Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 798  —  544. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum, (skiptinemar í framhaldsskólum).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

    3. mgr. 65. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. komi þeir til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka og má þá víkja frá aldursskilyrðum 1. mgr. og skilyrði um að nám sé á háskólastigi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 3. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er kveðið á um heimild til að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi ef þeir koma til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka. Skulu þeir uppfylla skilyrði 2. mgr. ákvæðisins um að þeir stundi fullt nám og 1. og 2. mgr. 55. gr. um grunnskilyrði dvalarleyfa en víkja má frá skilyrðinu um 18 ára aldurstakmark enda eru skiptinemar sem koma á vegum slíkra samtaka oftast á aldrinum 16–18 ára. Ljóst er að vilji löggjafans stóð ekki til að víkja frá fyrri framkvæmd varðandi skiptinema sem hingað koma á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka til dvalar og náms í framhaldsskólum, en í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, segir um 3. mgr. 65. gr. að ekki sé um að ræða neina breytingu frá núverandi fyrirkomulagi. Í 3. gr. laga um útlendinga er að finna orðskýringar. Þar segir að orðið nám þýði samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þannig getur nám á framhaldsskólastigi ekki fallið undir skilgreiningu á námi í lögunum. Nauðsynlegt er því að gera breytingar á 3. mgr. 65. gr. laganna og kveða skýrt á um heimild til útgáfu dvalarleyfis til skiptinema sem koma hingað til lands á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka og stunda fullt nám í framhaldsskólum.