Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1025  —  376. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, losun frá iðnaði og skráningarskylda).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin tók málið að nýju til umfjöllunar eftir 2. umræðu og fékk á sinn fund Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, og Aðalbjörgu B. Guttormsdóttur og Agnar Braga Bragason frá Umhverfisstofnun. Einnig átti nefndin símafund við Sif Konráðsdóttur frá Landvernd.
    Á fundinum voru til umræðu sjónarmið sem höfðu komið fram, m.a. í umsögnum Landverndar og Umhverfisstofnunar og við fyrri umfjöllun nefndarinnar, og lutu að skyldu Umhverfisstofnunar til að gefa út starfsleyfi að uppfylltum ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. a-lið 7. gr. frumvarpsins. Nánar tiltekið laut gagnrýnin að því að óvarlegt væri að kveða skýrt á um skyldu til leyfisútgáfu að þessum einum lögum uppfylltum því að útgefandi starfsleyfis þyrfti að líta til fleiri þátta en eingöngu laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Nefndin brást við þessari gagnrýni með breytingartillögu við 2. umræðu (þskj. 945) þar sem í c-lið 2. tölul. var lagt til að orðin „að teknu tilliti til annarrar löggjafar“ bættust við 3. málsl. 1. mgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins. Sú breytingartillaga var samþykkt. Ætlun nefndarinnar með breytingunni var að taka af skarið um að auk laga um hollustuhætti og mengunarvarnir þurfi útgefandi starfsleyfis að taka tillit til ákvæða annarra laga og reglugerða sem umsækjandi um starfsleyfi þarf að uppfylla áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfis er tekin. Að þessu leyti kunna einkum að koma til álita lög um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt, líkt og Umhverfisstofnun benti á í umsögn sinni um málið, ákvæði er varða loftgæði, haf og vatn, náttúruvernd, umhverfisáhrif o.fl.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 31. maí 2017.

Valgerður Gunnarsdóttir,
form.
Teitur Björn Einarsson,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Ásmundur Friðriksson. Guðrún Ágústa Þórdísardóttir. Gunnar Bragi Sveinsson.
Karen Elísabet Halldórsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Pawel Bartoszek.