Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 787  —  392. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992 (lánshæfi aðfaranáms).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, sem varðar lánshæfi aðfaranáms. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að tilefni frumvarpsins er að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Lánasjóður íslenskra námsmanna – Lánshæfi náms og þróun útlána (júní 2011) mátti finna alvarlegar athugasemdir við lánveitingar Lánasjóðsins vegna aðfaranáms.
    Aðfaranám, sem jafnframt er þekkt undir nafninu frumgreinanám, er í eðli sínu nám á framhaldsskólastigi fyrir nemendur sem af einhverjum ástæðum hafa ekki lokið námi við framhaldsskóla með formlegu framhaldsskóla-, starfsréttinda- og eða stúdentsprófi. Námið fellur ekki undir lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, heldur lög um háskóla, nr. 63/2006, en í síðargreindum lögum segir að háskólum er heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að bjóða upp á aðfaranám fyrir einstaklinga sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í háskóla, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 19. gr. laganna. Aðfaranámið fer fram í samstarfi við háskóla eða á vegum hans, sem setur því reglur og ábyrgist gæði þess, en fellur ekki undir yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
    Námið er í boði við þrjá einkarekna skóla hér á landi: Keili, Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Ein helsta sérstaða aðfaranámsins gagnvart hefðbundnu framhaldsskólanámi, hvort sem er í dagskóla eða kvöldskóla framhaldsskólanna, hefur verið sú staðreynd að aðfaranámið hefur verið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, lánað hefur verið bæði fyrir framfærslu og skólagjöldum. Langflestir nemendur hafa nýtt sér þann möguleika.
    Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun þeim tilmælum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að tryggt yrði að ákvæðum laga væri fylgt, að skipuð yrði fagleg nefnd um lánshæfi náms og að settar yrðu reglur um lánshæf skólagjöld. Ríkisendurskoðun lagði jafnframt til við Lánasjóð íslenskra námsmanna að sjóðurinn fylgdi lögum um lánshæfi, tryggði jafnræði framhaldsskólanema, byndi rétt til námslána tilteknum aldri og fjárhæð, endurskoðaði reglur um skólagjaldalán vegna náms erlendis og upplýsti lánþega reglulega um fjárskuldbindingar sínar.
    Ríkisendurskoðun fjallaði einnig um aðfararnám í skýrslu sinni Frumgreinakennsla íslenskra skóla (maí 2012) og beindi þar þeim tilmælum til ráðuneytisins að það felldi frumgreinanámið að almennu framhaldsskólanámi og bætti lagaumgjörðina um námið.
    Minni hlutinn tekur undir mikilvægi þess að skýr lagastoð sé undir lánveitingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við að með frumvarpinu er ekki farið að ráðleggingum Ríkisendurskoðunar um lánveitingar sjóðsins til aðfaranáms og lítið sem ekkert gert með aðrar ábendingar stofnunarinnar. Taldi Ríkisendurskoðun að annað hvort ætti að hætta alveg lánveitingum vegna aðfaranámsins eða breyta lögum um lánasjóðinn í samræmi við framkvæmd og gefa öllum nemendum framhaldsskóla kost á námslánum. Í umsögn skólameistara Fjölbrautaskólans í Breiðholti er bent á að með því að heimila aðeins lánveitingar til framfærslu og skólagjalda við sumt nám á framhaldsskólastigi og annað ekki, sé verið að festa enn frekar í sessi þá skipan að almennt bóknám á framhaldsskólastigi verði lánshæft fyrir suma nemendur en ekki aðra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er enda bent á að væntanlega sé ein helsta sérstaða aðfaranáms umfram hefðbundið framhaldsskólanám lán Lánasjóðsins til framfærslu og skólagjalda frekar en námið sjálft. Jafnvel þannig að stór hluti þeirra nemenda sem ljúka aðfaranámi séu búin að fullnýta sér rétt sinn til skólagjaldalána áður en nám við háskóla hefst.
    Minni hlutinn hafnar því að námi sem er í reynd á framhaldsskólastigi í einkareknum skólum sé á þennan máta hampað umfram opinbera framhaldsskóla. Lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eru hugsuð til að tryggja jafnræði nemenda til náms, en ekki til að viðhalda hugmyndafræðinni um „fjölbreytt“ rekstrarform í skólakerfinu. Sveltistefna ríkisstjórnarinnar gagnvart opinbera framhaldsskólakerfinu birtist þannig enn á ný í þessu frumvarpi.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að auka enn frekar ójafnræði nemenda með því að banna lánveitingar vegna aðfaranáms erlendis. Í umsögn Sambands íslenskra námsmanna erlendis kemur fram að margir nemendur hafi nýtt sér þennan möguleika, t.d. nemar í byggingartæknifræði í Danmörku.
    Minni hlutinn lýsir einnig yfir miklum áhyggjum yfir því hversu óskýr lagaumgjörðin er utan um aðfaranámið/frumgreinakennsluna. Nemendur átti sig hugsanlega ekki á að aðfaranámið felur ekki í sér almenn réttindi til inntöku í háskóla, líkt og stúdentspróf, heldur eru réttindin til náms á háskólastigi bundin við viðkomandi háskóla eða byggist á samningum við einstaka háskóla. Þannig getur nemandi verið búinn að greiða umtalsverðar upphæðir fyrir nám á framhaldsskólastigi til að öðlast réttindi til að fara í háskóla en uppgötvað svo að námið uppfylli ekki inntökuskilyrði þess náms sem hann eða hún vill fara í að loknu aðfaranáminu.
    Minni hlutinn tekur undir þá tillögu meiri hlutans að fella bráðabirgðaákvæði frumvarpsins á brott.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný kaflafyrirsögn sem orðist svo: I. kafli, Breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.
     2.      Efnismálsliður 1. gr. orðist svo: Sjóðnum er heimilt samkvæmt nánari fyrirmælum í úthlutunarreglum að veita námsmönnum námslán til aðfaranáms, allt að 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum, sé námið samþykkt af ráðherra.
     3.      Við bætist nýr kafli, II. kafli, Breyting á lögum um háskóla, nr. 63/2006, með síðari breytingum, með einni nýrri grein, 3. gr., sem orðist svo:
                 Á eftir 1. málsl. 4. mgr. 19. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Öllu aðfaranámi lýkur með stúdentsprófi.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, og lögum um háskóla, nr. 63/2006, með síðari breytingum (lánshæfi aðfaranáms, stúdentspróf).

    Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 15. maí 2017.

Eygló Harðardóttir,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Björn Leví Gunnarsson.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.