Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1071  —  503. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Egilsdóttur um vinnu við sjö ára byggðaáætlun.


     1.      Hvernig miðar vinnu við tillögu til þingsályktunar um sjö ára byggðaáætlun, sbr. 3. gr. laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, og hvenær stefnir ráðherra að framlagningu hennar?
    Byggðaáætlun er unnin á grundvelli laga nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir.
Vinna við nýja áætlun fyrir árin 2018–2024 hófst snemma árs 2016. Gildandi lög fela í sér nýtt verklag sem færir ábyrgð á byggðaþróun yfir á hendur fleiri aðila en áður. Þá gildir byggðaáætlun til sjö ára í stað fjögurra áður og er nú samræmi á milli gildistíma byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta. Sóknaráætlunum er ætlað að útfæra svæðisbundnar áherslur byggðaáætlunar og taka mið af öðrum áætlunum ríkisins er varða stefnumörkun landshluta og framtíðarsýn.
    Byggðaáætlun er unnin af Byggðastofnun í umboði ráðherra en einnig í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Byggðaáætlun kemur inn á verksvið margra ráðuneyta og hefur aðkoma allra ráðuneyta verið tryggð strax á vinnslustigi áætlunarinnar. Við gerð hennar er auk þess haft samráð við sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra haghafa eftir þörfum.
    Á árinu 2016 var einnig fundað með samráðsvettvöngum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga og fulltrúum viðkomandi ráðuneyta, auk nokkurra stofnana. Í því samráðsferli komu fram þær tillögur sem fyrirliggjandi drög að þingsályktunartillögu byggjast á. Að öllu óbreyttu stendur til að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi um stefnumótandi byggðaáætlun með haustinu í samræmi við lög nr. 69/2015.

     2.      Er sérstaklega gætt að því við ofangreinda vinnu að greitt verði fyrir nýsköpun í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni?
    Nýsköpun í atvinnulífi utan borgsvæða hefur átt undir högg að sækja en borgir eru víða taldar uppspretta frumkvöðlastarfs, nýsköpunar og þróunar. Þangað hefur leið fólks legið frá svæðum þar sem störfum og fólki fækkar. Aðgengi að fjármagni til nýsköpunar utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið takmarkað og eftirsóknarvert væri fyrir byggðaþróun að auka aðgengi að þolinmóðu lánsfjármagni.
    Ein af áherslum nýrrar byggðaáætlunar er að nýsköpun í atvinnurekstri verði efld og aðgengi að fjármagni til nýsköpunar á landsbyggðinni aukið. Gerð er tillaga um að stofnaður verði sérstakur flokkur útlána hjá Byggðastofnun til að hvetja til nýsköpunar í atvinnulífi og auðvelda frumkvöðlum að koma hugmyndum í framkvæmd. Aðaláhersla byggðaáætlunar er uppbygging háhraðanettenginga en hraðvirkt og öruggt netsamband er ein meginforsenda nýsköpunar í atvinnulífi og raunar atvinnulífi almennt.
    Sem dæmi um verkefni í núverandi og komandi byggðaáætlun sem greiða fyrir nýsköpun má nefna:
     i.      Sóknaráætlanir landshluta eiga að taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar. Þær hafa fest sig í sessi og eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Sóknaráætlanir skiptast í uppbyggingarsjóði, sem eru samkeppnissjóðir, og áhersluverkefni sem landshlutasamtök sveitarfélaga leggja fram og miða að uppbyggingu innviða og öflugra stoðkerfi í einstökum landshlutum. Forgangsröðun verkefna í uppbyggingarsjóðum og áhersluverkefnum í hverjum landshluta byggjast á sóknaráætlun hans. Þannig er fjármunum sem varið er til verkefna á sviði atvinnu-, nýsköpunar-, byggða- og menningarmála ráðstafað af heimamönnum samkvæmt áherslum sem mótaðar hafa verið af breiðum hópi. Sóknaráætlunum er ætlað að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni hvers landshluta, sem og landsins alls. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna.
     ii.      Norðurslóðaáætlunin (NPA). Markmiðið með henni er að stuðla að bættu atvinnu- og efnahagslífi og eflingu búsetuþátta með fjölþjóðlegu samstarfi. Áherslur NPA eru á nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi, endurnýjanlega orkagjafa og orkusparnað, verndun náttúru og menningar og hagkvæma nýtingu auðlinda á norðurslóðum. Þátttakendur geta m.a. verið fyrirtæki, sveitarfélög, ríkisstofnanir, atvinnuþróunarfélög, mennta- og rannsóknastofnanir og frjáls félagasamtök.
     iii.      Ísland tekur einnig þátt í Norræna Atlantssamstarfinu (Nordisk Atlantsamarbejde – NORA) sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja, Grænlands og norður- og vesturhluta Noregs. NORA heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og er hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamstarfs. Áherslur NORA eru að styðja verkefni á sviði skapandi greina, grænnar orku, lífhagkerfis, sjálfbærrar ferðaþjónustu, rafrænna samskipta, velferðarþjónustu og björgunar og öryggis á hafi.

     3.      Verður í byggðaáætlun lögð áhersla á ívilnanir, svo sem skattalegar, fyrir fyrirtæki og einstaklinga á svæðum sem glíma við fólksfækkun til að styðja við slíkar byggðir?
    Í drögum að byggðaáætlun eru m.a. tillögur um aðgerðir sem lúta að afskriftum hluta námslána, álagi á barnabætur, niðurgreiðslur ferðakostnaðar og stiglækkandi tryggingagjaldi eftir fjarlægð frá Reykjavík.
    Þá hefur ráðherra óskað eftir því að kannað verði hvort ekki sé ástæða til að Íslendingar taki upp byggðakort sambærilegt þeim kortum sem Eftirlitsstofnun Evrópu (ESA) hefur samþykkt. Með því væri horft sérstaklega til þeirra svæða sem eru einangruð og atvinnuuppbygging erfið. Augljós rök standa til þess að fyrir hendi sé ákveðinn hvati í því skyni að styrkja undirstöður þeirra svæða sem standa höllum fæti og að þau fái meiri stuðning frá ríkisvaldinu en hin sem eru nærri höfuðborgarsvæðinu og þurfa ekki eins mikinn stuðning til uppbyggingar, til að mynda í atvinnulífinu.
    Gert er ráð fyrir að verkefninu „Brothættar byggðir“ verði fram haldið og áfram þróað verklag til að árangur af verkefninu verði sem mestur. Markmið verkefnisins er að auka frumkvæði íbúa, samtakamátt þeirra og vitund um eigin hlut í þróun samfélagsins. Með verkefninu er enn fremur unnið að því að stilla saman strengi ríkis, sveitarfélaga, opinberra stofnana, atvinnulífs og íbúa í ákvörðunum sem snerta viðkomandi byggðarlög.

     4.      Hefur verið horft til þeirra stuðningsaðgerða sem Norðmenn hafa gripið til á undanförnum áratugum til að styðja við byggðir sem glíma við fólksfækkun sem fyrirmyndar við gerð nýrrar byggðaáætlunar?
    Ýmsar tillögur í drögum að nýrri byggðaáætlun byggjast á aðgerðum sem önnur ríki hafa ráðist í og gefið hafa góða raun. Tillaga um skattalegar aðgerðir eiga sér fyrirmyndir í aðgerðum Norðmanna til að efla byggðir. Þá er fyrirmyndin að verkefninu „Brothættar byggðir“ sótt til Noregs.