Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1070  —  560. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um aðgerðir fyrir framkvæmdir við Vestfjarðaveg.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er að mati ráðherra raunhæfur tímarammi fyrir eftirfarandi aðgerðir svo að hægt sé að hefja fyrirhugaðar framkvæmdir við Vestfjarðaveg nr. 60, þ.e.:
     a.      breytingar á aðalskipulagi Reykhólasveitar og
     b.      setningu laga?


    Rétt er að taka fram að nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykhólasveitar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit eru á forræði sveitarfélagsins. Hvorki ráðuneytið né Vegagerðin sem framkvæmdaraðili hafa beina aðkomu að þeirri vinnu. Ráðuneytið hefur þó fengið upplýsingar frá Vegagerðinni þess efnis að á vegum sveitarfélagsins sé hafinn undirbúningur að breytingu á aðalskipulagi. Fram hefur komið að skipulagsbreytingin, ásamt nauðsynlegum rannsóknum sem Vegagerðin þarf að leggja til, geti tekið um átta til tíu mánuði.
    Sá tími sem tekur að undirbúa frumvarp til laga til framlagningar á Alþingi er mjög breytilegur eftir efni frumvarps og umfangi. Til að gæði lagasetningar verði sem mest þarf að fylgja tilteknum verkferlum við undirbúninginn og tryggja fullnægjandi samráð við hagsmunaaðila á öllum stigum málsins. Sérstök lagasetning vegna þessara framkvæmda er ekki til skoðunar og því er ekki unnt að fullyrða um raunhæfan tímaramma fyrir slíka vinnu.