Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1097  —  250. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um auðlindarentu raforkufyrirtækja.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjar yrðu tekjur ríkissjóðs ef raforkufyrirtæki greiddu skatt af auðlindarentu til ríkissjóðs að norskri fyrirmynd, sbr. umfjöllun um Noreg í skýrslu Hagfræðistofnunar Auðlindarenta og nærsamfélagið: www.ioes.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/admin/c15_01.pdf?

    Sérstaki auðlindarentuskatturinn (n. grunnrenteskatt) á raforkufyrirtæki í Noregi er 34,3% af sérstökum skattstofni sem reiknaður er fyrir hverja virkjun fyrir sig. Skattstofninn samanstendur af reiknuðum sölutekjum að frádregnum rekstrarkostnaði, leyfisgjöldum, fasteignasköttum, afskriftum og sérstökum arðsemisfrádrætti (n. skjermingsfradrag). 1 Skatturinn er aðeins lagður á þær virkjanir sem eru með uppsett afl meira en 10 000 kVA (8 MW). 2 Flestar virkjanir sem falla undir þau skilyrði eru í eigu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkubús Vestfjarða og Orkusölunnar.
    Þau gögn sem matið á tekjum ríkissjóðs af auðlindarentuskatti að norskri fyrmynd byggist á eru upplýsingar Orkustofnunar um raforkuvinnslu eftir fyrirtækjum, meðalverði raforku á hverja kWst frá Orkustofnun og upplýsingum sem fram koma í ársreikningum fyrrnefndra raforkufyrirtækja. Ekki var unnt að fá upplýsingarnar fyrir hverja virkjun. Tekjumatið hér er þó ekki byggt á upplýsingum eftir virkjunum heldur eftir raforkufyrirtækjum og því aðeins um ákveðna nálgun að ræða. Byggt er á gögnum frá árinu 2015 nema annað sé tekið fram.
    Skattstofninn reiknast af sölutekjum sem eru margfeldi af raforkuframleiðslu og raforkuverði sem fæst á markaði. Ef raforkuframleiðsla er samkvæmt langtímasamningum er stuðst við samningsverð í stað markaðsverðs. Við útreikninga var miðað við að meðalraforkuverð væri 5,22 krónur/kWst á markaði. Það samsvarar meðalverði ársins 2015 samkvæmt Orkustofnun. Upplýsingar um raforkuverð samkvæmt langtímasamningum eru hins vegar ekki fáanlegar enda í flestum tilfellum um trúnaðarupplýsingar að ræða. Farin var sú leið að miða við 3,23 krónur/kWst (24,5 USD/MWst) sem er það raforkuverð til iðnaðarins að meðtöldum flutningi sem fram kemur í ársreikningi Landsvirkjunar. Til frádráttar kom kostnaður við raforkuflutning til þess að reyna nálgast verð án flutnings.
    Rekstrarkostnaður, leyfisgjöld, fasteignaskattar, afskriftir og sérstakur arðsemisfrádráttur er frádráttarbært frá reiknuðum sölutekjum við útleiðslu skattstofnsins í Noregi. Þessar upplýsingar fyrir íslensku raforkufyrirtæki voru fengnar úr ársreikningum þeirra. Þar sem starfsemi fyrirtækjanna einskorðast ekki alltaf við raforkuframleiðslu er aðeins litið á rekstrarkostnað í tengslum við raforkuframleiðslu en ekki heildarrekstur fyrirtækis. Það leiðir væntanlega til þess að áætlaður skattstofn sé ofmetinn að einhverju leyti.
    Mat á tekjum ríkissjóðs af auðlindarentuskatti að norskri fyrirmynd, miðað við núverandi skatthlutfall 34,3%, er samkvæmt framangreindum forsendum kringum 7 milljarðar kr. Árétta skal að hér er einungis um grófa nálgun að ræða en líkt og fram hefur komið eru niðurstöðurnar háðar ýmsum fyrirvörum og óvissuþáttum. Til að fá nákvæmara og áreiðanlegra tekjumat þarf að fara í viðameiri rannsóknarvinnu en þá sem fram fór við vinnslu þessa svars. Meðal annars þarf að afla mun ítarlegri gagna en fyrir liggja opinberlega um starfsemi raforkufyrirtækja, þar á meðal upplýsinga fyrir hverja virkjun fyrir sig og fá uppgefið raforkuverð langtímasamninga sérstaklega. Þá þarf einnig að skoða nánar hvort hinn sérstaki arðsemisfrádráttur sem notaður er við útreikning skattsins í Noregi eigi við hér á landi.
1    Skjermingsfradrag er tiltekið hlutfall, hér er stuðst við 1,5%, af verðmæti virkjana sem miðast við eðlilega arðsemiskröfu og er undanþegið skattlagningu.
2    Bæði hlutfall skattsins og skilyrði um uppsett afl hafa hækkað frá því skýrsla Hagfræðistofnunar kom út.