Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 771  —  216. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Gísla Örn Kjartansson og Tómas Sigurðsson frá Fjármálaeftirlitinu, Hrannar Má Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Jónu Björk Guðnadóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Áslaugu Jósepsdóttur, Hörpu Jónsdóttur og Örn Hauksson frá Seðlabanka Íslands. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Íslandsbanka hf., Marinó Gunnari Njálssyni, Neytendasamtökunum, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að lán tengd erlendum gjaldmiðlum verði heimil með vissum takmörkunum. Lán til neytanda verði háð því að hann hafi tekjur í þeim gjaldmiðli sem lán tengist, geti staðið af sér verulegar breytingar á greiðslubyrði vegna gengis- og vaxtabreytinga eða leggi fram fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu. Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja lánveitingum skorður í þágu fjármálastöðugleika.

3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt, í þágu fjármálastöðugleika og að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Reglurnar geti tekið til lánstíma, tegunda trygginga, hámarkshlutfalls lánanna af heildarútlánasafni lánastofnunar og skýrsluskila lánastofnana til Seðlabankans.
    Samtök fjármálafyrirtækja töldu ákvæðið fela í sér of víðtækt framsal á löggjafarvaldi til framkvæmdarvaldsins. Með lögum má heimila stjórnvöldum að setja atvinnufrelsi skorður. Löggjafanum ber þó að taka afstöðu til markmiða takmarkananna og mæla fyrir um meginreglur þar sem fram koma takmörk og umfang þeirra. Seðlabankanum er aðeins heimilt að setja íþyngjandi reglur skv. 3. gr. frumvarpsins ef þær eru nauðsynlegar til að mæta aðstæðum sem líklegar eru til að ógna fjármálastöðugleika. Í frumvarpsákvæðinu og athugasemdum við það er tilgreint til hvers reglurnar megi taka. Meiri hlutinn telur því bæði markmið og heimilt umfang reglnanna nægjanlega afmarkað. Um er að ræða svið sem háð er örum breytingum og krefst sérfræðiþekkingar á fjármálakerfinu og þjóðhagsvarúðareftirliti. Meiri hlutinn telur framsalið því nauðsynlegt til að tryggja að unnt verði að mæta tímanlega og nægjanlega aðstæðum sem líklegar eru til að ógna fjármálastöðugleika.
    Samtök fjármálafyrirtækja töldu orðalagið „varðir fyrir gjaldeyrisáhættu“ of opið enda fáir aðilar alfarið varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Meiri hlutinn lítur svo á að aðilar séu ekki varðir fyrir gjaldeyrisáhættu ef þeir hafa ekki gjaldeyrisvarnir eða nægjanlegar tekjur eða eignir í viðkomandi mynt til að draga verulega úr gjaldeyrisáhættu sinni.
    Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýndi að óljóst væri hvort reglur skv. 3. gr. frumvarpsins gætu tekið til sveitarfélaga. Sambandið lagði til að tekið yrði fram að svo væri ekki enda væri unnið að gerð reglna um lántökur sveitarfélaga í erlendum gjaldmiðlum á öðrum vettvangi. Meiri hlutinn telur ekki tilefni til að undanskilja sveitarfélög ákvæðinu. Lánveitingar tengdar erlendum gjaldmiðlum til sveitarfélaga sem ekki eru varin gjaldeyrisáhættu geta ógnað fjármálastöðugleika eigi síður en lánveitingar til annarra óvarinna aðila. Slík undanþága mundi því rýra getu Seðlabankans til að takmarka heildaráhættu í fjármálakerfinu. Meiri hlutinn telur eðlilegra að ákvæðið verði endurskoðað síðar gefi vinna á öðrum vettvangi við gerð reglna um lántökur sveitarfélaga í erlendum gjaldmiðlum tilefni til þess.
    Seðlabankinn lagði til að hann kynnti fyrirhugaðar reglur í fjármálastöðugleikaráði í stað þess að þurfa að afla álits ráðsins. Það samræmdist betur stöðu bankans sem sjálfstæðrar stofnunar. Skorður af þessu tagi gætu veikt tiltrú á að brugðist yrði við áhættu og aukið líkur á að viðeigandi aðgerðir yrðu ekki tímanlegar. Meiri hlutinn telur samræmast betur hlutverki fjármálastöðugleikaráðs sem formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda um fjármálastöðugleika, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014, að það veiti álit sitt um fyrirhugaðar reglur í stað þess að fá aðeins kynningu frá Seðlabankanum. Álit ráðsins er ekki bindandi svo að meiri hlutinn telur áskilnaðinn ekki hætta sjálfstæði bankans. Þá telur meiri hlutinn ekki ástæðu til annars en að ætla að ráðið bregðist skjótt við fyrirætlan bankans um að setja reglur gerist þess þörf, enda getur seðlabankastjóri sem einn þriggja ráðsmanna krafist þess að ráðið fundi skv. 2. mgr. 3. gr. laga um fjármálastöðugleikaráð.

6. gr. frumvarpsins.
    Í 6. gr. frumvarpsins er vísað til aðildarríkis án nánari skilgreiningar. Í 1. mgr. 11. gr. laga um neytendalán er einnig vísað til aðildarríkja án nánari skilgreiningar. Til skýringar leggur meiri hlutinn til að nýrri skilgreiningu verði bætt við 5. gr. laganna, þ.e. að með aðildarríki sé átt við ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar. Skilgreiningin er efnislega samhljóða skilgreiningu 1. tölul. 4. gr. laga um fasteignalán til neytenda. Af viðbótinni leiðir að breyta þarf vísunum til stafliða 5. gr. laga um neytendalán í 1. og 2. mgr. 2. gr., f-lið 5. mgr. 12. gr. og b-lið 5. mgr. 18. gr. sömu laga.

7. gr. frumvarpsins.
    Í a-lið 7. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðslugeta neytanda skuli ávallt metin, óháð fjárhæðarmörkum, áður en veitt er lán tengt erlendum gjaldmiðlum. Íslandsbanki hf. og Samtök fjármálafyrirtækja veltu því upp hvort undanþiggja mætti lægri lán matinu. Meiri hlutinn telur sérstakt tilefni til að meta greiðslugetu neytanda áður en lán tengt erlendum gjaldmiðlum er veitt enda líkur á mun meiri sveiflum í greiðslubyrði en af lánum í þeirri mynt sem neytandi hefur tekjur í. Á það við jafnvel þótt lán sé ekki hátt. Meiri hlutinn leggur því ekki til slíka breytingu.
    Samtök fjármálafyrirtækja gagnrýndu vísun 1. málsl. b-liðar 7. gr. frumvarpsins í að lánveitandi teldi líklegt að neytandi gæti staðið í skilum með lán. Skilyrðið væri matskennt og óljóst og gæti valdið ágreiningi við viðskiptavini og varðað stjórnvaldssektum. Meiri hlutinn telur eðlilegt að neytendum séu ekki veitt lán nema líkur séu á að þeir geti staðið í skilum. Mat á því hvenær svo sé hlýtur að mati meiri hlutans að teljast til kjarnastarfsemi banka og annarra sem lána neytendum í atvinnuskyni. Meiri hlutinn telur ólíklegt að matið valdi verulegum ágreiningi við viðskiptavini enda lánveitanda frjálst að synja neytanda um lán óháð niðurstöðu matsins. Þá mun lánveiting til neytanda, sem er ekki líklegur til að geta staðið í skilum með lán, aðeins varða sektum ef fjármálafyrirtæki brýtur gegn ákvæðinu af ásetningi eða gáleysislega. Lánveitingin mun því ekki varða sektum ef staðið er forsvaranlega að matinu. Meiri hlutinn leggur því ekki til breytingu að þessu leyti.
    Í 5. málsl. b-lið 7. gr. frumvarpsins segir að lánveitandi geti veitt neytanda lán, önnur en lán tengd erlendum gjaldmiðlum, þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats sýni frekari upplýsingar frá neytanda fram á að líklegt sé að hann geti staðið í skilum með lánið. Persónuvernd gagnrýndi að ekki væri tilgreint hvers konar gögn eða upplýsingar mætti biðja um. Lánveitanda verður aðeins heimilt að vinna með persónuupplýsingar í þessu skyni að uppfylltu einhverju skilyrða 1. mgr. 8. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Almennt má ætla að um verði að ræða upplýsingar sem neytandi leggur fram sjálfur eða veitir samþykki sitt fyrir að lánveitandi afli, sbr. 1. og 2. tölul. málsgreinarinnar. Meiri hlutinn telur útilokað að tilgreina með tæmandi hætti hvaða gögn eða upplýsingar það geti verið.

8. og 16. gr. frumvarpsins.
    Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja bentu á að óljóst væri hvað teldist „viðeigandi“ fjárhagsleg trygging skv. c-lið 8. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til að orðið falli brott svo að ljóst sé að heimilt sé að nota hverja þá fjárhagslega tryggingu sem dregur verulega úr gjaldeyrisáhættu neytanda. Meiri hlutinn leggur til hliðstæða breytingu á 3. tölul. 21. gr. laga um fasteignalán til neytenda.

11. gr. frumvarpsins.
    Með hliðsjón af ábendingu Íslandsbanka hf. leggur meiri hlutinn til tvíþætta breytingu á fyrirmælum 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins um niðurgreiðslutöflu. Breytingin felur annars vegar í sér að neytandi geti óskað eftir niðurgreiðslutöflu í stað þess að lánveitanda beri að bjóða hana að eigin frumkvæði. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga um fasteignalán til neytenda segir að neytandi geti óskað eftir að fá niðurgreiðslutöflu verðtryggðs fasteignaláns á föstu verðlagi. Ekki verður séð að ástæða sé til að gera ríkari kröfur um upplýsingaskyldu í tilviki neytendalána þar sem fjárhæðir eru mun lægri og lánstími mun styttri. Hins vegar felur breytingin í sér að niðurgreiðslutaflan sé á föstu verðlagi, líkt og í lögum um fasteignalán til neytenda, frekar en að miðað sé við meðaltal verðbólgu síðustu tíu ár fyrir gerð samnings. Auðveldara er fyrir neytenda að gera sér grein fyrir raunverulegri þróun höfuðstóls og greiðslubyrði láns ef miðað er við fast verðlag.

19. gr. frumvarpsins.
    Í 19. gr. frumvarpsins er lagt til að e-liður 1. tölul. 64. gr. laga um fasteignalán til neytenda, sem kveður á um brottfall w-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um neytendalán, falli brott. E-liður 1. tölul. 64. gr. laga um fasteignalán til neytenda tók gildi 1. apríl síðastliðinn og w-liður 1. mgr. 30. gr. laga um neytendalán er því þegar fallinn brott. Meiri hlutinn leggur því til að 19. gr. frumvarpsins falli brott en hennar í stað verði í 12. gr. frumvarpsins mælt fyrir um að því ákvæði sem áður var í w-lið 1. mgr. 30. gr. laga um neytendalán verði á ný bætt við lögin.

20. gr. frumvarpsins.
    Í 20. gr. frumvarpsins segir að lögin öðlist gildi 1. apríl 2017. Sá dagur er þegar liðinn. Meiri hlutinn leggur til að gildistaka verði í staðinn 1. júní 2017.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Óli Björn Kárason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 11. maí 2017.

Óli Björn Kárason,
form.
Vilhjálmur Bjarnason, frsm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Brynjar Níelsson. Jón Steindór Valdimarsson.