Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1094  —  454. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Kötlu Hólm Þórhildardóttur um málefni fólks með ódæmigerð kyneinkenni.


     1.      Er fyrirhugað að bæta kyneinkennum við þær mismunarbreytur sem taldar eru upp í lögum á málasviði ráðherra?
    Jafnréttishugtakið hefur á síðustu árum verið að þróast í þá átt að jafnrétti er skilgreint í víðtækari merkingu þar sem hugtakið nær yfir fleiri þætti en jafnrétti kynjanna. Sú þróun hefur enn ekki endurspeglast í íslensku lagaumhverfi en vonir standa til að svo verði og má þar nefna aðgerð í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum þar sem gera á úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu málaflokksins. Þar verði kannað hvort markmið núgildandi laga sé í samræmi við alþjóðlega þróun og þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi. Það er von ráðherra að með úttekt á jafnréttislögum muni koma fram tillögur um að jafnrétti verði skilgreint í víðtækara samhengi en gert er í núgildandi lögum, enda er jafnrétti grunnstoð í sanngjörnu og réttlátu samfélagi.
    Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Frumvarpið hefur haft langan aðdraganda og var unnið í nánu samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins þar sem samkomulag náðist um ofangreindar orðskýringar og fór frumvarpið í opið umsagnarferli árið 2014. Ljóst er að málefni hinsegin fólks eru í mikilli þróun um þessar mundir og að frumvarpið nær ekki að fullu utan um þær breytingar sem átt hafa sér stað í þeim málaflokki. Kyneinkenni eru því ekki ein af þeim mismununarbreytum sem þar eru taldar upp. Aftur á móti er ljóst að þingheimur hefur möguleika á að fjalla ítarlegar um málið og gera breytingar á frumvarpinu kjósi hann svo.

     2.      Hefur ráðherra kynnt sér lagabreytingar Möltu í málefnum fólks með ódæmigerð kyneinkenni? Ef svo er, hyggst hann beita sér fyrir álíka breytingum hérlendis?
    Malta er í fremstu röð hvað varðar réttindi einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni og réttindi transfólks. Malta varð brautryðjandi í hinsegin baráttunni þegar samþykkt var þar framsækin löggjöf um kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu árið 2015. Meðal nýjunga í lögunum má helst nefna bann við ónauðsynlegum aðgerðum eða læknisfræðilegum inngripum á intersex-börnum. Umboðsmaður barna hér á landi hefur m.a. stutt þær breytingar. Þá var transfólki gert kleift að skrá kyn og/eða nafn sitt til samræmis við kynvitund sína án sérstakra kvaða, svo sem um að hafa áður fengið greiningu eða forsamþykki úr læknasamfélaginu.
    Unnið er að framkvæmdaáætlun um málefni hinsegin fólks í ráðuneytinu sem átt hefur sér langan aðdraganda. Við þá vinnu hefur verið horft til þróunar á alþjóðavísu varðandi réttindi hinsegin fólks, þar með talið til Möltu og annarra þjóða sem eru brautryðjendur í baráttunni. Þangað hafa fyrirmyndir verið sóttar.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér sérstaklega fyrir vernd og réttindum trans- og intersex-fólks hérlendis og þá hvernig?
    Unnið er að því að útvíkka jafnréttishugtakið í velferðarráðuneytinu og málefni transfólks og intersex-einstaklinga falla undir þá vinnu. Má í því sambandi nefna að í frumvarpi til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði er kynvitund ein þeirra breytna sem tilgreint er að ekki megi mismuna vegna og mun í því felast mikil réttarbót.
    Þá er unnið að framkvæmdaáætlun um málefni hinsegin fólks í velferðarráðuneytinu. Sú vinna hefur því miður dregist en ráðherra hefur áhuga á að ljúka þeirri áætlun enda mikil vinna sem liggur henni að baki. Í drögum að framkvæmdaáætluninni er lögð sérstök áhersla á að sjálfsákvörðunarréttur í samræmi við kynvitund og kyneinkenni sé tryggður í lögum. Einnig að tryggt sé að einstaklingar hljóti fulla vernd gegn hvers konar mismunun á grundvelli kynvitundar. Meðal aðgerða má nefna tillögu um nafnabreytingu til samræmis við kynvitund án sérstakra kvaða og tillögu um breytingu á skráningu kyns í þjóðskrá til samræmis við kynvitund án sérstakra kvaða. Þá má einnig nefna tillögur sem varða hinsegin fjölskyldur, svo sem aukna fræðslu fyrir fagaðila og foreldra barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni sem og að auknar verði rannsóknir og aðgerðir varðandi vanlíðan og sjálfsskaða hinsegin ungmenna. Þá taka tillögurnar einnig til þess að hugað verði sérstaklega að aðbúnaði hinsegin hælisleitenda en það er markmið að Ísland haldi áfram að vera meðal þeirra landa sem teljast leiðandi á alþjóðavettvangi hvað varðar mannréttindi hinsegin fólks.