Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 872  —  412. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu (eftirlit með vigtunarleyfishöfum).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Jónsdóttur og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmund Ragnarsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Lúðvík Geirsson frá Hafnasambandi Íslands, Þorstein Sigurðsson frá Hafrannsóknastofnun og Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Hrefnu Karlsdóttur og Steinar Inga Matthíasson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Hafnasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Frumvarpið er lagt fram til að styrkja heimildir Fiskistofu til að hafa eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Í 1. gr. er mælt fyrir um að ef í ljós kemur, við eftirlit Fiskistofu hjá vigtunarleyfishafa, verulegt frávik á íshlutfalli í afla skips í tiltekinni fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skipsins í fyrri löndunum skuli Fiskistofa fylgjast með allri vigtun þess vigtunarleyfishafa í allt að sex vikur. Ef vigtunarleyfishafi þarf að sæta auknu eftirliti samkvæmt framangreindu greiðir hann allan kostnað af því samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu. Skv. 2. gr. skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfi í eitt ár ef ítrekað eru veruleg frávik á íshlutfalli í afla skipa sem landa hjá vigtunarleyfishafa.
    Þeir sem hafa skilað nefndinni umsögn um frumvarpið styðja að það verði að lögum enda er mikilvægt að skráning á afla sé eins nákvæm og unnt er. Fram kom við umfjöllun um málið að frumvarpið, verði það að lögum, komi til með að auka áreiðanleika við vigtun sjávarafla og muni hafa varnaðaráhrif. Nefndin tekur undir framangreint en bendir á að lagaheimildir sem Fiskistofu eru veittar samkvæmt frumvarpinu eru matskenndar og því afar brýnt að stofnunin gæti að réttaröryggi þeirra sem sæta eftirliti.
    Gunnar Ingiberg Guðmundsson ritar undir álit þetta með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram eða styðja breytingartillögur við málið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 22. maí 2017.

Páll Magnússon,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Hanna Katrín Friðriksson.
Gunnar Ingiberg Guðmundsson,
með fyrirvara.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Logi Einarsson.
Óli Björn Kárason. Sigurður Ingi Jóhannsson. Theodóra S. Þorsteinsdóttir.