Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1096  —  582. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um menntun innflytjenda.


     1.      Hefur ráðherra skipað starfshóp til þess að fylgja eftir menntastoðinni samkvæmt þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019, nr. 63/145?
    Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ekki skipað formlegan starfshóp til að fylgja sérstaklega eftir menntastoð framkvæmdaáætlunarinnar í málefnum innflytjenda í heild sinni. Í ráðuneytinu er starfandi verkefnahópur um málefni innflytjenda sem hefur umsjón með nánari útfærslu menntastoðarinnar í samráði við velferðaráðuneytið. Gert er ráð fyrir að unnið verði að verkefnum framkvæmdaáætlunarinnar í mismunandi starfshópum eftir eðli verkefnanna.

     2.      Telur ráðherra koma til greina að Menntamálstofnun fái það hlutverk að safna upplýsingum og veita grunnskólum og framhaldsskólum ráðgjöf og stuðning við að auka aðgengi innflytjenda að móðurmálskennslu?
    Samkvæmt lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, er eitt af meginhlutverkum hennar að safna, greina og birta upplýsingar um menntamál. Upplýsingar um þann hóp nemenda sem fyrirspurn þessi snýr að falla þar undir. Ráðuneytið hefur ekki tekið það til sérstakrar skoðunar hvort fela eigi Menntamálastofnun að veita grunnskólum og framhaldsskólum ráðgjöf og stuðning til að auka aðgengi að móðurmálskennslu.
    Í grunnskólum bera sveitarfélög ábyrgð á framkvæmd skólastarfs í einstökum skólum og með hvaða hætti skólaþjónusta sveitarfélaga veitir ráðgjöf og stuðning til skólanna. Ráðuneytið er hins vegar reiðubúið að taka þátt í aðgerðum til að auka aðgengi að móðurmálskennslu í grunnskólum og mun m.a. af því tilefni láta vinna samræmdan leiðarvísi um móðurmálskennslu á öllum skólastigum.
    Af hálfu Menntamálastofnunar er nú þegar hægt að veita ráðgjöf á landsvísu í þessum málaflokki. Hjá stofnuninni, fyrir tilstuðlan samstarfs við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, er starfandi sérfræðingur í íslensku sem öðru tungumáli og kennslu tvítyngdra sem hefur það hlutverk að styðja við grunnskóla á landsvísu í menntun tvítyngdra nemenda. Menntamálastofnun hefur einnig verið falið að annast umsjón með stuðningi við framhaldsskóla til að sporna gegn brotthvarfi úr námi þar með talið brotthvarfi barna með annað móðurmál en íslensku. Hvort um frekari ráðgjöf og stuðning verður að ræða af hálfu Menntamálastofnunar hefur ekki verið ákveðið.

     3.      Eftir hvaða leiðum verður veitt fjármagn til að mæta markmiðum áætlunarinnar um íslenskukennslu fyrir foreldra skólabarna með annað móðurmál en íslensku?
    Ekki er gert ráð fyrir því í aðgerðaráætluninni að sérstöku fjármagni verði veitt til íslenskukennslu fullorðinna. Hins vegar gerir áætlunin ráð fyrir að unnin verði gæðaviðmið um íslenskukennslu fyrir fullorðna þar sem sérstaklega verði hugað að foreldrum skólabarna sem ekki tala íslensku. Vinna við það er ekki hafin. Fjármagni til íslenskukennslu fyrir fullorðna er úthlutað úr sjóði fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga. Styrkir eru veittir til fræðsluaðila, fyrirtækja og stofnana sem bjóða nám í íslensku sem ekki er hluti af almennu námi á grunn- eða framhaldsskólastigi. Sjóðurinn er í umsýslu Rannís og er úthlutað úr honum samkvæmt úthlutunarreglum. Fjármagn til þessara styrkja er ekki ætlað til að mæta kostnaði vegna aðgerðaráætlunar í málefnum innflytjenda.
    Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á innleiðingu framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda. Einstakar tillögur áætlunarinnar voru kostnaðarmetnar en ekki hefur verið úthlutað sérstöku fjármagni til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna innleiðingar á menntastoð hennar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur skoðað möguleika á að fjármagna hluta verkefna menntastoðar áætlunarinnar innan fjárhagsramma ráðuneytisins en mun jafnframt óska eftir millifærslum á fjármagni frá velferðarráðuneytinu svo tryggja megi farsæla innleiðingu hennar.