Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 775  —  340. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um sjókvíaeldi og vernd villtra laxfiska.


     1.      Hefur verið gerð fagleg úttekt á samlegðaráhrifum stóraukins fiskeldis í sjó hér við land á lífríki og, ef svo er ekki, mun ráðherra láta gera slíka úttekt áður en fleiri slík leyfi verða veitt?
    Ekki hefur farið fram heildstæð fagleg úttekt á áhrifum aukins fiskeldis í sjó á lífríki hér við land. Fiskeldi í sjó fór ekki að vaxa að ráði hér við land fyrr en á árinu 2016. Nú eru áform um verulega aukningu fiskeldis í sjó. Veitt hafa verið leyfi fyrir auknu eldi en önnur verkefni eru í ferli til mats á umhverfisáhrifum. Í heild má telja að þeir innviðir sem til staðar eru og uppbygging þeirra hafi ekki haldist í hendur við þá hröðu uppbyggingu og magn framleiðslu sem áform eru um að framleiða hér á landi og á því þarf að taka.
    Á það skal bent að fyrir Alþingi liggur frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um skipulag haf- og strandsvæða. Samkvæmt frumvarpinu skal marka stefnu um nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða, m.a. um eldi eða ræktun nytjastofna.
    Í lögum um fiskeldi er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun meti burðarþol fjarða fyrir fiskeldi þar sem reiknað er með líkönum hversu aukið álag firðir þoli án þess að vatnsgæði viðkomandi svæða rýrni. Það mat er bæði tengt lögum um fiskeldi og lögum um stjórn vatnamála þar sem kveðið er á um að vatnsgæði megi ekki rýrna umfram ákveðið viðmið. Vatnsgæði eru þó einungis einn af þeim þáttum sem fiskeldi í sjókvíum getur haft áhrif á, en aðrir þættir geta verið tengdir áhrifum á aðra nýtingu viðkomandi svæða eða mikilvægi þeirra í vistkerfinu. Má þar nefna uppeldissvæði nytjastofna, svo sem þorsks og rækju, og einnig geta komið fram áhrif á villta stofna, ekki síst laxfiska, vegna erfðablöndunar, sníkjudýra og sjúkdóma. Telja verður brýnt að heildstæð úttekt allra þátta verði gerð og að á henni megi síðan byggja frekari stefnumörkun stjórnvalda varðandi fiskeldi. Þekking hér á landi er að mestu byggð á reynslu annarra þjóða af fiskeldi. Sagan hefur sýnt að þeir þættir sem eru líklegastir til að hafa áhrif eru að mestu þeir sömu á milli landa. Mikilvægt er að einnig sé byggt á þeirri reynslu sem þegar hefur fengist hér á landi, með henni sé fylgst reglulega og hún sé aðgengileg fyrir fagaðila.
    Að tilstuðlan starfshóps um stefnumótun í fiskeldi er hafin vinna við gerð áhættumats vegna erfðablöndunar eldislax við íslenska villta laxastofna. Markmið verkefnisins er að meta hve mikið umfang eldis má vera á hverjum stað án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum vegna erfðablöndunar. Í verkefninu eru notuð bestu fáanleg gögn um hlutfall sleppinga, áhrifa hafstrauma, fjarlægð áa og stofnstærð laxa í ám auk erfðasamsetningar villtra stofna. Tilgangur verkefnisins er að leitast við að gera stjórnvöldum betur kleift að stýra þróun fiskeldis. Hafrannsóknastofnun annast framkvæmd verkefnisins með hjálp erlendra sérfræðinga.
    Í fyrsta verkþætti verður gögnum safnað og þau sett í gagnagrunn. Í öðrum verkþætti er leitað til erlendra ráðgjafa á sviði erfðablöndunar og er búið að ráða tvo erlenda sérfræðinga. Þeirra verkefni verður að móta líkan í samvinnu við Hafrannsóknstofnun. Að því loknu munu umræddir sérfræðingar fullgera reiknilíkan fyrir erfðablöndun. Niðurstöður verkefnisins, eins og áður segir, er líkan fyrir áhættu erfðablöndunar sem fall af umfangi sjókvíaeldis, fjarlægð frá á, stærð laxastofna í viðkomandi á og straumstyrk og stefnu hafstrauma.

     2.      Liggja fyrir verkferlar og viðbragðsáætlanir til að vernda villta stofna laxfiska fyrir erfðamengun, sjúkdómum, sníkjudýrum og öðrum áföllum sem geta hlotist af því að eldisfiskur sleppur úr haldi?
    Þegar slysaslepping verður grípur Fiskistofa til aðgerða í samræmi við 13. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, en fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir eru tíundaðar í viðauka IV í reglugerð nr. 1170/2015, um fiskeldi. Fiskistofa gegnir lykilhlutverki við slíkar aðstæður, en Matvælastofnun skal hafa eftirlit með að eldisstöðvar búi yfir virkri viðbragðsáætlun og að starfsmenn séu þjálfaðir til réttra viðbragða.
    Rekstraraðili í fiskeldi sem missir fisk úr eldisstöð skal virkja viðbragðsáætlun sína vegna slíkra atburða. Viðbragðsáætlun skal tilgreina að tilkynnt skuli um slysasleppingu tafarlaust til Fiskistofu, komið skuli í veg fyrir frekari sleppingar og að netaveiðar verði reyndar innan 200 metra frá stöðinni. Þegar staðfest er að slysaslepping hafi orðið birtir Fiskistofa frétt um það á heimasíðu sinni og gerir hagsmunaaðilum viðvart (veiðiréttareigendum nærliggjandi veiðivatna, Landssambandi veiðifélaga og Landssambandi fiskeldisstöðva). Hlutverk Fiskistofu, samkvæmt umræddri lagagrein, er að stjórna veiðum á fiski þegar slysaslepping hefur orðið. Fiskistofa sendir eftirlitsmann á vettvang sem kannar hvort viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð og hvort net hafi verið lögð, í samræmi við viðbragðsáætlun. Í framhaldi starfar Fiskistofa með rekstraraðila við að beita þeim úrræðum sem gagnast megi til að varnar því að vistfræðilegt tjón verði. Úrræði sem gripið er til hverju sinni geta verið margbreytileg enda hættan breytileg eftir eðli atburða. Þau atriði sem skipta einkum máli eru: Fisktegund og eiginleikar strokufiska (svo sem hvort fiskar séu geldir og/eða af einu kyni), stærð og aldur strokufiska, árstími og nálægð við veiðivötn. Fiskistofa leitar ráðgjafar hjá Hafrannsóknastofnun um netaveiðiaðgerðir og aðrar aðgerðir sem kunna að gagnast við það að minnka líkurnar á því að strokufiskar valdi vistfræðilegu tjóni. Fiskistofa hefur einnig samráð við Matvælastofnun sem rannsakar hver uppruni strokufiska er, tildrög og orsakir þess að slysaslepping hafi orðið.
    Við rannsókn Matvælastofnunar á uppruna strokufiska getur komið að gagni að beita erfðagreiningu á lífssýnum úr strokufiskum, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Þeir sjúkdómsvaldar (veirur, bakteríur og sníkjudýr) sem helst getur verið um að ræða við slysasleppingar eru allir þekktir og útbreiddir í náttúrulegum vistkerfum laxfiska. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hefur aldrei tekist að finna villtan laxfisk sem sýnir klínísk sjúkdómseinkenni í sínu náttúrulega umhverfi þrátt fyrir að vera smitaður af viðkomandi örveru/sníkjudýri. Nánast eina undantekningin frá þessu er svokölluð kýlaveiki (af völdum Aeromonas salmonicida ssp. salmonicida), en það var einmitt sá sjúkdómur sem herjaði á villtan lax í Elliðaánum sumar og haust 1995 með þeim afleiðingum að a.m.k. 200 laxar drápust upp eftir ánni. Þessi sjúkdómur hefur hins vegar aldrei komið upp í íslensku fiskeldi, hvorki fyrr né síðar, þannig að smitkveikjan í þessu sambandi var rakin til villtra fiska sem komu frá beitarstöðvum sunnan úr hafi það sumarið. Það finnast sem sagt ekki dæmi þess að sleppifiskar úr sjókvíum hafi valdið búsifjum á meðal villtra laxastofna.
    Þá skal hér vísað til áhættumatsins sem nú er í undibúningi sbr. svar við 1. lið.

     3.      Hversu mörg fiskeldisleyfi telur ráðherra að eitt og sama fyrirtækið eigi að geta haft að hámarki?
    Ráðherra vísar til þess að nú er að störfum starfshópur um stefnumörkun í fiskeldi sem mun fjalla um veitingu fiskeldisleyfa. Ráðherra telur að vel komi til greina að draga skarpari línur um skilyrði fyrir leyfisveitingum. Í því sambandi skulu umhverfissjónarmið ávallt vera í forgrunni. Þegar greinargerð starfhópsins liggur fyrir mun ráðherra hafa forsendur til þess að taka afstöðu til málsins.

     4.      Mun ráðherra stuðla að því að settar verði reglur um eignarhald fiskeldisfyrirtækja líkt og gert hefur verið í Færeyjum og eru í gildi varðandi eignarhald í sjávarútvegi hérlendis?
    Fyrir liggur að erlend fiskeldisfyrirtæki hafa fjárfest í íslensku fiskeldi. Þessir aðilar hafa fjármagnað uppbyggingu fiskeldis þegar fjármagn til slíkra fjárfestinga var ekki í boði hérlendis. Jafnframt hafa þessir aðilar miðlað af reynslu sinni og þekkingu og nýtt viðskiptasambönd sín í rekstri fiskeldis hér á landi. Engum vafa er undirorpið að framþróun íslensks fiskeldis undanfarin ár byggist á þessari þátttöku erlendu aðilanna. Ekki eru uppi áform um að banna erlenda fjárfestingu í fiskeldi, en mikilvægt er að tryggja að löggjöf um þessi efni verði skýr og ótvíræð. Tíminn verður að leiða í ljós hvort tilteknar takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila eða takmarkanir á atkvæðarétti þeirra í rekstri fiskeldisfyrirtækja verði settar hérlendis.

     5.      Mun ráðherra beita heimild í lögum til að fyrirskipa að notaðir verði geldir laxar til eldis í sjó hér við land í ljósi þess að í það stefnir að um 160.000 tonn af laxi verði alin hér?
    Þessari spurningu er ekki tímabært að svara með afgerandi hætti fyrr en umrætt áhættumat hefur farið fram og starfshópur um stefnumörkun hefur skilað áliti, en möguleg notkun geldfisks í sjókvíaeldi er eitt af því sem hópurinn fjallar um. Grannt er fylgst með þeirri þróun sem á sér stað í ræktun á geldfiski og góð rök hníga að því að tengja leyfi til fiskeldis við geldlax í framtíðinni.

     6.      Verður komið á reglulegu opinberu eftirliti með lúsasýkingum í sjókvíaeldi og niðurstöður þess birtar opinberlega í ljósi þess að fregnir hafa borist af alvarlegum sýkingum af þessu tagi og hvert er viðhorf ráðherra til þess að fylgst verði reglubundið með magni laxalúsa alls staðar þar sem sjókvíaeldi er fyrirhugað hér við land?
    Viðhorf ráðherra er að ekki megi tefla jafnvægi lífríkis í tvísýnu. Því beri að huga eftir fremsta megni að umhverfissjónarmiðum. Almennt eftirlit með fisk- og laxalús hefur verið stundað svo lengi sem eldi laxfiska hefur verið í sjókvíum hér við land. Þetta má sjá í ársskýrslum dýralæknis fisksjúkdóma. Í ljósi niðurstaðna og að teknu tilliti til náttúrlegra aðstæðna við Vestfirði og Austfirði hefur að svo komnu máli ekki verið talið nauðsynlegt, út frá faglegum rökum, að settar verði opinberar kvaðir um ákveðnar aðgerðir til lúsatalningar. Aftur á móti hefur Matvælastofnun gefið út tilmæli og leiðbeiningar og er það verklag byggt á áhættumati og stöðu mála er varðar lús almennt í umhverfi sjókvía á áðurnefndum svæðum. Við innra gæðaeftirlit eldisfyrirtækja hafa þau framkvæmt talningar samkvæmt áðurnefndum leiðbeiningum, ekki síst þegar ný sjókvíaeldissvæði eru tekin í notkun. Ef opinberir eftirlitsaðilar verða varir við breytingu og umhverfisskilyrði verða með því móti að laxalús eigi betra með að ná sér á strik verður umsvifalaust mælst til þess að sett verði þau skilyrði að sjókvíaeldisfyrirtæki stundi reglubundna talningu og skili inn niðurstöðum til Matvælastofnunar.

     7.      Verða sett viðmiðunarmörk um hámark leyfilegrar lúsasýkingar í fiskeldi í sjó? Ef svo er, munu þá viðurkenndir erlendir staðlar verða lagðir til grundvallar eða hvaða viðmiðunum yrði ella beitt og hvers vegna?
    Vísað er í svar við 5. lið. Þær fáu laxeldisþjóðir sem tekið hafa upp slíkar reglur hafa hver sína útgáfu, allt eftir umhverfisaðstæðum í hverju landi. Umhverfisaðstæður, ekki síst sjávarhiti, er afar mismunandi á milli hafsvæða. Gríðarlegur munur er t.d. á að reka laxeldi við Færeyjar þar sem sjávarhiti fer aldrei niður fyrir 6,5°C og ekki upp fyrir 11,5°C (kjörhitastig laxalúsar er 6–14°C), samanborið við Ísland. Hitastig sjávar í eðlilegu árferði við Vestfirði er vel undir 4°C (oftast 1,7–2,5°C) allt frá desember til maí, eða í heila fimm mánuði ár hvert. Laxalús getur með engu móti fjölgað sér við sjávarhita undir 4°C. Alla þessa þætti þarf að hafa í huga við setningu slíkra viðmiðunarmarka og viðbúið að verði staðlar settir af opinberum aðilum þá muni þeir verða sérsniðnir að íslenskum aðstæðum.

     8.      Hafa farið fram rannsóknir þær á umfangi laxalúsasmits í Eyjafirði sem lýst er yfir að verði gerðar í bréfi til Landssambands veiðifélaga þar sem beiðni Landssambandsins um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíaeldi er hafnað?
    Nei. Fram hefur komið að Hafrannsóknastofnun telur nú nær ómögulegt að gera rannsóknir á mögulegu lúsasmiti án þess að gera áður rannsóknir við raunverulegar aðstæður. Þar sem ekkert sjókvíaeldi á laxi er í Eyjafirði hafa, að mati Hafrannsóknastofnunar, ekki verið til staðar forsendur til slíkra rannsókna.