Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1090  —  325. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé um starfsmannahald RÚV.


     1.      Hve margir verktakar störfuðu hjá RÚV hvert ár 2013–2016 og hve margir þeirra störfuðu samkvæmt ráðningarsamningi? Hvert var hlutfall verktaka af starfsmönnum stofnunarinnar og hvernig skiptust þeir eftir:
                  a.      RÚV – sjónvarpi,
                  b.      Rás 2,
                  c.      Rás 1,
                  d.      fréttastofu RÚV?
    Fyrirspurnin var send Ríkisútvarpinu sama dag og hún barst frá Alþingi með ósk um upplýsingar um þau atriði sem þar koma fram. Upplýsingar um efni fyrirspurnarinnar bárust frá Ríkisútvarpinu 11. apríl en þær voru að mati ráðuneytisins ekki fullnægjandi og því var ítrekað óskað eftir frekari upplýsingum, en þær bárust ráðuneytinu 31. maí.
    Hjá Ríkisútvarpinu eru starfsmenn annaðhvort ráðnir samkvæmt ráðningarsamningi, til lengri eða skemmri tíma, í fullt starf eða hlutastarf, eða gerðir eru verktakasamningar um framkvæmd einstakra verkefna. Skv. 5. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, er kostnaður við rekstur flokkaður annars vegar undir verkefni sem falla undir 3. gr. laganna, þ.e. fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, og hins vegar undir annan rekstur.
    Hjá Ríkisútvarpinu eru núna 258 stöðugildi og í þeirri tölu eru þeir sem eru í fullu starfi og þeir sem eru í hlutastarfi, sjá einnig undir 3. tölul. Fjöldi stöðugilda hefur dregist saman jafnt og þétt á undanförnum árum en árið 2013 var fjöldinn 297 og árið 2008 var hann 324. Kostnaður Ríkisútvarpsins vegna verktaka hefur verið mjög stöðugur undanfarin ár og er um 25% af heildarlaunakostnaði.
    Árstíðarsveiflur eru eðli málsins samkvæmt í fjölda og kostnaði við verktaka á hverju sviði. Verkefni þeirra verktaka sem vinna fyrir Ríkisútvarpið eru afar mismunandi, allt frá því að t.d. tónlistarmaður komi fram í eitt skipti í einum þætti eða til dagskrárgerðar í nokkra mánuði. Þá eru ýmis tilfallandi eða tímabundin verkefni sem ekki koma að dagskrá unnin í verktöku. Verktakar sem vinna fyrir Ríkisútvarpið samkvæmt þessari skilgreiningu skipta hundruðum á hverju ári. Miðað er við að verktakar vinni við verkefni sem ekki er hægt að skipuleggja í ráðningarhæft form, eins og t.d. fastar, fyrirfram skipulagðar vaktir eða dagvinnu. Kostnaður við verktaka skiptist u.þ.b. á þennan hátt eftir sviðum á árinu 2016:
       a.      RÚV – sjónvarp, 284 millj. kr.,
       b.      Rás 2, 77,8 millj. kr.,
       c.      Rás 1, 81 millj. kr.,
       d.      Fréttastofa RÚV, 57 millj. kr.
    Stjórn Ríkisútvarpsins fær mánaðarlega yfirlit yfir þróun stöðugilda og heildarkostnað verktaka sem starfa hjá félaginu.

     2.      Hve margir verktakanna voru með vikulega þætti eða tíðari?
    Verktakar eru ráðnir í tímabundin verkefni en dagskrársetning verkefna sem þeir vinna er með margvíslegum hætti. Gjarnan er um að ræða þáttaraðir, 4 – 6 þætti, sem er útvarpað eða eru sýndir vikulega meðan á sýningu stendur. Í bókhaldi Ríkisútvarpsins hefur ekki verið gert ráð fyrir skráningu verktöku með þeim hætti að hægt sé að draga út upplýsingar fyrir allt tímabilið sem beðið er um í fyrirspurninni en til að gefa mynd af umsvifum verktaka í dagskrárgerð er hér tekið mið af apríl 2017, en sá mánuður var nokkuð dæmigerður í þessu efni. Þá voru 66 verktakar sem komu að þáttagerð vikulega eða oftar. Eins og fyrr er getið er vinnuframlag hvers og eins mjög mismunandi, allt frá vikulegum þáttum í fullri lengd eða einungis stutt innslag í fréttum eða þætti. Hlutfall kostnaðar við verktöku í dagskrárgerð hefur verið með mjög svipuðu móti um árabil eða 25% af heildarlaunakostnaði.

     3.      Hve margir starfsmanna RÚV hafa ekki hlotið fastráðningu og hve stór hluti eru þeir af heildarstarfsmannafjöldanum? Upplýsingar óskast um heildarfjölda og skiptingu eftir hlutum stofnunarinnar, sbr. 1. tölul.
    Að meðaltali eru 5,2% stöðugilda Ríkisútvarpsins lausráðnir starfsmenn, aðrir eru fastráðnir. Tímabundnar ráðningar eru algengar vegna afleysinga, t.d. á sumrin og vegna tímabundinna verkefna. Þær eru algengastar á fréttastofu vegna eðlis starfsemi hennar. Tímabundnar ráðningar geta staðið að hámarki í tvö ár og skiptist á eftirfarandi hátt, sbr. 1. tölul.
       a.      RÚV sjónvarp, 3,25 stöðugildi,
       b.      Rás 2, 2 stöðugildi,
       c.      Rás 1, 0,5 stöðugildi,
       d.      Fréttastofa RÚV, 3 stöðugildi.

     4.      Hver er meðalstarfsaldur þeirra starfsmanna RÚV sem ekki eru fastráðnir og hver er meðalstarfsaldur hjá einstökum hlutum stofnunarinnar, sbr. 1. tölul.?
    Meðalstarfsaldur þeirra starfsmanna RÚV sem ekki eru fastráðnir í stofnunninni í heild eru 11,9 mánuðir. Annars skiptist meðalstarfsaldur hjá einstökum hlutum stofnunarinnar, sbr. 1. tölul., með eftirfarandi hætti.
       a.      RÚV – sjónvarp, 14,7 mánuðir,
       b.      Rás 2, 8 mánuðir,
       c.      Rás 1, 20 mánuðir,
       d.      Fréttastofa RÚV, 12 mánuðir.

     5.      Hver er lengsti starfsaldur einstaklinga sem ekki hafa fengið fastráðningu hjá einstökum hlutum stofnunarinnar, sbr. 1. tölul.?
       a.      RÚV – sjónvarp, 22 mánuðir,
       b.      Rás 2, 8 mánuðir,
       c.      Rás 1, 20 mánuðir,
       d.      Fréttastofa RÚV, 23 mánuðir.