Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 805  —  333. mál.
Breytingartillaga. Skýring.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur (EES-reglur o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Sigurð Snævarr, Lúðvík Gústafsson, Karl Björnsson, Halldór Halldórsson, Guðjón Bragason og Telmu Halldórsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristínu Lindu Árnadóttur, Sigrúnu Ágústsdóttur, Aðalbjörgu Guttormsdóttur, Sigurrós Friðriksdóttur, Agnar Bragason, Hildu Guðnýju Svavarsdóttur og Guðmund Ingvarsson frá Umhverfisstofnun. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Hafnarfjarðarbæ, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sorpu bs. og Umhverfisstofnun auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 145. löggjafarþingi (670. mál) en náði ekki fram að ganga. Helsta breytingin sem orðið hefur á frumvarpinu frá fyrri framlagningu þess er sú að ekki er lengur gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun verði veitt heimild til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota gegn ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpinu er ætlað að innleiða EES-gerðir, gera nauðsynlegar lagfæringar á lagagreinum og fyrri innleiðingum og gera þá breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, að heimila töku umsýsluþóknunar fyrir ál, sem m.a. er nauðsynleg vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs á áli og styrkingar íslensku krónunnar. Um nánari útlistun á efni frumvarpsins vísast til 3. kafla greinargerðar þess.

Heimild til álagningar stjórnvaldssekta.
    Á fundi með nefndinni sem og í umsögn sinni um málið mótmælir Umhverfisstofnun því að í fyrirliggjandi frumvarpi sé ekki að finna ákvæði sem heimili stofnuninni að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á tilteknum ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs, líkt og var í frumvarpinu sem lagt var fram á síðasta þingi. Stofnunin telji mikilvægt að lögfesta slíka heimild sem fyrst þar sem lögbrot á sviði úrgangsmála verði sífelld algengari og stórfelldari og brýn þörf sé á skilvirkum þvingunarúrræðum, ekki síst með tilliti til almennra varúðaráhrifa. Þá kveði reglugerð (ESB) nr. 660/2014 á um skyldu til að innleiða skilvirk úrræði gegn brotunum. Sú afstaða ráðuneytisins að betra sé að bíða með innleiðingu ákvæðisins til næsta löggjafarþings svo það megi innleiða samhliða innleiðingu sambærilegs ákvæðis í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir sé illa rökstudd og engin ástæða sé til að bíða með innleiðingu þess. Að öðru leyti en þessu sé stofnunin hlynnt samþykkt frumvarpsins, enda hafi það verið unnið í ríku samráði við stofnunina.
    Nefndin hefur fengið þær upplýsingar frá ráðuneytinu að ákveðið hafi verið að bíða með innleiðingu stjórnvaldssektarákvæðisins að sinni, einkum vegna þeirrar gagnrýni sem kom fram um ákvæðið við meðferð 670. máls á síðasta löggjafarþingi og laut að því að nauðsynlegt væri að veita heilbrigðiseftirlitum sambærilega heimild til álagningar stjórnvaldssekta til að forðast réttaróvissu og árekstra. Stefnt væri að því að ígrunda betur alla anga málsins og leggja fram nýtt frumvarp á næsta löggjafarþingi þar sem heimild til álagningar stjórnvaldssekta yrði bætt við lög um meðhöndlun úrgangs og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Þótt nefndin taki undir sjónarmið Umhverfisstofnunar um nauðsyn þess að stjórnvaldssektarákvæði verði bætt við lögin telur nefndin að svo stöddu ráðlegt að veita ráðuneytinu svigrúm til þeirrar vinnu sem það telur þörf á áður en slíkt ákvæði verði lagt fram á næsta löggjafarþingi. Telur nefndin hætt við að inngrip hennar við meðferð málsins nú gæti orðið til þess fallið að torvelda þá vinnu. Nefndin leggur áherslu á að tillaga um stjórnvaldssektarákvæði verði lögð fram á næsta þingi og hvetur ráðuneytið til víðtæks samráðs og vandaðs verklags við gerð þess.

Framleiðendaábyrgð.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið er bent á að í 1. mgr. 12 gr. tilskipunar um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs nr. 2012/19/ESB segi að framleiðendur (innflytjendur) skuli að lágmarki fjármagna söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og örugga förgun raftækjaúrgangs. Í 2. mgr. sömu greinar segi að sömu aðilar eigi helst einnig að fjármagna söfnun frá heimilum á söfnunarstöðvar. Þetta markmið endurspeglist jafnframt í 44., 45. gr. og 48. gr. laga um meðhöndlun úrgangs en ákvæði greinanna séu hins vegar að ákveðnu marki misvísandi hvað varði kostnað við söfnun og geymslu úrgangs. Sambandið gerir þá kröfu að sveitarfélögin beri ekki kostnað vegna söfnunar raf- og rafeindatækjaúrgangs á söfnunarstöðvum, enda sé slík niðurgreiðsla af hálfu skattgreiðenda/sveitarfélaga í raun andstæð markmiðum tilskipunarinnar.
    Nefndin tekur undir ábendingar sambandsins og telur mikilvægt að fyrir liggi skýr niðurstaða um hvaða kostnað innflytjendur/framleiðendur eigi að bera við söfnun raftækjaúrgangs á söfnunarstöðvum. Jafnframt tekur nefndin undir þá afstöðu sambandsins að ráðuneytið geti ekki vísað ábyrgð á málinu til stjórnar Úrvinnslusjóðs heldur sé nærtækara að ráðuneytið leiti eftir leiðbeiningum frá Eftirlitsstofnun EFTA um rétta túlkun tilskipunarinnar. Þannig sé nauðsynlegt að eyða vafa um hvort tilskipunin sé rétt innleidd hér á landi. Verði niðurstaða slíkrar könnunar sú að þörf sé á lagabreytingum, líkt og sambandið heldur fram, beinir nefndin því til ráðuneytisins að frumvarp þess efnis verði lagt fram á haustþingi.

Endurvinnsla einnota umbúða.
    Í meðförum málsins fyrir nefndinni hefur nokkuð verið rætt um endurvinnslu einnota drykkjarumbúða. Hefur umræðan m.a. lotið að þeim möguleika að útvíkka gildissvið laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, að því er varðar skilagjald fyrir móttöku umbúða þannig að þau nái til fleiri gerða umbúða en nú er. Við umfjöllunina var m.a. bent á að til að svo gæti orðið væri fyrst nauðsynlegt að byggja upp innviði fyrir söfnun umbúða, svo sem að fjölga móttökustöðum umbúða og auka skilvirkni þeirra. Var m.a. bent á að í nágrannalöndum okkar væri algengt að neytendur gætu skilað umbúðum í þar til gerðar móttökuvélar í matvöruverslunum.
    Nefndin telur brýnt að hugað verði að þessum málum og leggur til við ráðherra að skipaður verði starfshópur sem hafi það hlutverk að gera tillögur að því hvernig bæta megi umhverfi endurvinnslu og skilagjalds einnota umbúða og setja fram aðgerðaáætlun þar sem fram komi nauðsynleg skref og tímarammi. Ráðherra kynni Alþingi skipun starfshóps og stöðu mála á haustþingi 2017.
    Í 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins, er varðar gildistöku, er að finna þá villu að í stað 2. mgr. 64. gr. a átti að standa 4. mgr. Var ákvæðið nauðsynlegt vegna breytinga sem til stóð að gera með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (376. mál). Vegna breytingartillagna sem meiri hluti nefndarinnar gerir við það frumvarp og fela í sér að útgáfa starfsleyfa fyrir tiltekna starfsemi verði áfram í höndum heilbrigðisnefnda er ekki lengur tilefni til að halda þessu gildistökuákvæði inni. Leggur nefndin því til að 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins falli brott. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. mgr. 20. gr. falli brott.

    Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 17. maí 2017.

Valgerður Gunnarsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Daníel E. Arnarsson. Einar Brynjólfsson. Gunnar Bragi Sveinsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Pawel Bartoszek. Teitur Björn Einarsson.