Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 811  —  505. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, með síðari breytingum (úttektarheimildir).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Guðmund Kárason og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Guðmund Sigbergsson, Kristjönu Jónsdóttur og Sturlu Pálsson frá Seðlabanka Íslands. Umsögn barst frá Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur ákvæðum laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Annars vegar er lagt til að heimild skv. 2. mgr. 11. gr. laganna til að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum verði látin ná til samningsbundinna afborgana höfuðstóls lánaskuldbindinga fyrir lokagjalddaga og verðbóta þeirra og úttektir samkvæmt ákvæðinu verði ekki lengur háðar staðfestingu Seðlabanka Íslands heldur aðeins tilkynningarskyldar til bankans. Hins vegar er lagt til að hámarksúttekt hvers einstaklings skv. 3. mgr. 12. gr. laganna hækki úr 1 millj. kr. í 100 millj. kr. á almanaksári. Frumvarpinu er m.a. ætlað að gæta skuldbindinga Íslands samkvæmt stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 18. maí 2017.

Óli Björn Kárason,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. Brynjar Níelsson. Jón Steindór Valdimarsson.
Katrín Jakobsdóttir. Lilja Alfreðsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.