Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1091  —  552. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Iðunni Garðarsdóttur um undirfjármögnun háskólastigsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra tilefni til þess að grípa til aðgerða vegna stöðu háskólastigsins í ljósi þess að þrátt fyrir ítrekuð fyrirheit stjórnvalda um að fjármögnun háskólastigsins verði í takt við það sem gerist í nágrannalöndunum gerir ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022 ráð fyrir áframhaldandi undirfjármögnun háskólastigsins?

    Megináhersla mennta- og menningarmálaráðuneytisins á sviði háskóla, eins og fram kemur í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022, er að efla gæði í háskólastarfi. Fjármögnun háskólanna er einn af mörgum þáttum sem horft er til í þessu sambandi. Þegar fjármögnun háskóla á Íslandi er borin saman við önnur ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) kemur í ljós að framlag íslenska ríkisins til háskóla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er svipað því sem gerist að jafnaði í ríkjum OECD. Hins vegar er heildarframlagið enn nokkuð lægra og einnig framlag á hvern nemanda. Ráðuneytið telur mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á fjármögnun og fyrirkomulagi hennar þar sem m.a. verði tekið mið af reynslu annarra landa af því að stýra aðgangi að háskólum, en slíkt tíðkast víðast hvar í mun meira mæli en á Íslandi. Þá hefur í erlendum úttektum á háskólakerfinu hér á landi verið bent á að fjármagni og kröftum sé dreift víða og að auka megi skilvirkni, samstarf og gæði með því að stækka stofnanir og skapa þannig öflugri einingar. Mikilvægt er að athuga hvort unnt sé að ná markmiðum um aukin gæði með því að auka skilvirkni í kerfinu, draga úr brotthvarfi nemenda og auka aðgangskröfur að háskóla, auk þess að efla fjármögnun. Í ráðuneytinu er nú unnið að endurskoðun á reiknilíkani háskóla, sbr. reglur um fjárveitingar til háskóla, nr. 646/ 1999, sem og undirbúningi að breytingum á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og 85/2008, með það fyrir augum að styðja betur við gæði í háskólastarfi.
    Áform um aukin framlög til háskóla koma fram í fjárlögum og fjármálaáætlun hvers árs og eru hluti af sameiginlegri stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist á hverjum tíma. Umræður og niðurstaða um fjárframlög til háskóla mun síðan birtast í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 sem lagt verður fram á Alþingi í haust.