlendingastofnun.
Þegar umsækjandi um vernd óskar eftir því við starfsfólk Útlendingastofnunar að fá viðtal hjá sálfræðingi er pantaður tími fyrir hann hjá sálfræðingi göngudeildar sóttvarna og hælisleitenda. Fyrir umsækjendur sem eru í þjónustu hjá sveitarfélögunum er sambærilegt fyrirkomulag nema að þjónustuveitendur panta tíma hjá þeim sálfræðingum sem þeir eru í samskiptum við. Í einhverjum tilfellum hafa umsækjendur byrjað meðferð hjá göngudeild sóttvarna og hælisleitenda og er þá meðferðinni fram haldið þar.
    Ef umsækjendur telja sig þurfa tíma hjá geðlækni er pantaður almennur tími á göngudeild sóttvarna og hælisleitenda þar sem útbúin er tilvísun til viðkomandi sérfræðings.
    Í þeim tilvikum sem einstaklingur þarf tafarlausrar aðstoðar er farið með viðkomandi á bráðadeild geðdeildar. Í öðrum neyðartilfellum hefur einnig verið leitað til Domus Mentis – Geðheilsumiðstöðvar og fleiri aðila.
    Ráðherra telur mikilvægt að reglur um heilbrigðisþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í stöðugu endurmati og að Útlendingastofnun leitist við að eiga gott samstarf við heilbrigðisyfirvöld um þessi málefni. Samningur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var jákvætt skref í þá átt að ná betur utan um ferli, samskipti og kostnað í tengslum við heilbrigðisþarfir umsækjenda um alþjóðlega vernd.

     3.      Hvaða ástæður eru fyrir banni Útlendingastofnunar við heimsóknum til umsækjenda um alþjóðlega vernd og hver er afstaða ráðherra til bannsins?
    Samkvæmt húsreglum sem gilda í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar fyrir umsækjendur um vernd sem dvelja í sameiginlegu húsnæði eru gestakomur að meginreglu óheimilar. Í slíkum búsetuúrræðum búa íbúar þröngt, algengt er að tveir eða fleiri deili herbergi og ekki eru fyrir hendi hentug aðstaða til þess að taka á móti gestum. Bannið við heimsóknum lýtur því fyrst og fremst að því að vernda friðhelgi einkalífs annarra íbúa í búsetuúrræðinu. Þá er rétt að taka fram að bannið takmarkar með engum hætti möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd á að hitta og umgangast þá sem þeir kjósa. Takmörkunin lýtur eingöngu að því hvar sú umgengni fer fram, þ.e. hún þarf að eiga sér stað utan þessara tilteknu búsetuúrræða, vegna tillitssemi við aðra íbúa eins og fram hefur komið.
    Íbúarnir koma frá ólíkum löndum, bakgrunnur þeirra er oft og tíðum ólíkur og standa tungumálaörðugleikar samskiptum þeirra fyrir þrifum. Húsreglurnar eru settar í þeim tilgangi að íbúarnir taki tillit hver til annars og geti búið saman í sátt og samlyndi. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru upp til hópa í afar viðkvæmri stöðu og margir þeirra þjást af áfallastreitu. Þannig hafa sumir sætt pyndingum og ofbeldi eða þurft að flýja stríðsátök. Reglurnar hafa því einkum þann tilgang að hindra óþarfa umrót og rask í lífi þeirra sem eiga um sárt að binda.
    Undantekningar á reglum um gestakomur eru gerðar t.d. fyrir sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins. Einstaklingar og félagasamtök sem hafa áhuga á að leggja umsækjendum um alþjóðlega vernd lið eru hvattir til að gera það í samvinnu við Rauða krossinn.
    Ráðherra telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag enda eru þessar reglur fyrst og fremst settar til verndar umsækjendum um alþjóðlega vernd.

     4.      Hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja öryggi sjúkra og örvæntingarfullra umsækjenda um alþjóðlega vernd þannig að atburður á borð við þann þegar umsækjandi lést eftir að hafa lagt eld að sér endurtaki sig ekki?
    Allir umsækjendur um vernd fá viðtal hjá móttökuteymi Útlendingastofnunar fljótlega eftir að þeir koma til landsins. Þar er lögð áhersla á að greina stöðu umsækjandans, t.d. hvort um sé að ræða einstakling í viðkvæmri stöðu eða jafnvel hættulegan einstakling.
    Viðkvæmum einstaklingum er veittur eins mikill stuðningur og unnt er af móttöku- og þjónustuteymum Útlendingastofnunar. Oft þurfa þeir þó á sérhæfðari þjónustu og meðferð að halda en Útlendingastofnun getur veitt. Er þá leitað til sálfræðinga eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans ef málið þolir ekki bið.
    Útlendingastofnun hefur ekki yfir að ráða sérstöku búsetuúrræði fyrir viðkvæma einstaklinga. Eftir megni er reynt að tryggja hverjum og einum búsetuúrræði eftir þörfum í þeim úrræðum sem stofnunin hefur yfir að ráða, eða að þeir fá að dvelja lengur í móttökuúrræðinu í Bæjarhrauni í Hafnarfirði svo betur sé hægt að fylgjast með þeim. Ef bágt andlegt ástand einstaklings greinist ekki strax í upphafi eða kemur ekki til fyrr en seinna í ferlinu er brugðist hratt við og reynt að tryggja honum viðeigandi aðstoð.
    Starfsfólk Útlendingastofnunar er nú sem fyrr meðvitað um að einstaklingar í viðkvæmri stöðu geta verið hættulegir sjálfum sér og öðrum . Allar vísbendingar og/eða hótanir um sjálfsvíg eða aðra sjálfskaðandi hegðun eru teknar alvarlega og stuðningi við viðkomandi fylgt vel eftir. Í dag eru tveir starfsmenn Útlendingastofnunar, annar í móttökuteymi og hinn í þjónustuteymi, sem fylgja eftir þeim einstaklingum sem taldir eru andlega veikir eða í mjög viðkvæmri stöðu.