Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1037  —  481. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, og lögum um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, nr. 49/2016 (fjöldi hæstaréttardómara, meðferð ólokinna sakamála).

(Eftir 2. umræðu, 31. maí.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

    46. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. skal frá gildistöku laga þessara ekki skipað í embætti hæstaréttardómara sem losna fyrr en þess gerist þörf til að fjöldi hæstaréttardómara verði sjö.

II. KAFLI

Breyting á lögum um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016, með síðari breytingum.

2. gr.

    Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Í stað orðsins „Dómstólaráð“ í 3. mgr. 123. gr. laganna kemur: Dómstólasýslan.

3. gr.

    Við 59. gr. laganna bætist nýr liður, svohljóðandi:
    Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 3. mgr. 202. gr. laganna kemur: Landsréttur.

4. gr.

    1. mgr. 78. gr. laganna, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016, orðast svo:
    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018. Þau taka ekki til ólokinna mála sem skotið hefur verið til Hæstaréttar með kæru við gildistöku þeirra. Þá taka þau ekki til ólokinna einkamála sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar við gildistökuna. Um meðferð þessara mála fer eftir eldri lögum eftir því sem átt getur við. Eftir ákvörðun forseta Hæstaréttar er heimilt að þrír dómarar skipi dóm í málum sem skotið hefur verið til réttarins áður en lögin öðlast gildi. Þau sakamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar fyrir gildistöku laganna og ekki er lokið við gildistöku þeirra skulu upp frá því rekin fyrir Landsrétti eftir lögum þessum. Ekki haggast af þeim sökum gildi þeirrar meðferðar sem mál hefur þegar sætt. Ef efni eru til skal mál tekið fyrir á dómþingi skv. 3. mgr. 204. gr. laga um meðferð sakamála til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess sem þar greinir.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.