Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 855  —  432. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Magnússon, Kristínu Láru Helgadóttur og Margréti Björnsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Jóhann Friðrik Friðriksson frá Félagi lýðheilsufræðinga, Stefán Arinbjarnarson frá Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa og Friðrik Smára Björgvinsson og Sigríði Björk Guðjónsdóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Umsagnir bárust frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Kristni Tómassyni, tollstjóra og héraðssaksóknara.
    Markmið frumvarpsins er að taka á heildstæðan hátt á ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu og vörslu þeirra frammistöðubætandi efna og lyfja sem tilgreind eru í frumvarpinu. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að nauðsynlegt þyki að draga úr framboði slíkra efna enda sé það vel þekkt að notkun frammistöðubætandi efna og lyfja getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna. Nauðsynlegt þyki að setja heildarlöggjöf um þessi efni og lyf og hafa löggæslu- og eftirlitsaðilar sérstaklega kallað eftir því.
    Í ágúst 2016 lagði þáverandi heilbrigðisráðherra fram á Alþingi skýrslu um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild. Eitt af því sem starfshópurinn sem vann skýrsluna skoðaði var hvort hverfa ætti frá refsistefnu í fíkniefnamálum. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er engin vinna hafin í ráðuneytinu til að fylgja eftir þessari skýrslu en til stendur að hefja slíka vinnu á haustmánuðum 2017. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að efnisatriði frumvarps þessa verði haft með í þeirri endurskoðun.
    Meiri hlutinn telur ekki þörf á að leggja til breytingar á frumvarpinu og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.
    Elsa Lára Arnardóttir og Steingrímur J. Sigfússon rita undir álit þetta með fyrirvara. Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 22. maí 2017.

Nichole Leigh Mosty,
form.
Guðjón S. Brjánsson,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Elsa Lára Arnardóttir,
með fyrirvara.
Hildur Sverrisdóttir. Jóna Sólveig Elínardóttir.
Steingrímur J. Sigfússon,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.