Ferill 353. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1095  —  353. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um Unidroit-samninginn frá 1995.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra staðfesta Unidroit-samninginn frá 1995 sem snýst um aðgerðir gegn þjófnaði á og ólöglegum viðskiptum með menningarminjar?

    Unidroit-samningurinn sem var samþykktur árið 1995 og tók gildi 1. júlí 1998 hefur verið staðfestur af 38 ríkjum. Ísland hefur ekki staðfest hann en í ráðuneytinu er farið að huga að því hvort Ísland eigi að gerast aðili að samningnum. Unidroit er ekki alþjóðlegur samningur í líkingu við samninga UNESCO og Sameinuðu þjóðanna heldur er Unidroit óháð alþjóðleg stofnun sem vinnur að samræmingu á einkamálarétti í aðildarríkjunum og spurningin snýst um að gerast aðili að þessari stofnun eða ekki. Tilgangur stofnunarinnar er að kanna þörf og aðferðir við að nútímavæða og samræma lög innan aðildarríkjanna er varða einkarétt, sérstaklega lög er snerta alþjóðleg viðskipti. Unidroit á uppruna sinn í Þjóðabandalaginu og var upphaflega stofnað árið 1926 en endurvakið árið 1940 á grundvelli fjölþjóðlegrar samþykktar, stofnreglum Unidroit. Stofnunin hefur aðsetur í Róm.
    Fljótlega eftir að Unidroit tók gildi var farið að huga að því hvað Norðurlönd ætluðu að gera í tengslum við samninginn og var haldinn norrænn fundur um aldamótin síðustu þar sem fjallað var um viðbrögðin.
    Í ráðuneytinu stendur yfir vinna við fullgildingu á Haag-samningnum frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka. Sá samningur ásamt bókunum við hann er undirstaða seinni tíma samninga um menningarminjar á stríðstímum. Því er það forgangsverkefni að ljúka fullgildinu hans og í framhaldinu hefst vinna við aðra alþjóðlega samninga sem bíða staðfesingar þ.m.t. Unidroit-samninginn.