Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 797  —  405. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998, með síðari breytingum (samningar um framleiðslu vegabréfa).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Ingu Helgu Sveinsdóttur, Þorvarð Kára Ólafsson og Guðna Rúnar Gíslason frá Þjóðskrá Íslands. Engar umsagnir bárust um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vegabréf þannig að Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til að semja um vegabréf og framleiðslukerfi þeirra til lengri tíma en fimm ára, að hámarki þó til tíu ára. Með frumvarpinu er verið að leggja til að Alþingi samþykki heimild til Þjóðskrár Íslands til að semja um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til lengri tíma en fimm ára í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sbr. og 4. mgr. 40. gr. sömu laga.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að Þjóðskrá Íslands hefur um nokkurt skeið undirbúið útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar á framleiðslukerfi fyrir vegabréf. Núverandi framleiðslukerfi sem er í eigu Þjóðskrár Íslands er komið til ára sinna. Ef notast á við það er nauðsynlegt að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar til þess að breyta því vegna nýrra vegabréfabóka svo að tryggt sé að það standist m.a. öryggiskröfur. Enn fremur fjallaði nefndin um mikilvægi þess að marka heildarstefnu um mál sem varða kaup eða leigu á kerfum fyrir undirstofnanir og þarfnast samþykkis Alþingis.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í ákvæðinu felist heimild til að bjóða út innkaup á vegabréfabókum og leigu á framleiðslukerfi fyrir útgáfu vegabréfa á Evrópska efnahagssvæðinu. Á fundum nefndarinnar kom hins vegar fram að í reynd er ætlunin að kaupa kerfið og semja við verksala um að greiða það á átta árum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vandað sé til vinnubragða og telur miður að þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við meðferð málsins sem leiddi til þess að 1. umræða þingsins um frumvarpið byggðist á röngum forsendum. Meiri hlutinn tekur engu síður fram að orðalag ákvæðisins nái hvort sem er til leigu eða kaupa á framleiðslukerfi.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að vegabréfakerfi Þjóðskrár Íslands verði uppfært og uppfylli öll öryggisskilyrði. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að unnt sé að hefja útboðsferli sem fyrst.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 16. maí 2017.


Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Valgerður Gunnarsdóttir,
frsm.
Nichole Leigh Mosty.
Vilhjálmur Árnason. Pawel Bartoszek. Elsa Lára Arnardóttir.
Iðunn Garðarsdóttir.