Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 814  —  411. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011 (hlutverk, framlag ríkissjóðs o.fl.).

Frá atvinnuveganefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðrúnu Dóru Brynjólfsdóttur og Hjörleif Finnsson frá Ferðamálastofu, Unni Valborgu Hilmarsdóttur fyrir hönd ferðamálaráðs, Guðmund Inga Guðbrandsson frá Landvernd, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Önnu Sverrisdóttur og Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, EYÞINGI – Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Ferðamálastofu, ferðamálaráði, Ferðafélaginu Útivist, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Í frumvarpinu felast eftirfarandi breytingar: Lagt er til að hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða breytist á þann veg að ferðamannastaðir í eigu eða umsjón ríkisins falli almennt utan gildissviðs laganna. Verði frumvarpið að lögum skal sjóðurinn stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Einnig er lagt til að framkvæmdir á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum komi almennt ekki til álita við úthlutun úr sjóðnum. Einnig er lögð til breyting á 2. gr. laganna um stjórn sjóðsins í því skyni að fækka stjórnarmönnum úr fjórum í þrjá. Þá er lagt til að tekjur sjóðsins séu framlag ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum hvers árs og því verði fallið frá því að tiltekið hlutfall gistináttaskatts renni til sjóðsins. Er þetta í samræmi við ný lög um opinber fjármál.
    Þær aðstæður kunna að vera fyrir hendi að aðsókn er að tilteknu landsvæði en eigandi þess hefur ekki bolmagn til að koma í veg fyrir að það verði fyrir spjöllum vegna of mikils ágangs. Nefndin bendir á að mótframlag þeirra sem fá úthlutað úr sjóðnum getur verið annað en í formi fjármuna, t.d. vinnuframlag eða með því að leggja fram tæki eða vélar. Nefndin telur brýnt að ráðherra hugi að framangreindum tilvikum með það fyrir augum að eigendur lands sem vilja að aðrir geti notið þess en geta ekki annast það með viðunandi hætti verði a.m.k. ekki fyrir fjárútlátum út af ásókn.
    Rætt var um það í nefndinni að þeir sem fá úthlutað úr sjóðnum nái stundum ekki að ljúka framkvæmdum á tilskildum tíma enda eru framkvæmdir oft bundnar við sumarmánuði og m.a. hefur reynst erfitt að fá verktaka. Upplýst var fyrir nefndinni að samkvæmt starfsreglum um sjóðinn séu styrkir að jafnaði ekki veittir til lengri tíma en eins árs. Nefndin telur æskilegt að aðilar fái ráðrúm til að ljúka framkvæmdum innan hæfilegs tíma og að ráðherra leitist við að breyta starfsreglum um þetta atriði.
    Í frumvarpinu er lagt til að stjórnarmenn verði framvegis þrír en ekki fjórir eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þannig að við bætist einn stjórnarmaður sem tilnefndur verði af þeim ráðherra sem fer með náttúruvernd.
    Gunnar Ingi Guðmundsson ritar undir álit þetta með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram eða styðja breytingartillögur við málið.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson rita undir álit þetta með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 2. gr.
          a.      Í stað orðsins „þrjá“ í 1. málsl. komi: fjóra.
          b.      Á eftir orðunum „Sambands íslenskra sveitarfélaga“ komi: einn eftir tilnefningu ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar.

Alþingi, 18. maí 2017.

Páll Magnússon,
form., frsm., með fyrirvara.
Gunnar Ingiberg Guðmundsson,
með fyrirvara.
Ásmundur Friðriksson.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
með fyrirvara.
Hanna Katrín Friðriksson. Logi Einarsson.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir. Sigurður Ingi Jóhannsson,
með fyrirvara.
Óli Björn Kárason.