Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 749  —  261. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um innflutning á hráu kjöti.


     1.      Hver er helsta málsvörn íslenska ríkisins í hæstaréttarmáli nr. 154/2017 sem Ferskar kjötvörur ehf. höfðuðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem dómur féll stefnanda í hag?
    Fyrir héraðsdómi Reykjavíkur var til úrlausnar hvort íslenska ríkið hefði bakað sér skaðabótaábyrgð með því að heimila ekki innflutning á hráu og ófrosnu nautakjöti til landsins. Undir rekstri málsins staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu ákvæða 8., 13. og 18. gr. EES-samningsins auk tilskipunar ráðsins 89/662/EBE. Niðurstaða EFTA-dómstólsins var að gildissvið EES-samningsins, sem undanskilur ákveðnar landbúnaðarvörur, leiddi ekki til þess að EES-ríki hefðu frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru, þar sem svigrúm þess takmarkaðist af ákvæðum sem tekin hefðu verið upp í viðauka við EES-samninginn. Þá taldi EFTA-dómstóllinn að það samrýmdist ekki ákvæðum tilskipunar 89/662/EBE að EES-ríki gerðu kröfu um að innflytjendur hrárra kjötvara sæktu um leyfi til innflutnings eða gerðu kröfu um vottorð þess efnis að kjötið hefði verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Með dómi sínum 18. nóvember 2016 var fallist á skaðabótakröfu Ferskra kjötvara ehf.
    Íslenska ríkið hefur fengið leyfi Hæstaréttar til að áfrýja héraðsdómi. Helstu málsvarnir íslenska ríkisins fyrir Hæstarétti eru þær að skaðabótakröfur Ferskra kjötvara ehf. séu vanreifaðar og því ekki unnt að leggja efnisdóm á þær. Þá er því haldið fram að ákvarðanir stjórnvalda hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, og reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. Jafnframt samræmist ákvarðanirnar 13. og 18. gr. EES-samningsins, þar sem kveðið er á um að samningsaðilar megi leggja á innflutning vara bönn eða höft til að tryggja almannaöryggi og vernd heilsu manna eða dýra, þegar kemur að mati á því hvaða áhætta sé ásættanleg eða óásættanleg þegar vernda skal almannaöryggi og vernd lífs og heilsu manna og dýra. Þá sé það nauðsynlegt að tryggja að hrátt kjöt sem flutt er til landsins beri ekki með sér smitefni sem mönnum og/eða dýrum stafi hætta af. Með því að áskilja að hrátt kjöt sé geymt við a.m.k. –18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu sé dregið úr líkum á því að hingað til lands berist smitefni í því tilviki þegar sjúkdómastaða í upprunalandi vöru hafi breyst skyndilega.
    Þá bendir íslenska ríkið á að sjúkdómastaða íslensks búpenings sé óvenjuleg í samanburði við önnur ríki og að vegna aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna hafi dýrin lítið ónæmi fyrir fjölmörgum smitefnum sem algeng eru erlendis en aldrei hafi orðið vart við hér á landi. Staða Íslands sé einstök í þessu tilliti í samanburði við önnur ríki á EES-svæðinu, eins og sjá má af þeirri staðreynd að af 81 sjúkdómi landdýra sem skráðir séu hjá Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni finnast aðeins þrír á Íslandi og það í takmörkuðu mæli.
    Ef það verður talið að íslenska ríkið hafi ekki innleitt EES-reglur með réttum hætti þá séu skilyrði, sem lög gera fyrir skaðabótaábyrgð EES-ríkja, ekki uppfyllt.

     2.      Eru áform um að slaka á þeim reglum sem gilda um innflutning á hráu kjöti og ef svo er, hefur farið fram áhættugreining vegna þess?
    Ekki eru uppi fyrirætlanir um breytingar á reglum um innflutning á hráu kjöti. Hins vegar hefur EFTA-dómstóllinn til meðferðar tvö mál er varða innflutning matvæla. Annars vegar er um að ræða mál varðandi leyfisveitingar og frystiskyldu á hráu kjöti (dómsmál E-3/2017). Mál þetta hófst með kvörtun Samtaka verslunar og þjónustu til Eftirlitsstofnunar EFTA í nóvember 2011. Hins vegar er um að ræða samningsbrotamál sem Eftirlitsstofnun EFTA hóf rannsókn á að eigin frumkvæði 2015 og varðar ákvæði varðandi innflutning hrárra eggja og innflutning og markaðssetningu ógerilsneyddra mjólkurafurða (dómsmál E-2/2017). Í þessum málum eru reglur íslenska ríkisins um innflutningsleyfi og frystiskyldu, sem ætlað er að vernda heilsu manna og dýra, til skoðunar.
    Í 3. gr. EES-samningsins segir að samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiðir. Í 33. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls segir að hlutaðeigandi EFTA-ríki skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins. Fari EFTA-ríki ekki eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins getur Eftirlitsstofnun EFTA höfðað nýtt samningsbrotamál vegna þessa. Af þessum ákvæðum leiðir að falli dómur EFTA-dómstóls á þann veg að íslenskar reglur um innflutning kjöts teljast brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins er íslenska ríkinu skylt að hlíta þeirri úrlausn.
    Við meðferð þessara mála hefur íslenska ríkið látið útbúa skýrslur um áhættuna af því að hrátt kjöt og kjötafurðir séu flutt til Íslands. Um er að ræða eftirfarandi skýrslur:
     1.      Import risk assessment: Unrestricted imports of ruminant, swine and poultry meat and meat products from the European Union. Höfundur: Stephen Cobb BSc (VetSci) BVM&S MRCVSS.
     2.      Matsspurningar starfshóps utanríkisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um smitáhættu af hráum dýraafurðum (e. The risk to human and animal health associated with free import of raw meat and measures to reduce such risk). Höfundur: Vilhjálmur Svansson, DMV, PhD.
     3.      Innflutningur á hráu nauta-, svína- og kjúklingakjöti frá ESB. Mat á hugsanlegum áhrifum á lýðheilsu. Höfundur: Matvælastofnun.
     4.      Áhætta tengd innflutningi á kjöti og kjötafurðum. Matsspurningar frá starfshóp á vegum utanríkis- og atvinnuvegaráðuneyta. Höfundur: Prófessor Karl G. Kristinsson, MD, Phd, FRCPath.

     3.      Hvaða áform eru um ráðstafanir til að hindra ógnir við lýðheilsu, svo sem aukna tíðni matarborinna sýkinga, og tjón á búfjárstofnum af völdum innflutnings á hráu kjöti?
    Falli dómar íslenska ríkinu í vil fyrir EFTA-dómstólnum er ljóst að íslenskar reglur teljast vera í samræmi við EES-samninginn. Verður þá ekki þörf á því að endurskoða leyfisveitingakerfi og frystiskyldu sem kveðið er á um í íslensku regluverki. Þessi spurning miðar við þá forsendu að dómur EFTA-dómstólsins falli á þann veg að ráðstafanir íslenska ríkisins séu ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins og þörf sé á reglubreytingum vegna dómanna.
    Á EES-svæðinu er í gildi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1688/2005 um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 að því er varðar sérstakar ábyrgðir varðandi salmonellu vegna sendinga af tilteknum tegundum kjöts og eggja til Finnlands og Svíþjóðar. Með reglugerðinni er kveðið á um svokallaðar viðbótarábyrgðir (e. additional guarantees) vegna viðskipta með ferskt kjöt af nautgripum og svínum, nýtt alifuglakjöt, hakkað kjöt og mataregg. Í þessu felst að sýni skulu tekin úr sendingu á nauta-, svína- og alifuglakjöti og úr eggjum og þau rannsökuð með tilliti til salmonellu. Þessar sýnatökur eru nákvæmlega skilgreindar og má salmonella ekki greinast í sýnum. Upplýsingar um niðurstöður sýnatöku skulu síðan fylgja með viðeigandi heilbrigðisvottorðum í sendingu. Þessar reglur gera sambærilegar kröfur til innflutts kjöts og gerðar eru samkvæmt íslenskum reglum í dag. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins gerir kröfu um að sendingum fylgi vottorð sem staðfestir að afurðir, sem undir reglugerðina falla, séu lausar við salmonellusýkla. Inn- og útflutningsskrifstofa Matvælastofnunar hefur stuðst við ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1688/2005 um það hversu mörg sýni skulu tekin úr hverri sendingu.
    Noregur hefur samið um að ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1688/2005 gildi jafnframt með tilliti til sendinga þangað. Í samningaviðræðum Íslands og framkvæmdastjórnar ESB um upptöku Íslands á reglum ESB um matvælaöryggi féllst framkvæmdastjórn ESB jafnframt á að Ísland gæti gert kröfu um viðbótartryggingar vegna salmonellu. Þar sem Ísland beitir í dag reglum um leyfisveitingar á innflutningi á frystu kjöti og hráum eggjum, sem EFTA-dómstóllinn mun fjalla um síðar á þessu ári, hefur ekki verið sótt um að ákvæði reglugerðarinnar gildi um Ísland. Falli dómur EFTA-dómstólsins á þann veg að íslenskar reglur séu ekki í samræmi við EES-samninginn verður sóst eftir því að reglur um viðbótarábyrgðir gildi fyrir Ísland. Fáist það má ætla að reglur um salmonellustöðu innflutts kjöts og innfluttra eggja verði óbreyttar. Hins vegar gæti dómur EFTA-dómstóls haft áhrif á tíðni eftirlits með heilbrigðisvottorðum þar sem tilskipun 89/662/EBE kveður á um að eftirlit með afurðum úr dýraríkinu skuli vera af handahófi nema rökstuddur grunur sé uppi um að matvælin standist ekki kröfur. Nú kannar Matvælastofnun hins vegar fylgigögn og vottorð með hverri sendingu.
    Engar sambærilegar reglur eru hins vegar til þegar kemur að viðbótarábyrgðum varðandi kampýlóbakter. Með 30 sólarhringa frystikröfu, sem áskilin er í c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012, er tryggt að innfluttar kjötvörur eru minna mengaðar af kampýlóbakter þar sem slíkum bakteríum fækkar verulega með þeirri aðferð, eða um 90%. Falli dómur EFTA-dómstólsins á þann veg að reglur um innflutning hrárra kjötvara séu ekki í samræmi við EES-samninginn munu íslensk stjórnvöld leita leiða til að gera sömu heilbrigðiskröfu til innflutts alifuglakjöts og þess sem framleitt er hérlendis.

     4.      Hvert er viðhorf ráðherra til ábendingar sóttvarnalæknis í umsögn um 783. mál á 145. löggjafarþingi þess efnis að útbreiðsla ýmissa sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería sé meðal helstu heilbrigðisógna samtímans og að þessi heilsufarsvá berist m.a. með ferskum matvælum? Hvaða áhrif telur ráðherra að þessi ábending ætti að hafa á heimild til innflutnings á hráu kjöti?
    Í umsögn sinni um 783. mál á 145. löggjafarþingi vekur sóttvarnalæknir athygli á að aukinn innflutningur á ferskum landbúnaðarvörum getur haft í för með sér ákveðin heilbrigðisvandamál sem íslensk stjórnvöld þurfa að vera meðvituð um og tilbúin að bregðast við. Vísar hann til álits Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins sem segir að útbreiðsla ýmissa sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum í dag. Í umsögninni segir að margir þættir stuðli að útbreiðslu sýkla en einn þeirra sé dreifing með ferskum matvælum, einkum fersku alifuglakjöti.
    Sérfræðingar sem hafa fjallað um þá hættu sem stafar af fjölónæmum bakteríum hafa bent á að hættan er ekki takmörkuð við hráar kjötafurðir. Fjölónæmar bakteríur geta ekki síður fundist í innfluttu grænmeti. Raunar er mesta hættan talin vera af einstaklingum sem bera þessar bakteríur til landsins frá útlöndum. Eins og lýst hefur verið hér að framan eru gildandi reglur um innflutning kjöts árangursríkar hvað varðar kampýlóbakter, en krafan um 30 daga frystingu tryggir að kjöt mengað kampýlóbakter er með verulega færri kampýlóbakter-bakteríur eftir frystingu. Jafnframt veitir frystiskyldan ákveðna vörn að því leyti að hún gefur íslenska ríkinu færi á að bregðast við ef sjúkdómur greinist í öðrum löndum. Að öðru leyti skiptir ekki máli, með tilliti til fjölónæmra baktería, hvort um hrátt eða fryst kjöt er að ræða.
    Sérfræðingar hafa bent á að í baráttunni gegn fjölónæmum bakteríum sé mikilvægt að auka vitneskju almennings. Þar sem tíðni fjölónæmra baktería sé mest í þeim löndum þar sem sýklalyfjanotkun er mest sé það mikilvægt að neytendur fái upplýsingar um hvaðan kjötafurðir koma. Reglugerð nr. 33/2017 um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað fyrir nýtt, kælt og fryst kjöt af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum gerir kröfu um að þær dýraafurðir séu merktar þannig að tilgreint sé hvar dýr eru alin og hvar þeim er slátrað. Sams konar kröfur eru gerðar varðandi nautakjöt með reglugerð nr. 968/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1760/2000 um að koma á kerfi fyrir auðkenningu og skráningu nautgripa og um merkingar nautakjöts og nautakjötsafurða.
    Ráðherra deilir þeim áhyggjum sem sóttvarnalæknir hefur af útbreiðslu fjölónæmra baktería og er sammála um að hér sé um mikla hættu að ræða. Starfshóp á vegum heilbrigðisráðherra, sem leiddur er af sóttvarnalækni, hefur verið falið að leggja fram tillögur um varnir gegn sýklalyfjaónæmi hérlendis. Hópurinn var skipaður í október 2016 og hefur nýlega skilað heilbrigðisráðherra skýrslu. Auk þess er þetta til umfjöllunar á vettvangi Evrópusambandsins þar sem unnið er að aðgerðaáætlun sem nálgast vandann út frá því sem kallað er „Ein heilsa“ (e. One Health) þar sem unnið er að heildstæðri stefnumótun til að bregðast við vandanum. Íslensk stjórnvöld fylgjast með þessu og má í því sambandi nefna að 15. maí heldur forstjóri Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) erindi á ráðstefnu Matvælastofnunar um fjölónæmar bakteríur. Þar munu sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir jafnframt kynna niðurstöður starfshópsins um varnir gegn sýklalyfjaónæmi.

     5.      Telur ráðherra að eftirlits- og viðbragðsaðilar séu nægilega vel undir það búnir að greina sýktar kjötvörur og bregðast við innflutningi þeirra?
    Í desember 2016 lét sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gera úttekt á starfsemi Matvælastofnunar í kjölfar Brúneggjamálsins svokallaða. Hinn 28. mars 2017 var skýrsla um Matvælastofnun birt og hefur hún verið lögð fyrir Alþingi (370. mál). Í skýrslunni er fjallað um starfsemi Matvælastofnunar og bent á ýmsa þætti sem betur mega fara. Meðal þess er bent á að fara þurfi yfir fjárhag stofnunarinnar og kanna hvort hún hafi burði til að sinna þeim verkefnum sem af henni er ætlast. Unnið er að því innan ráðuneytisins, í samvinnu við Matvælastofnun, að fara yfir þau tilmæli sem fram koma í skýrslunni, þar á meðal hvort fjármagn sé til staðar svo stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Hvað varðar fjölónæmar bakteríur og getu eftirlitsaðila til að bregðast við þeirri vá þá hefur starfshóps um varnir gegn sýklalyfjaónæmi nýverið skilað skýrslu til heilbrigðisráðherra. Ráðherra mun fá kynningu á skýrslunni síðar í mánuðinum auk þess sem efni skýrslunnar verður kynnt á ráðstefnu Matvælastofnunar 15. maí eins og getið er í svari við 4. lið fyrirspurnarinnar.