Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 748  —  244. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fórnarlömb mansals.

    Ráðuneytið óskaði eftir athugasemdum frá Útlendingastofnun við eftirfarandi fyrirspurn og byggjast svörin að miklu leyti á svörum stofnunarinnar.

     1.      Telur ráðherra ástæðu til að breyta lögum þannig að dvalarleyfi sem fórnarlömb mansals geta fengið geri þeim kleift að stunda atvinnu hér á landi, kjósi þau svo?
    Að mati Útlendingastofnunar, dómsmálaráðuneytis og ráðherra ber að beina þessum lið fyrirspurnarinnar til félags- og jafnréttismálaráðherra og ráðuneytis hans sem sér um þjónustu við fórnarlömb mansals. Þá heyra lög um atvinnuréttindi útlendinga einnig undir félags- og jafnréttismálaráðherra.

     2.      Telur ráðherra að með starfsemi Útlendingastofnunar í Hafnarfirði sé komið fullnægjandi móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd eins og kveðið er á um í 27. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga?
    Útlendingastofnun rekur í Bæjarhrauni í Hafnarfirði annars vegar starfsstöð fyrir starfsmenn móttöku-, þjónustu-, forgangs- og Dyflinnarteyma en að auki hafa starfsmenn stoðdeildar Ríkislögreglustjóra og nú nýlega lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum starfsaðstöðu í sama húsi. Hins vegar er þar rekið gistiúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem nýtt er sem fyrsta móttaka. Útlendingastofnun rekur fleiri búsetuúrræði fyrir umsækjendur, svo sem á Arnarholti, í Víðinesi og víðar, en umsækjendur eru einnig vistaðir hjá sveitarfélögum á grundvelli þjónustusamninga.
    Móttökuúrræðinu í Bæjarhrauni var komið á fót í tengslum við fjölgun umsækjenda um vernd haustið 2015 og var ekki hugsað sem varanlegt úrræði. Að mati Útlendingastofnunar er móttökuúrræðið í Bæjarhrauni ekki fullnægjandi, það getur eingöngu hýst 35–45 einstaklinga á hverjum tíma, getur ekki tekið nægilega vel við ákveðnum hópum einstaklinga í viðkvæmri stöðu, svo sem fylgdarlausum börnum og fórnarlömbum mansals, eða ákveðnum fjölskyldusamsetningum, svo sem einstæðum konum sem eiga hálfstálpaða drengi eða einstæðum feðrum með ung börn eða unglingsstúlkur. Grípa hefur þurft til annarra bráðabirgðaúrræða fyrir þessa einstaklinga, t.d. með vistun fylgdarlausra barna hjá fósturfjölskyldum. Móttökuúrræðið í Bæjarhrauni er ekki nægjanlega stórt og ræður ekki við fjölbreyttan hóp umsækjenda um vernd eins og móttökumiðstöð þarf að gera. Þeim sem þar dvelja er tryggt húsnæði, fæði og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta en ekkert rými er til tómstundaiðkana eða afþreyingar fyrir fullorðna eða börn, hvorki innan húss né utan, viðtalsherbergi eru ekki til staðar og engin móttaka fyrir gesti.
    Það er vilji Útlendingastofnunar að tekin verði í notkun móttökumiðstöð sem fullnægir þeim þörfum sem hér hafa verið tíundaðar og getur hýst margfalt fleiri einstaklinga en Bæjarhraunið gerir í dag. Rétt er að árétta að móttökukerfið í heild sinni þarf að vera sveigjanlegt og geta bæði stækkað og dregist saman eftir þörfum. Reynsla síðasta hausts sýnir að snörp aukning getur haft áhrif á þá þjónustu og það húsnæði sem þarf að vera til staðar.
    Ráðherra tekur undir með Útlendingastofnun hvað varðar nauðsyn þess að í notkun sé viðunandi móttökumiðstöð sem kemur til móts við mismunandi þarfir hælisleitenda á hverjum tíma. Útfærsla móttökumiðstöðvar á Íslandi er í stöðugri skoðun með tilliti til fjárheimilda á hverjum tíma.

     3.      Eru áform um að starfrækja fleiri en eina móttökustöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd?
    Samkvæmt drögum að reglugerð um útlendinga er heimilt að reka tvenns konar úrræði, annars vegar móttökumiðstöð á vegum Útlendingastofnunar og hins vegar búsetuúrræði á vegum sveitarfélaga. Telur stofnunin það ágætt fyrirkomulag. Að mati Útlendingastofnunar er mikilvægt að samhliða móttökumiðstöð verði til staðar sértæk úrræði fyrir fylgdarlaus börn, andlega vanheila einstaklinga og einstaklinga sem ekki er hægt að vista í öðrum úrræðum vegna umgengnisvandamála, en þessir hópar þurfa annars konar og sértækari þjónustu en veitt er í móttökumiðstöð.

     4.      Hvaða sérstöku úrræði eru í boði fyrir fórnarlömb mansals, sbr. 27. gr. laga um útlendinga?
    27. gr. laganna kveður ekki á um sérstök úrræði fyrir fórnarlömb mansals. Kveðið er á um í 27. gr. laganna að móttökumiðstöð skuli eftir atvikum vera opin fórnarlömbum mansals og útlendinga í neyð. Ekki hafa verið gerðir samningar við Útlendingastofnun um þjónustu við fórnarlömb mansals en heimild til þess er að finna í 27. gr. laganna og í drögum að reglugerðinni um útlendinga (24. gr.).
    Velferðarráðuneyti sér um þjónustu við þolendur mansals og því beint til þingmanns að leita þangað með nánara svar varðandi þau úrræði sem standa fórnarlömbum mansals til boða.