Ferill 299. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 804  —  299. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um kynjajafnrétti á starfssviði utanríkisráðuneytisins.


     1.      Hvernig hefur verið háttað eftirfylgni alþjóðlegrar ráðstefnu um stöðu kynjanna á norðurslóðum sem haldin var í október 2014 á vegum utanríkisráðuneytisins, í samvinnu við Jafnréttisstofu, norðurslóðanet Íslands og samstarfsríkja innan Norðurskautsráðsins, með tilliti til framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál 2016–2019?
    Ráðstefnunni „Gender Equality in the Arctic“, sem haldin var í október 2014 á Akureyri, var fylgt eftir með skýrslu sem gefin var út í ársbyrjun 2015 undir heitinu „Gender Equality in the Arctic current realities and future challenges“. Sú skýrsla var síðan formlega samþykkt af ráðherrum Norðurskautsráðsins á ráðherrafundi þeirra í Iqaluit í maí 2015 sem markaði lok formennsku Kanada. Í skýrslunni eru lagðar fram ráðleggingar og ábendingar sem beint er til stjórnvalda og annarra í ríkjum ráðsins sem vinna að jafnréttismálum í ríkjunum.
    Í framhaldinu hefur síðan verkefninu verið fylgt eftir með því að fá samþykkt nýtt verkefni á sama grunni á fundi nefndar um sjálfbæra þróun innan Norðurskautsráðsins í Orano í Maine í október 2016. Ásamt Íslandi eru þátttakendur Svíar, Finnar og frumbyggjasamtökin Aluit International Association og vonir standa einnig til að önnur frumbyggjasamtök muni koma að verkefninu. Jafnréttisstofa og Norðurslóðanetið á Akureyri munu leiða verkefnið og leggja til sérþekkingu af Íslands hálfu í samvinnu við utanríkisráðuneytið

     2.      Hefur orðið af stofnun alþjóðlegs samstarfsnets um jafnréttismál á norðurslóðum og uppsetningu vefgáttar til að tengja saman ólíka hagsmunaaðila samkvæmt markmiðum framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál 2016–2019? Ef svo er ekki, hefur þá verið unnið að undirbúningi, hvernig hefur honum verið háttað og hvenær er áætlað að af stofnun samstarfsnetsins verði?
    Eitt af markmiðum hins nýja verkefnis (sbr. svar við 1. lið) er að stuðla að stofnun slíks samstarfsnets innan verkefnisins undir hatti hópsins um sjálfbæra þróun til að tengja saman aðila sem vinna að jafnréttismálum og/eða hafa það sem sérsvið. Þetta verkefni er einungis eitt af mörgum sem fjalla um jafnréttismál í víðu samhengi á norðlægum slóðum. Innan annarra stofnana, m.a. Norrænu ráðherranefndarinnar, og innan háskólasamstarfs er unnið að rannsóknum á félagslegum aðstæðum á norðurslóðum. Þannig hefur Norræna ráðherranefndin og samstarfsnet háskóla á Norðurlöndum lagt áherslu á rannsóknir sem tengjast jafnréttismálum.
    Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að Norðurskautsráðið starfi að jafnréttismálum, ekki síst á sviði félagslegrar og efnahagslegrar þróunar þar sem frumbyggjasamtökin sex sem sitja í ráðinu eru virkir þátttakendur.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra leggja áherslu á jafnréttismál og beita sér fyrir þeim á vettvangi Norðurskautsráðsins?
    Ísland hefur löngum haldið merkjum jafnréttis á lofti í Norðurskautsráðinu, m.a. með áðurgreindum verkefnum og fjárstuðningi til þeirra. Jafnframt eru tækifæri nýtt þegar ræður og fyrirlestrar eru haldnir sem tengjast norðurslóðamálum og vekur Ísland þá iðulega athygli á mikilvægi þess að auka jafnrétti á norðurslóðum og finna leiðir til að allir íbúar svæðisins njóti sömu réttinda og tækifæra, burtséð frá kyni.

     4.      Hvernig hyggst utanríkisráðherra fylgja eftir áherslum um mikilvægi kynjasjónarmiða í Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál eins og kveðið er á um í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál 2016–2019?
    Ísland var í fararbroddi í því að tryggja að Parísarsamningurinn hefði að geyma ákvæði um að mæta skyldi kynjajafnréttissjónarmiðum í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum og styrkingu innviða. Er einnig kveðið á um að aðildarríki samningsins skuli styðja, virða og taka mið af skyldum sínum til kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna. Í ákvörðun loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) er enn fremur mælt fyrir um að gæta skuli að jöfnum kynjahlutföllum við skipun nefndar um eftirlit með og framkvæmd samkomulagsins. Annars vegar ber því að tryggja að konur taki þátt í að móta þær reglur sem styðja við framkvæmd samningsins. Hins vegar ber aðildarríkjum að taka mið af kynjajafnréttissjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar um fjármagn og aðgerðir til þess að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.
    Í aðgerðum hérlendis vinna stjórnvöld í samræmi við þessar skuldbindingar, m.a. á grundvelli laga um opinber fjármál og jafnréttislaga. Þessi mikilvægu sjónarmið endurspeglast enn fremur í íslenskri þróunarsamvinnu.

     5.      Hvaða alþjóðlegu loftslagsverkefni á sviði þróunarsamvinnu sem Ísland veitir fjármagn til stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna? Hvernig hyggst utanríkisráðherra beita sér fyrir því að alþjóðleg verkefni á sviði loftslagsmála stuðli að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna eins og kveðið er á um í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál 2016–2019?
    Í aðdraganda Parísarsamningsins lagði utanríkisráðuneytið ríka áherslu á að tryggja þátttöku kvenna frá þróunarlöndum í loftslagsviðræðum. Í því skyni voru, á árunum 2010–2014, veitt framlög í sjóð sem hefur að markmiði að auka hlut kvenna frá þróunarlöndum í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsmál (Women Delegates Fund), sem og til loftslagsverkefnis á vegum UN Women. Markmiðið með þessum framlögum var að tryggja að kynjasjónarmiðum væri komið á framfæri í alþjóðlegum samningaviðræðum og stefnumótun á sviði loftslagsmála. Konum frá þróunarlöndum var gert kleift að sækja loftslagsráðstefnur og fundi Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd landa sinna og hlutu einnig ýmiss konar þjálfun, m.a. í samningatækni, til að auka færni þeirra og getu í samningaviðræðum. Á sl. árum hefur átt sér stað töluverð vitundarvakning um mikilvægi þess að konur taki þátt í loftslagsviðræðum og að rödd þeirra heyrist, en hlutfall kvenna meðal þátttakenda í fundum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) fór úr 12% árin 2006–2007 í 35% árið 2015.
    Utanríkisráðuneytið hefur sömuleiðis stutt við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) en flestir nemendur skólans eru frá lágtekjuríkjum. Jafnréttisskólinn hefur lagt sérstaka áherslu á að fjalla um hlut kvenna í loftslagsmálum og býður upp á námskeið sem miðar að því að byggja upp þekkingu og skilning á orsökum loftslagsbreytinga og áhrif þess á konur í þróunarlöndum.
    Í kjölfar samþykktar Parísarsamningsins hefur utanríkisráðuneytið svo unnið að því að koma á fót samstarfsverkefnum um kyn- og loftslagsbreytingar og átt í viðræðum við ýmsa aðila þar að lútandi. Í þeirri vinnu hefur verið litið til núverandi samstarfsstofnana og áherslusvæða. Utanríkisráðuneytið á þessi misserin í viðræðum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) og Jafnréttisskólann um mögulegt samstarf á þessu sviði, en þær viðræður eru þó á frumstigi.
    Árið 2016 runnu framlög á sviði umhverfis- og loftslagsmála fyrst og fremst til fjölþjóðlegra loftslagssjóða, svo sem sjóðs á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir fátækustu þróunarlöndin (UNFCCC LDCF), græna loftslagssjóðsins (GCF) og sjóðs á vegum átaks Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku fyrir alla (SE4ALL). Þessir sjóðir halda allir kynjasjónarmiðum á lofti í stefnumótun og aðgerðaáætlunum.

     6.      Hefur jafnréttisáætlun utanríkisráðuneytisins, gerð skv. 2. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, verið endurskoðuð? Ef svo er, hvenær lauk þeirri endurskoðun, leiddi hún til einhverra breytinga og þá hverra?
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins tekur til Stjórnarráðsins sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks í ráðuneytum og vísar í 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga). Í áætluninni er kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins, þ.m.t. utanríkisráðuneytisins, þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum.
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins tók við af einstökum jafnréttisáætlunum ráðuneyta þegar hún tók fyrst gildi 1. mars 2013 og er hún nokkuð ítarlegri en jafnréttisáætlun utanríkisráðuneytisins frá árinu 2009. Endurskoðuð jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, sem tók gildi 30. mars sl., tekur einnig mið af framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016–2019 sem Alþingi samþykkti 7. september 2016 með þingsályktun nr. 56/145.
    Helstu breytingar sem urðu 2013 fela m.a. í sér að kynna skuli niðurstöður jafnlaunaúttektar fyrir öllu starfsfólki hvers ráðuneytis en ekki eingöngu yfirstjórn og sérstaklega er tilgreint að í samræmi við jafnréttislög skuli taka tillit til heildarlauna- og réttinda, þ.m.t. hvers konar frekari þóknunar. Þá er kveðið á um að í árlegri skýrslu til Jafnréttisstofu sé gerð grein fyrir kynjahlutfalli í stjórnunarstöðum í ráðuneytum og að leiðrétta skuli kynjahalla í endurmenntun, símenntun eða framgangi í starfi, sé slíkur halli fyrir hendi samkvæmt úttekt. Enn fremur urðu þær breytingar frá áætlun ráðuneytisins frá árinu 2009 að sérstaklega skyldi skoða fjölda yfirvinnutíma til að fyrirbyggja að óhófleg yfirvinna hefði áhrif á fjölskyldulíf, ítarlegar er kveðið á um kynbundna og kynferðislega áreitni og verklag og fræðslu gegn slíkri áreitni, auk þess sem vinna skal markvisst gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kynjanna. Meðal helstu breytinga í endurskoðaðri áætlun frá því í mars sl. er innleiðing jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 í öllum ráðuneytum og skýrari ákvæði um kynjasamþættingu í allri stefnumótun og áætlanagerð ráðuneyta og opinberra stofnana í samræmi við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.
    Á grunni jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins er einnig í gildi framkvæmdaáætlun utanríkisráðuneytisins í jafnréttismálum, sem dagsett er 10. febrúar 2014. Áætluninni er ætlað að stuðla að jöfnum tækifærum, rétti og stöðu kynjanna innan ráðuneytisins og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í starfi og stefnumótun utanríkisþjónustunnar. Í þeirri áætlun var lögð áhersla á tvö atriði á sviði jafnréttismála sem varða innra starf þess, þ.e. framkvæmd jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins um markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf ráðuneytanna og gerð samninga um atvinnuréttindi maka við ríki þar sem utanríkisþjónustan hefur starfsstöðvar. Þá kemur einnig fram í framkvæmdaáætlun utanríkisráðuneytisins að ráðuneytið leggi ríka áherslu á jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í öllu starfi. Um er að ræða forgangsverkefni í mannréttindastefnu stjórnvalda og voru tiltekin málefni sem utanríkisráðuneytið legði m.a. áherslu á. Í ljósi nýafstaðinnar endurskoðunar jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins verður hafist handa við endurskoðun framkvæmdaáætlunar utanríkisráðuneytisins í jafnréttismálum síðar á þessu ári.