Ferill 512. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1089  —  512. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Einari Brynjólfssyni um samninga ráðuneytisins og undirstofnana þess við sveitarfélög.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða samningar ráðuneytisins og undirstofnana þess við sveitarfélögin voru í gildi 1. apríl 2017, hvaða samningar milli þessara aðila runnu út á tímabilinu 1. janúar 2006 til og með 1. apríl 2017 og eftir hvaða samningum var enn greitt 1. apríl 2017 þótt gildistími þeirra væri liðinn? Óskað er eftir stuttri lýsingu á efni hvers samnings fyrir sig.

    Samningur ráðuneytisins við Akureyrarbæ um menningarmál nær allt aftur til loka síðustu aldar og hefur verið endurnýjaður reglulega. Hann nær til framlaga ríkissjóðs til tiltekinna menningarverkefna á Akureyri. Meginmarkmiðið hefur verið að efla starf Listasafnsins á Akureyri sem meginstoðar myndlistar utan höfuðborgarsvæðisins, efla starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem og starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri, og nú síðustu árin að efla starfsemi menningarhússins Hofs þannig að það geti með öflugum hætti rækt það hlutverk sitt að vera eftirsóknarverður vettvangur fyrir listviðburði af landinu öllu, þjóni öllum Norðlendingum sem og skipuleggjendum listviðburða, listamönnum og gestum.
    Til menningarsamninga var fyrst stofnað árið 2001 þegar fyrsti samningurinn var gerður við Austurland en síðan komu önnur landsvæði inn hvert á fætur öðru utan höfuðborgarsvæðisins. Tilgangurinn var að efla menningarstarf og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt voru áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin. Menningarfulltrúar sem störfuðu á grundvelli samninganna stóðu fyrir daglegri starfsemi og Menningarráð úthlutuðu til margvíslegra verkefna sem mörg hver hafa orðið að föstum viðburðum um land allt og stóðu að þróunarstarfi. Árið 2015 var ákveðið að ráðuneytið tæki þátt í sóknaráætlun landshluta. Menningarmál falla nú þar undir og sérstakir menningarsamningar því ekki lengur við lýði. Markmið hinna nýju samninga er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála byggist á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem fram koma í sóknaráætlun landshlutans. Samningarnir kveða einnig á um að stuðlað skuli að jákvæðri samfélagsþróun, stoðir menningar treystar og samkeppnishæfni viðkomandi landshluta og landsins alls aukin.
    Þríhliða samningur ráðuneytisins, Listahátíðar í Reykjavík og Reykjavíkurborgar hefur lengi verið við lýði og er endurnýjaður reglulega. Samningur sem gerður var 1. janúar 2013 hefur verið framlengdur til loka þessa árs. Hlutverk Listahátíðar er að skipuleggja og standa að listahátíð í Reykjavík á sviði tónlistar, leik- og danslistar, bókmennta, myndlistar, hönnunar og fleiri listgreina. Hafa skal metnaðarfulla listsköpun að leiðarljósi og kappkosta að tefla fram framúrskarandi listafólki af hinu alþjóðlega sviði og því besta sem býr í listmenningu þjóðarinnar. Sérstaka áherslu ber að leggja á nýsköpun og aðra þá þætti íslenskrar menningar sem skapa henni sérstöðu í samfélagi þjóðanna.
    Samningur um Lækningaminjasafn við Seltjarnarnesbæ, Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðis fyrir safnið og menningartengda starfsemi. Gildistími var frá 27. september 2007 til 31. desember 2012.
    Þríhliða samningur ráðuneytisins, Tónlistarsafns Íslands og Kópavogsbæjar um rekstur safnsins. Meginhlutverk safnsins er að safna heimildum og gögnum um íslenska tónmenningu og stuðla að miðlun sögu íslenskrar tónlistar auk þess að stunda rannsóknir á sögu tónlistar og tónminja jafnframt því að leita samstarfs við aðrar stofnanir sem varðveita tónminjar. Gildistími var 23. janúar 2009 til 31. desember 2012. Safnið nýtur áfram fjárframlags þótt ekki sé samningur í gildi.
    Þríhliða samningur ráðuneytisins, Hönnunarsafns Íslands og Garðabæjar um rekstur safnsins. Frá árinu 1998 hefur reglulega verið endurnýjaður samningur við safnið um að vera miðstöð safnastarfsemi á sviði hönnunar með því að safna, varðveita, rannsaka og miðla þessum þætti menningarsögu Íslendinga. Nú um stundir eru ekki í gildi samningar við safnið en það nýtur áfram fjárframlags frá ráðuneytinu.
    Hvað varðar undirstofnanir ráðuneytisins þá var leitað svara hjá þeim sem starfa á sviði menningarmála. Svör þeirra hljóða svo:
     *      Gljúfrasteinn – hús skáldsins var opnað almenningi árið 2004. Safnið hefur allt frá árinu 2004 gert tvíhliða samning við Mosfellsbæ sem tekur að sér umhirðu lóðar. Gljúfrasteinn hefur enn afnot af geymslu í Hlégarði í Mosfellsbæ, safninu að endurgjaldslausu.
     *      Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Einn samningur var í gildi frá 1. janúar 2006 til 1. apríl 2017. Þar var um að ræða samstarfssamning við Akureyrarbæ um stafræna endurgerð á prentuðu efni í Amtsbókasafninu á Akureyri.
     *      Listasafn Íslands er með sölusamning við Höfuðborgarstofu um sölu á gestakortum. Samningurinn felur í sér að safnið kaupir kort af Höfuðborgarstofu og selur áfram til gesta en kortin veita aðgang m.a. að ýmsum menningarviðburðum. Gegn talningu gesta sem nýta sér kortið hjá safninu fær safnið hlutfall af tekjum vegna sölu kortanna. Samningur við Höfuðborgarstofu rann út á því tímabili sem um ræðir í fyrirspurninni og hefur verið endurnýjaður.
    Minjastofnun Íslands hefur gert nokkra samninga við sveitarfélög og 1. apríl 2017 voru eftirtaldir samningar í gildi:
     *      Leigusamningur um skrifstofuaðstöðu við Stykkishólmsbæ og hins vegar við Djúpavogshrepp.
     *      Samningur frá 2016 við Rangárþing ytra um styrk úr fornminjasjóði vegna gerðar miðlunarefnis um fornleifar á Hellu.
     *      Samningur við Djúpavogshrepp frá 2016 um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna viðgerða á gömlu kirkjunni á Djúpavogi.
     *      Samningur við Fasteignir Akureyrarbæjar frá 2017 um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna viðgerða á Sigurhæðum, Eyrarlandsvegi.
    Eftirtaldir samningar runnu út fyrir 1. apríl 2017:
     *      Samningur við Vesturbyggð frá 2014 um styrk úr fornminjasjóði vegna skráningar fornleifa á Látrabjargi.
     *      Samningur við Djúpavogshrepp frá 2105 um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna viðgerða á gömlu kirkjunni á Djúpavogi.
     *      Samningur við Sveitarfélagið Garð frá 2015 um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna viðgerða á Garðskagavita eldri.
     *      Samningur við Djúpavogshrepp frá 2014 um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna viðgerða á Faktorshúsinu á Djúpavogi.
     *      Samningur við Djúpavogshrepp frá 2013 um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna viðgerða á Faktorshúsinu á Djúpavogi.
    Samningar teljast fallnir úr gildi eftir að styrkþegi hefur sýnt fram á að hafa lokið hinu styrkta verkefni og þar með uppfyllt skilyrði fyrir útgreiðslu á eftirstöðvum styrks samkvæmt skilmálum samnings.
    Ráðuneytið fyrir hönd Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands gerði samning við Hafnarfjarðarbæ sem undirritaður var 28. maí 1996 um flutning á starfsemi Kvikmyndasafns Íslands til Hafnarfjarðar til 15 ára. Að þeim tíma liðnum var samningur um rekstur Bæjarbíós endurnýjaður til tveggja ára. Undir lok ársins 2013 var ljóst að samningsaðilar næðu ekki samkomulagi um endurnýjun samnings þeirra um bíórekstur og því lauk starfsemi Kvikmyndasafnsins í Bæjarbíói 1. júní 2014. Frá þeim tíma hefur enginn samningur verið í gildi milli bæjarfélagsins og Kvikmyndasafnsins.
    Ríkisútvarpið ohf. er með tvo samninga við sveitarfélag, annars vegar er um að ræða samning við Reykjavíkurborg um leigu á hluta húsnæðis þess að Efstaleiti 1 til Reykjavíkurborgar og hins vegar er samningur við Reykjavíkurborg um sameiginlegan kostnað í rekstri húseignarinnar að Efstaleiti 1.
    Auk lögbundins samnings milli ríkis og Reykjavíkurborgar um rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem Reykjavíkurborg leggur til 18% á móti 82% framlagi ríkisins til rekstrar hljómsveitarinnar var gerður 2 millj. kr. styrktarsamningur úr Borgarhátíðarsjóði Reykjavíkurborgar frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2016 fyrir tónlistarhátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Tectonics, árin 2014, 2015 og 2016.
    Þjóðminjasafn Íslands vísar annars vegar í samning aðila vegna Lækningaminjasafns Íslands sem að framan greinir og hins vegar til samnings milli Þjóðminjasafns Íslands og Seltjarnarnesbæjar um gæslu í Nesstofu sumarið 2014 vegna sýningarhalds Þjóðminjasafns í Nesstofu á Seltjarnarnesi sumarið 2014. Seltjarnarnesbær lagði til sumarstarfsmenn sem sáu um gæslu á sýningunni.
    Þjóðskjalasafn Íslands hefur í tæpan áratug gert samninga við nokkur sveitarfélög og/eða undirstofnanir þeirra (héraðsskjalasöfn) um verktöku. Þessir samningar hafa snúist um að vinna skráningarstörf fyrir Þjóðskjalasafn í þeim tilgangi að draga úr atvinnuleysi og auka fjölbreytni í atvinnulífi viðkomandi sveitarfélaga. Annars vegar var um að ræða uppskriftir á skjölum inn í gagnagrunn eða í ritvinnsluskjöl. Hins vegar var um að ræða flokkun og frágang skjala og skráningu þeirra í skjalaskrá. Með batnandi atvinnuástandi er þessum verkefnum að mestu lokið.
    Samningur er þó enn í gildi við Héraðsskjalasafnið á Ísafirði sem er rekið af Ísafjarðarbæ. Samningur hefur verið gerður árlega til eins árs í senn frá 2011, nú síðast í byrjun árs 2017, um skráningarstörf.
    Samningar Þjóðskjalasafns við sveitarfélög sem runnu út á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. apríl 2017:
     *      Verksamningur við Vestmannaeyjakaupstað, samningstími 04.02.2008 – 31.12.2009.
     *      Verksamningur við Vestmannaeyjakaupstað, samningstími 01.01.2010 – 31.12.2010.
     *      Verksamningur við Sveitarfélagið Skagafjörð, samningstími 01.01.2010 – 31.12.2010.
     *      Samkomulag um tímabundið atvinnuátak við Þróunarfélag Austurlands, f.h. sveitarfélaganna Breiðdalshrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar, og Vinnumálastofnun. Gilti 11.2011 – 02.2012.
     *      Verksamningur við Seyðisfjarðarkaupstað, samningstími 01.04.2013 – 31.12.2013.
     *      Verksamningur við Breiðdalshrepp, samningstími 11.01.2012 – 15.04.2012.
     *      Verksamningur við Breiðdalshrepp, samningstími 01.02.2013 – 31.12.2013.
     *      Verksamningur við Djúpavogshrepp, samningstími 18.11.2011 – 28.02.2012.
     *      Verksamningur við Djúpavogshrepp, samningstími 01.02.2013 – 31.12.2013.
    Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafa aðrar stofnanir ráðuneytisins á sviði menningarmála ekki gert samninga við sveitarfélög á því tímabili sem um ræðir.

Samningar ráðuneytisins við sveitarfélög á sviði mennta- og vísindamála.
    Ráðuneytið hefur gert eftirfarandi samninga við sveitarfélög á sviði mennta- og vísindamála:
    Reykjavíkurborg vegna Námsflokka Reykjavíkur. Samningur um ráðstöfun styrktar-/ rekstrarframlags í fjárlögum til verkefnis sem nefnist Náms- og starfskraftur og er framhaldsnám við hæfi fyrir nemendur sem ekki geta nýtt sér það námsframboð sem til staðar er á almennum brautum framhaldsskóla. Samningurinn var undirritaður 15. september 2013 vegna fjárlaga það ár með gildistíma áfram til þriggja ára. Samningurinn var framlengdur með viðauka 22. febrúar 2017 til 31. desember 2017.
    Samningar ráðuneytisins við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar um norræna Bíófílíuverkefnið í Reykjavík:
     *      1. janúar – 31. desember 2014. Undirritaður 29. desember 2014.
     *      1. janúar – 31. desember 2015. Undirritaður 23. mars 2015.
     *      1. janúar – 31. desember 2016. Undirritaður 12. maí 2016.
     *      1. janúar – 31. desember 2017. Undirritaður 28. desember 2016. Um kennslu Bíófílíuverkefnisins á landsbyggðinni.
    Við Hafnarfjarðarbæ um Námsflokka Hafnarfjarðar. Samningur um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum vegna þjónustu við fjarnemendur á háskólastigi. Gildistími frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2017. Kom í stað fyrri samnings frá 4. mars 2015.
    Við Vopnafjarðarhrepp um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum til Fræða- og þekkingarseturs á Vopnafirði. Gildistími er frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2016. Samningurinn var framlengdur með sérstökum viðauka 16. febrúar 2017 til 31. desember 2017.

Leitað var svara við fyrirspurninni hjá þeim undirstofnunum ráðuneytisins sem starfa á sviði mennta- og vísindamála. Svör þeirra eru eftirfarandi:
    Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur gert samtals 52 samninga við sveitarfélög um kennslu, túlkun, samskiptagreiningu og fleira frá 2006 til 2017. Sveitarfélögin eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavík, Höfn, Akureyri, Dalvík, Snæfellsnes og Eyrarbakki. Gildistími þessara samninga hefur að hámarki verið ein skólaönn hverju sinni. Allir eru þeir útrunnir nema einn samningur um kennslu við Reykjanesbæ.

Framhaldsskólar hafa gert eftirtalda samninga:
     *      Borgarholtsskóli, samning við Reykjavíkurborg og Ungmennafélagið Fjölni um notkun íþróttamannvirkja.
     *      Fjölbrautaskóli Suðurnesja, ótímabundinn samning við Reykjanesbæ um afnot af íþróttahúsi og sundlaug. Einnig hefur skólinn gert þjónustusamning sem gildir til 15. ágúst 2018 um aðkeypta sérfræðiþjónustu af fræðslusviði Reykjanesbæjar. Um er að ræða sálfræðiþjónustu til þess að stuðla að velferð nemenda og vinna gegn brotthvarfi.
     *      Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, samning við Sveitarfélagið Skagafjörð um afnot af íþróttahúsi frá 10. maí 2014. Samningurinn er uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara en er annars ótímabundinn. Samninga við sveitarfélög vegna dreifnáms á þremur stöðum, Hvammstanga, Hólmavík og Blönduósi. Sveitarfélögin greiða fyrir aðstöðu á hverjum stað og ríkið fyrir umsjónarmann dreifnáms og tilfallandi kostnað hjá skólanum vegna dreifnámsins. Samningur við Hvammstanga gildir frá 11. maí 2015 til 31. desember 2019. Samningur við Blönduós gildir frá 30. október 2013 til 31. desember 2016. Greitt hefur verið fyrir fyrri hluta árs bæði af hálfu ríkis og sveitarfélags. Nýr samningur er í vinnslu. Samningur við Hólmavík gildir frá 31. október 2013 til 31. desember 2017. Nýr samningur er í vinnslu.
     *      Fjölbrautaskóli Vesturlands, samning við Akraneskaupstað um afnot og leigu á íþróttahúsi og íþróttamannvirkjum.
     *      Framhaldsskólinn á Laugum, samning við Þingeyjarsveit um afnot og leigu íþróttahúss og sundlaugar.
     *      Menntaskólinn að Laugarvatni, samning um þjónustu bókasafns ML fyrir grunnskóla og íbúa sveitarfélagsins Bláskógabyggðar og samning um þjónustu mötuneytis ML fyrir grunnskóla og leikskóla sveitarfélagsins. Hádegismáltíðir eru sendar til skólanna en mötuneytið er sjálfseignarstofnun.
     *      Menntaskólinn á Ísafirði, samning við Ísafjarðarbæ um afnot af íþróttahúsi.
     *      Verkmenntaskóli Austurlands, samninga um skólaakstur og verknámsviku við Fjarðabyggð. Verknámsvikan er ein vika í júní þar sem nemendur í 9. bekk í grunnskólum í Fjarðabyggð sækja vinnustofur hjá kennurum skólans.

Háskólar hafa gert eftirtalda samninga:
    Háskólinn á Hólum. Samningur við Skagafjarðarveitur um sölu Skagafjarðarveitna á sjó til HH. Skagafjarðarveitur útvega skólanum sjó til fiskeldis. Samningur undirritaður 20. desember 2016 og er ótímabundinn og óuppsegjanlegur fyrstu 3 árin þó með ákvæði um mögulega endurskoðun eftir 2 ár.
    Háskóli Íslands hefur gert eftirtalda samninga við sveitarfélög og eru þessir í gildi:
     *      Viljayfirlýsing um áframhaldandi starfsemi á Laugarvatni – samningur við Bláskógabyggð.
     *      Samningur um mat á mögulegum verndarsvæðum í byggð – Fljótsdalshérað.
     *      Yfirlýsing Stofnunar rannsóknasetra HÍ um rannsóknarverkefnið Maður og náttúra – Fljótsdalshérað.
     *      Viljayfirlýsing um samstarf Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík og Norðurþings – Norðurþing.
     *      Samningur um nýtingu varnarsvæðis (stofnsamningur um Keili) – Reykjanesbær.
     *      Samningur um uppbyggingu stúdentagarðs og stækkun vísindagarðsreits – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um lóðir HÍ – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um lóðir fyrir Vísindagarða – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um leigu íþróttahúss HÍ við Háteigsveg 58 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um leigu á Stakkahlíð 1 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um jafnréttisrannsóknir – Reykjavíkurborg.
     *      Samstarfssamningur um undirbúning að stofnun friðarseturs – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um samstarf um margbreytileika- og kynjarannsóknir – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um úttekt á verk- og vinnulagi í sérfræðiþjónustu skóla í Reykjavík – Reykjavíkurborg.
     *      Viljayfirlýsing um uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi – Samband sveitarfélaga á Austurlandi.
     *      Samningur um styrk vegna rannsóknar á félagslegum þolmörkum íbúa vegna ferðamanna – Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.
     *      Húsaleigusamningur vegna Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Strandabyggð.
     *      Húsaleigusamningur vegna Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi – Stykkishólmur.
    Samningar HÍ sem runnu út á tímabilinu 2006 – 1. apríl 2017:
     *      Samningur um rannsóknir og tillögur á aðgerðum á veghleðslum á Breiðdalsheiði – Fljótsdalshérað.
     *      Samningur um rannsóknarverkefni í leikskólum – Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og Seltjarnarnes.
     *      Samningur um leigu lóðar við Sturlugötu 2 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um rannsóknarverkefnið Youth in Europe – Reykjavíkurborg og HR.
     *      Samningur um þróun náms, kennslu og rannsókna á sviði tómstundafræða – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um rannsóknir og kennslu á sviði tómstundafræða – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um styrk um verkefnið Auka og efla rannsóknir á menntun ungra barna – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um þróunarverkefni: Raddir barna 2009 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um rekstrarstyrk RannUng 2010 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um þróunarverkefni: Raddir barna 2010 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um rekstrarstyrk RannUng 2011–2012 – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um starfendarannsókn um samfellu milli leik- og grunnskóla: Á sömu leið – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um að styrkja og efla rannsóknir og menntun á uppeldi ungra barna í Reykjavík – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um að styrkja og efla rannsóknir og menntun á uppeldi ungra barna í Reykjavík – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um styrk til verkefnisins Velferð unglinga í vesturbæ Reykjavíkur – Reykjavíkurborg.
     *      Samningur um kennslu og rannsóknir á sviði velferðarmála – Reykjavíkurborg.
    Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafa aðrar stofnanir ráðuneytisins á sviði mennta- og vísindamála ekki gert samninga við sveitarfélög á því tímabili sem um ræðir.