Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 965  —  490. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um djúpborun til orkuöflunar.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra stuðla að því að niðurstöður úr Íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP), sem fólst í borun nærri 5 km djúprar holu á Reykjanesi, og reynsla sem fékkst við framkvæmd þess setji mark á leiðir og lausnir í íslenskri raforkuframleiðslu?
    Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) er samstarfsverkefni nokkurra orkufyrirtækja og íslenska ríkisins sem miðar að því að rannsaka orkuframleiðslu jarðhitavirkjana með minni umhverfisáhrifum en nú er. Verkefnið felst í borun þriggja borhola þar sem leitað er eftir að bora í þann hluta jarðhitakerfisins sem er í yfirmarksástandi í bæði hita og þrýstingi. Útreikningar hafa gefið til kynna að hver borhola geti gefið margfalda orku miðað við hefðbundnar jarðhitaholur, sem þá getur dregið úr landnotkun. Boraðar hafa verið tvær holur í Kröflu og á Reykjanesi og framundan eru víðtækar mælingar og rannsóknir á þeim niðurstöðum sem þar fást. Í framhaldinu er áformað að bora þriðju holuna á Hengilssvæðinu. Íslenska ríkið hefur frá upphafi styrkt djúpborunarverkefnið. Forsenda að aðkomu ríkisins eru þeir möguleikar sem verkefnið getur skapað við framtíðarþróun sjálfbærrar jarðhitanýtingar. Mikilvægt er að þeim árangri sem þegar hefur verið náð verði fylgt eftir með frekari rannsóknum sem taka ekki bara á möguleikum heldur einnig þeim áskorunum sem upp koma við að hemja jarðhitavökvann.

     2.      Með hvaða hætti telur ráðherra að unnt sé að tryggja frekari þróun og framgang í djúpborunum við orkuöflun á háhitasvæðum sem þegar hafa verið virkjuð?
    Enn er mörgum spurningum ósvarað í tengslum við framangreint verkefni (IDDP), en þegar eru í gangi ýmsar rannsóknir sem lúta að frekari þróun og framgangi í djúpborunum við orkuöflun á háhitasvæðum sem þegar hafa verið virkjuð. Aðkoma hins opinbera að verkefninu er m.a. í þeim tilgangi að tryggja aðgengi stjórnvalda að niðurstöðum rannsókna í því skyni að auðvelda áætlanagerð um framþróun á sviði orkumála, t.d. varðandi orkuöflun á háhitasvæðum sem þegar hafa verið virkjuð.

     3.      Telur ráðherra að orkuvinnsla úr djúpum borholum á háhitasvæðum muni breyta forsendum til raforkuframleiðslu í landinu og þá með hvaða hætti?
    Erfitt er að leggja endanlegt mat á það hvort orkuvinnsla úr djúpum borholum á háhitasvæðum muni breyta forsendum til raforkuframleiðslu í landinu fyrr en frekari niðurstöður liggja fyrir úr þeim rannsóknum sem átt hafa sér stað. Sama má segja hvað varðar þá tækniþróun sem mundi þurfa að koma til. Nefna má að með borholunni við Kröflu (IDDP-1) kom í ljós að væntingar til aukinnar afkastagetu stóðu undir sér. Borholan sýndi einnig að bæta þarf hönnun og framkvæmd við nýtingu jarðhita við svo hátt hitastig. Frumniðurstöður rannsókna gefa til kynna að tækifærin eru til staðar en ljóst er að vinna þarf að úrlausn fjölda þátta áður en telja megi nýtinguna markaðshæfa.

     4.      Telur ráðherra, með tilliti til þess að gefin hafa verið út leyfi til rannsókna á orkuvinnslugetu háhitasvæða á hafsbotni norðan- og suðvestan við landið, að tryggja þurfi að íslenska ríkið eigi aðild að þeirri orkuöflun sem þar kann að fara fram eða ætti hún að verða í höndum einkaaðila, íslenskra eða erlendra eftir atvikum?
    Með lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, voru settar reglur um fullveldi Íslands yfir hafinu og hafsbotninum umhverfis landið, m.a. að fullveldisrétturinn næði yfir landgrunnið. Með lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, er því enn fremur slegið föstu að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda, lífrænna sem ólífrænna, á og í hafsbotninum, frá netlögum og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær. Samkvæmt reglugerð nr. 290/2012, um gjald fyrir efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga samkvæmt hafsbotnslögum, skal aðili sem fengið hefur leyfi til að taka eða nýta efni af eða úr hafsbotni utan netlaga, greiða endurgjald fyrir það efni sem tekið er á grundvelli nýtingar- eða efnistökuleyfis hans. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði 7. gr. auðlindalaga nr. 57/1998 um að nýtingarleyfishafi nái samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindir.
    Komi til vinnslu jarðhita á hafsbotni eða jarðhita með djúpborun þarf að tryggja fullnægjandi endurgjald fyrir slíka auðlindanýtingu til raforkuframleiðslu. Í þeim leyfum sem þegar hafa verið veitt er áskilinn réttur ríkisins til þess að leggja hæfilegt gjald á auðlindina ef til vinnslu kemur. Á vegum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis er að störfum starfshópur til að fara yfir fyrirkomulag gjaldtöku vegna nýtingar auðlinda í opinberri eigu til orkuvinnslu.

     5.      Eru tæknilegar og umhverfislegar forsendur fyrir orkuvinnslu úr háhitasvæðum á hafsbotni taldar ásættanlegar og í samræmi við sjónarmið um sjálfbæra auðlindanýtingu með tilliti til áhrifa á náttúrufar, efnahag og samfélag?
    Það er á ábyrgð umsækjanda um leitar-, rannsóknar- eða nýtingarleyfi til orkuvinnslu úr háhitasvæðum á hafsbotni að leggja fram nauðsynleg gögn til þess að mat á umhverfisáhrifum geti farið fram áður en til hugsanlegrar vinnslu kemur, en við slíkt mat á umhverfisáhrifum er m.a. leitað svara við því hvort tæknilegar og umhverfislegar forsendur fyrir orkuvinnslu séu taldar ásættanlegar og í samræmi við sjónarmið um sjálfbæra auðlindanýtingu með tilliti til áhrifa á náttúrufar, efnahag og samfélag. Í útgefnu leitarleyfi til rannsókna á orkuvinnslugetu háhitasvæða á hafsbotni er einnig lagt mat á áhrif á náttúrufar, efnahag og samfélag, og sett skilyrði þar að lútandi í viðkomandi leyfi. Þá ber að hafa hugfast að með útgefnu leitarleyfi er reynt að auka þekkingu á viðkomandi auðlind sem í dag er takmarkaður á þessum svæðum.

     6.      Hver er afstaða ráðherra til innheimtu auðlindagjalds af raforkuvinnslu úr fallvötnum og varma- og raforkuvinnslu á jarðhitasvæðum?
    Á vegum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis er að störfum starfshópur til að fara yfir fyrirkomulag gjaldtöku vegna nýtinga auðlinda í opinberri eigu til orkuvinnslu og nær starfið jafnt yfir vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Fyrirhugað er að starfshópurinn skili skýrslu til ríkisstjórnar síðar á árinu.