Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 926  —  280. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fjölpóst.


     1.      Hversu mikið af pappír er áætlað að hafi borist inn á hvert heimili á Íslandi árlega sl. 10 ár vegna dreifingar fjölpósts, þ.e. fríblaða og óáritaðs auglýsinga- og kynningarefnis?
    Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hversu mikið af fjölpósti barst inn á hvert heimili á Íslandi árlega síðastliðin 10 ár.
    Leita má vísbendinga um magn fjölpósts með því skoða hversu mikinn pappírsúrgang Sorpa bs. hefur tekið á móti til endurvinnslu og urðunar. Pappír og pappi frá heimilum berst Sorpu bs. í gegnum mismunandi farvegi, bæði til endurvinnslu og urðunar. Mat á magni pappírs og pappa frá heimilum tekur því bæði mið af magntölum ársins 2016 og rannsókn Sorpu bs. á samsetningu heimilisúrgangs frá sama ári.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu bs. var pappír og pappi frá heimilum árið 2016 samtals 72,9 kg á íbúa. Til endurvinnslu (þ.e. í gegnum bláa tunnu, grenndargáma og endurvinnslustöðvar) fóru samtals 49,1 kg á íbúa en pappír og pappi í gráu tunnunni, samkvæmt rannsókn Sorpu bs. á samsetningu heimilisúrgangs, var 23,8 kg á íbúa. Sá fyrirvari er gerður við framangreindar tölur að ekki er hægt að aðgreina nákvæmlega hve stór hluti pappírs og pappa á endurvinnslustöðvum kemur frá heimilum og hve stór hluti frá fyrirtækjum. Fyrirtæki geta, eins og heimilin, nýtt endurvinnslustöðvarnar til að skila minni förmum. Stærsti hlutinn kemur þó frá heimilum.
    Við þetta má síðan bæta að einkaaðilar taka einnig á móti pappírsúrgangi frá heimilum og fyrirtækjum og sem dæmi þá sendi Gámaþjónustan hf. 1.041 tonn af pappír til endurvinnslu árið 2016.
    Til samanburðar má nefna að í samantekt ráðuneytisins um vinnu nefndar sem skipuð var til að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu á dagblöðum, tímaritum og öðrum óumbeðnum prentpappír, og fjallað er um í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar, var árið 2011 áætlað að pappírsnotkun Íslendinga væri 130 kg á íbúa.

     2.      Er munur á pappírsmagninu á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum?
    Í samantekt ráðuneytisins um vinnu nefndar sem skipuð var til að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu á dagblöðum, tímaritum og öðrum óumbeðnum prentpappír, og fjallað er um í svari við 4 tölul. fyrirspurnarinnar, var áætlað að sennilega væri hlutfall dagblaða í heimilisúrgangi mun hærra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni þar sem dreifing fríblaða væri minni.

     3.      Telur ráðherra eðlilegt að viðtakendur fjölpósts beri kostnað af förgun þess pappírssorps sem af honum leiðir?
    Nei, ráðherra telur það ekki eðlilegt að viðtakendur fjölpósts beri kostnað af förgun þess pappírssorps sem af honum leiðir. Í samræmi við mengunarbótaregluna væri eðlilegra að framleiðendur fjölpósts bæru kostnað af úrvinnslu hans, þ.e. að koma honum í endurvinnslu eða endurnýtingu. Væri settur hagrænn hvati til endurvinnslu fjölpósts, t.d. úrvinnslugjald, yki það magn þess sem færi til endurvinnslu en óljóst er hvort það drægi úr magni fjölpósts sem myndast. Í þessu sambandi er mikilvægt að geta þess að stjórnvöld vinna eftir ákveðinni forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. 7. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þar kemur fram að stefna skuli fyrst að því að draga úr myndun úrgangs og neðar í forgangsröðuninni eru endurvinnsla og endurnýting úrgangs.

     4.      Hvaða umhverfisgjöld eru nú lögð á fjölpóst sem dreift er endurgjaldslaust og óumbeðið? Er hugað að því að innleiða mengunarbótaregluna í auknum mæli á þessum vettvangi þannig að aðilar sem dreifa fjölpósti beri kostnað sem hlýst af förgun úrgangsins?
    Engin umhverfisgjöld eru lögð á fjölpóst hér á landi. Ráðherra hefur hug á að innleiða mengunarbótaregluna í auknum mæli vegna fjölpósts og er það mál til skoðunar.
    Árið 2008 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að gera tillögur til ráðherra um aðgerðir til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu á dagblöðum, tímaritum og öðrum óumbeðnum prentpappír sem kemur á söfnunarstöðvar sveitarfélaga, í grenndargáma og með heimahirðu almenns heimilisúrgangs. Nefndin fundaði síðast haustið 2008 en á sama tíma minnkaði magn pappírsúrgangs verulega vegna breytts efnahagsástands. Nefndin lauk störfum með samantekt umhverfisráðuneytisins þar sem farið var yfir þrjár leiðir sem nefndin ræddi og fólu í sér aukna ábyrgð framleiðenda á vöru þegar hún er orðin að úrgangi. Leiðirnar voru álagning úrvinnslugjalds á vöruna, uppsetning skilakerfis framleiðenda og gerð frjáls samkomulags framleiðenda, stjórnvalda og hugsanlegra annarra aðila. Í samantektinni kemur fram að nefndin taldi að af leiðunum þremur mundi frjálst samkomulag framleiðenda, stjórnvalda og ef til vill annarra aðila henta best. Væri hægt að líta til breskrar fyrirmyndar þar um. Kostirnir við slíka leið væru að útgefendur prentefnis skuldbyndu sig til að kynna söfnun á pappír og hvetja til þess að einstaklingar flokki, auk þess sem hægt væri að taka á heildarumhverfishugsun innan iðnaðarins allt frá upphafi líftíma vörunnar þar til hún er orðin að úrgangi. Gallinn við slíkt samkomulag væri aftur á móti sá að það færði ekki ábyrgðina á söfnun og endurvinnslu pappírsins yfir á framleiðendurna sjálfa. Að mati framangreindrar nefndar þótti skilakerfi framleiðenda of umfangsmikið fyrir verkefni sem leysa mætti á einfaldari hátt og úrvinnslugjaldaleiðin var ekki talin til þess fallin að auka það magn sem skilaði sér til endurvinnslu.
    Frá því að framangreind nefnd starfaði hefur ýmislegt breyst og skipuleg söfnun pappírs og pappa aukist töluvert um land allt. Árið 2013 hófu t.d. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að bjóða upp á sérstaka tunnu fyrir pappír og pappa og hafa einkafyrirtæki á úrgangsmarkaði boðið upp á ýmiss konar endurvinnslutunnur í mörg ár. Árið 2014 fór 76% af pappírs- og pappaúrgangi í endurnýtingu eða endurvinnslu. Af því magni sem fór til endurvinnslu árið 2015 var nánast jafnmikið magn af pappír og pappa sem ekki eru umbúðir endurunnið eins og af pappírs- og pappaumbúðum. Þar sem pappír og pappi sem ekki eru umbúðir eru ekki inni í úrvinnslugjaldskerfinu þá hefur Umhverfisstofnun ekki haldbærar upplýsingar um hversu mikið magn er sett á markað og hefur því ekki reiknað endurvinnsluhlutfallið, eins og gert er fyrir umbúðahlutann.

     5.      Hefur komið til álita að gera kröfu um að viðtakendur fjölpósts þurfi að veita samþykki sitt fyrir móttöku í stað þess að þurfa sérstaklega að biðjast undan henni eins og nú er raunin?
    Nefnd, sem falið var að gera tillögur til ráðherra um aðgerðir til að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu á dagblöðum, tímaritum og öðrum óumbeðnum prentpappír, og greint er frá í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar, fjallaði einnig um rétt neytenda til að afþakka fjölpóst eða fríblöð. Í samantekt nefndarinnar kemur fram að um tvær leiðir sé að velja; annars vegar nei-takk leið sem felur í sér að vilji fólk ekki fá fjölpóst verði að afþakka hann sérstaklega og hins vegar já-takk leið sem felur í sér að einungis er heimilt að dreifa fjölpósti til þeirra sem sérstaklega hafa lýst vilja sínum til að þiggja slíkt. Taldi nefndin að ein forsenda þess að draga úr magni úrgangs sem til félli vegna dagblaða, tímarita og annars prentpappírs væri að neytendum yrði tryggður réttur til að afþakka fjölpóst eða fríblöð.
    Núna býður Íslandspóstur hf. neytendum upp á að afþakka með sérstökum límmiða þann fjölpóst sem Íslandspóstur dreifir. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins býður Póstdreifing ehf., sem einnig er stór dreifingaraðili, sömuleiðis upp á að neytendur geti afþakkað annars vegar fjölpóst og hins vegar fríblöð (Póstdreifing ehf. dreifir m.a. Fréttablaðinu og Fréttatímanum). Nei-takk leiðin er því við lýði hér á landi hjá þessum aðilum. Þess skal þó getið að fleiri aðilar en Íslandspóstur hf. og Póstdreifing ehf. bjóða upp á þá þjónustu að dreifa fjölpósti og fríblöðum.