Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 803  —  494. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um bifreiðakaup ráðuneytisins.


     1.      Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar til afnota fyrir ráðuneytið frá því í ársbyrjun 2014, af hvaða tegund eru þær, hvaða eldsneyti notar hver þeirra, hver er uppgefin eldsneytisnotkun hverrar þeirrar og hver er uppgefin losun hverrar þeirra á koltvíoxíði (CO2)?
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur keypt eina bifreið frá því í ársbyrjun 2014. Um var að ræða endurnýjun á ráðherrabifreið frá árinu 2005. Hin nýja bifreið er af gerðinni Mercedes Benz GLE 500e 4 MATIC Plug-in hybrid. Uppgefin eldsneytisnotkun er 3,1 l/100 km og uppgefin losun á koldíoxíði er 78 g/km. Bifreiðin uppfyllir enn fremur losunarskilyrði samkvæmt Euro 6 staðli.

     2.      Hvernig samræmast bifreiðakaup fyrir ráðuneytið markmiði í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) um að fimmtungur bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænn fyrir árið 2020?
    Ráðuneytið telur að bifreiðakaupin samræmist vel markmiði þingsályktunartillögunnar þar sem um er að ræða bifreið með svokallaða tengitvinnvél (plug-in hybrid) sem notar að miklu leyti raforku í innanbæjarakstri. Enn fremur var sett upp hleðslustöð fyrir bifreiðina við húsakynni ráðuneytisins. Þess ber þó að geta að núverandi ráðherra hefði fremur valið bíl sem gengur að öllu leyti fyrir endurnýjanlegum eða vistvænum orkugjafa.

     3.      Hefur krafa um að bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa verið í útboðsskilmálum vegna bifreiðakaupa ráðuneytisins eða er áformað að slíkir skilmálar verði settir?
    Í útboðsskilmálum fyrrgreindra bifreiðakaupa var gerð krafa um að bifreiðin væri að hluta til knúin raforku, sem telst til endurnýjanlegra og vistvænna orkugjafa. Bjóðendum var eftirlátið að bifreiðin væri annaðhvort búin tvinnvél (hybrid) eða tengitvinnvél (plug-in hybrid).