Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1088  —  344. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um virðisaukaskatt á veggjöld í Hvalfjarðargöngum.


     1.      Hve miklu nemur innheimtur virðisaukaskattur af veggjöldum vegna aksturs um Hvalfjarðargöng frá því að umferð um göngin hófst? Svarið óskast sundurliðað fyrir hvert ár.
    Ráðuneytið óskaði eftir umræddum upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra og er sundurliðun að finna í eftirfarandi töflu. Fjárhæðir eru allar á verðlagi hvers árs.

Ár Útskattur
(millj. kr.)
1998 57
1999 117
2000 114
2001 125
2002 127
2003 127
2004 134
2005 146
2006 145
2007 81
2008 66
2009 65
2010 72
2011 73
2012 75
2013 77
2014 80
2015 131
2016 156
Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Að nafnvirði telur því innheimtur virðisaukaskattur af umferðargjöldum vegna aksturs um Hvalfjarðargöng, frá því umferð um göngin hófst árið 1998 og fram til ársloka 2016, samanlagt um 1.968 millj. kr. Samkvæmt gildandi lögum er 11% virðisaukaskattur lagður á aðgang að vegamannvirkjum, þ.m.t. á umferðargjald vegna aksturs um Hvalfjarðargöng. Ekki fengust upplýsingar um innskatt sem kemur til frádráttar innheimtum virðisaukaskatti.

     2.      Telur ráðherra eðlilegt að slíkur viðbótarvegtollur sem tekinn er í einum landshluta renni beint í ríkissjóð eða færi betur á að ráðstafa honum til uppbyggingar samgöngumannvirkja beggja vegna ganganna eða lækkunar veggjalds?
    Samkvæmt lögum nr. 45/1990, um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, var ríkisstjórninni heimilað að fela hlutafélagi að annast að nokkru eða öllu leyti undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, svo og rekstur um tiltekinn tíma. Í lögunum kemur jafnframt fram að heimilað sé að taka umferðargjald af vegtengingunni, enda liggi fyrir samningar við ráðherra um verkefnið og rétt til gjaldtökunnar. Í kjölfarið var undirritaður samningur milli samgönguráðherra og hlutafélagsins Spalar hf., nú Spölur ehf., dags. 23. júní 1993, sem staðfestur var með þingsályktun nr. 13/117 hinn 20. apríl 1994 vegna byggingar og reksturs Hvalfjarðarganga. Spölur ehf. hefur innheimt umferðargjald frá árinu 1998 vegna aksturs um Hvalfjarðargöng sem er skráð sem tekjur í rekstrarreikningi fyrirtækisins.
    Samhliða hefur Spölur ehf. innheimt virðisaukaskatt og skilað í ríkissjóð, sbr. lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og svar við 1. lið fyrirspurnarinnar. Tekjum ríkissjóðs vegna innheimtu virðisaukaskatts er ráðstafað í formi ríkisútgjalda í fjárlögum hvers árs án þess að sundurgreina þær eða marka tilgreindum verkefnum. Það er í verkahring Alþingis að ákveða til hvaða verkefna skatttekjum er ráðstafað sem í þessu tilviki eru eingöngu tekjur vegna innheimtu virðisaukaskatts, en samkvæmt lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, er meginreglan sú að marka ekki skatttekjur tilteknum stofnunum eða verkefnum. Afstaða ráðherra er í samræmi við þá efnisreglu í lögum um opinber fjármál.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að endurgreiða umræddan virðisaukaskatt með því að verja upphæðinni til vegaframkvæmda?
    Það er skoðun ráðherra að virðisaukaskattskerfið eigi að vera einfalt, skilvirkt, með sem breiðastan skattstofn og sem fæstar undanþágur. Allar endurgreiðslur í virðisaukaskatti leiða óhjákvæmilega til aukins flækjustigs í framkvæmd og er ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda um einfalt og skilvirkt virðisaukaskattskerfi með einu skatthlutfalli til lengri tíma litið. Sé pólitískur vilji fyrir því að auka fjármagn til vegaframkvæmda er eðlilegast að slíkt sé gert með beinum framlögum í fjárlögum en ekki gegnum virðisaukaskattskerfið. Að öðru leyti er vísað til svars við 2. lið fyrirspurnarinnar.