Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 905  —  433. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum (málsmeðferð o.fl.).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um sjúklingatryggingu. Tilgangurinn er að stuðla að bættri málsmeðferð hjá Sjúkratryggingum Íslands. Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við 1.–4. gr. eða 6.–7. gr. frumvarpsins.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á gildandi lögum þess efnis að mál sem beina skal til sjúkratryggingastofnunarinnar skv. 14. gr. laganna verða ekki borin undir dómstóla fyrr en stofnunin hefur tekið ákvörðun í málinu. Þannig verður þeim sem hafa beint máli sínu til Sjúkratrygginga Íslands ekki heimilt að bera mál undir dómstóla fyrr en stofnunin hefur tekið afstöðu til bótaskyldu, metið umfang tjóns og ákveðið fjárhæð bóta. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með þessu sé verið að stemma stigu við því að málum, sem eru til úrvinnslu hjá Sjúkratryggingum Íslands, verði stefnt til dómstóla, sem valdi töfum og samfélagslegum kostnaði.
    Minni hlutinn telur óheillavænlegt að gera þessa breytingu á lögunum. Takmörkun á rétti einstaklinga til að leggja mál sín fyrir dómstóla felur í sér takmörkun á stjórnarskrárvörðum réttindum skv. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé ætlun löggjafans að takmarka þessi réttindi borgaranna er afar mikilvægt að fram fari ítarlegri vinna um þörfina þar á, hvaða skref muni skila árangri og hvernig þau skuli stigin. Ekki verður talið rétt að bregðast við óskilvirkni í stjórnsýslu með því að takmarka réttindi einstaklinga til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Þar færi mun betur á að greina hvaða breytinga er þörf á stjórnsýslunni og málsmeðferð hjá Sjúkratryggingum Íslands og grípa til aðgerða með heildarendurskoðun á lögunum. Ljóst er að fyrir liggur slík heildarendurskoðun. Sé ætlun löggjafans að bæta óskilvirkni og málsmeðferð stjórnsýslunnar skal það gert með heildarendurskoðun á lögum og reglum um málsmeðferð, ekki með því að takmarka réttindi einstaklinga handahófskennt.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    5. gr. falli brott.

Alþingi, 23. maí 2017.

Halldóra Mogensen,
frsm.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðjón S. Brjánsson.
Steingrímur J. Sigfússon.